Metþátttaka í fjallaverkefnum FÍ

Hjalti Björnsson fararstjóri ásamt góðum hópi ferðafélaga í ferð um Lónsöræfi fyrir nokkrum árum.
Hjalti Björnsson fararstjóri ásamt góðum hópi ferðafélaga í ferð um Lónsöræfi fyrir nokkrum árum.

Mikill áhugi er fyrir fjallaverkefnum Ferðafélags Íslands á nýbyrjuðu ári og eru þau nú flest nærri fullbókuð. Áhugasamt göngufólk hefur flykkst í hina ýmsu fjalla- og hreyfihópa sem eiga það sammerkt að vera lokuð verkefni sem snúast um reglulegar fjallgöngur og  heilsubót.

„Ég tel óhætt að segja að það sé metþátttaka í ár,“ segir Hjalti Björnsson, umsjónarmaður verkefnisins Alla leið. En hvað er það sem fær fólk til að skrá sig í fjallaverkefnin? „Í grunninn er það löngunin til að fara út og hreyfa sig. Hópeflið sem skapast í svona ferðum spyrst út. Fullorðið fólk gengur í barndóm og fer að leika sér – því maður er manns gaman. Flestir koma vegna þess að þeir hafa haft spurnir af einhverjum sem hefur verið með áður. Svo hefur fólk mjög gaman af veðrinu og slarkinu.“

Meginmarkmið fjalla- og hreyfihópanna er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum – en jafnframt upplifun og ævintýri.

 Yfirskriftir fjalla- og hreyfiverkefnanna segja sína sögu: Alla leið, Fyrsta skrefið,  Næsta skrefið, Léttfeti, Fótfrár, Þrautseigur, Landvættir  og Svalur á fjöllum, en allar nánari upplýsingar um hvert verkefni má finna á hér.