Miklar umbætur við göngubrúna yfir Emstruá

Í vikunni fór vaskur hópur á vegum Ferðafélagsins upp í Emstrur til að laga aðkomuna að göngubrúnni sem liggur yfir Emstruá, skammt sunnan skálanna í Emstrum eða Botnum eins og réttara er að kalla skálasvæðið.

Síðasti spölurinn niður að Emstrubrúnni hefur lengi þótt erfiður. Göngumenn hafa þar þurft að klöngrast niður hála klöpp þar sem eini stuðningurinn hefur verið spotti og keðja. Þetta basl heyrir nú sögunni til því gríðarmiklar umbætur voru unnar á gönguleiðinni í blíðviðrinu sem gerði um miðja vikuna.

Teinar voru reknir ofan í klappirnar og sett upp sambærilegt handrið og er á öllum göngubrúnum á Laugaveginum. Þá voru mótaðar tröppur í steininn svo nú er hægt að ganga öruggum fótum niður að brúnni. Jafnframt voru festingarnar á keðjunni sunnan árinnar lagaðar og bergboltaðar við gljúfurvegginn.

Emstrubrú

Það var Valdimar G. Valdimarsson, rafeindavirki, sem bar þungann og heiðurinn af verkinu. Hann er mikilreyndur brúarsmiður og smíðaði einmitt brúna yfir Emstruána sem sett var þarna niður árið 1984. Honum til aðstoðar voru gamalkunnir FÍ sjálboðaliðar, þeir Torfi H. Ágústsson og Bragi Hannibalsson sem fóstrar skála FÍ í Þjófadölum. Þrír starfsmenn FÍ hjálpuðu einnig til við verkið, þau Stefán Jökull Jakobsson, Heiðrún Meldal og Halldór Hafberg Halldórsson.

Það mæddi mikið á vinnufólkinu því alls þurfti að bera ríflega 200 kíló af efni og verkfærum niður að ánni, þar á meðal níðþunga rafstöð. Veðrið lék hins vegar við hópinn eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og verkið kláraðist á mettíma.

Emstrubrú   Emstrubrú