Náttúran í húfi

Tómas Guðbjartsson við Hvalá í Árneshreppi
Mynd: Ragnar Axelssson/RAX
Tómas Guðbjartsson við Hvalá í Árneshreppi
Mynd: Ragnar Axelssson/RAX

Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands, hefur verið ötull baráttumaður fyrir verndun fossana í Ófeigsfirði.  „Þessa fossa mætti alveg eins kalla Gullfossa Strandanna,“ segir Tómas og vísar þá í fegurð þeirra og hve verðmætir þeir eru fyrir svæðið og ferðamennsku framtíðarinnar.

Myndefnið er mikilvægt
Tómas hafði samband við vin sinn og ferðafélaga, Ólaf Má Björnsson auglækni, og bað hann að koma með sér vestur til að taka ljósmyndir af þeim fossum í Árneshreppi sem var ógnað af fyrirhuguðum virkjunarframkvæmdum.  Þeir félagar birtu eina mynd á dag í þrjátíu daga á Facebook síðum sínum undir merkjunum #Fossadagatal á Ströndum. „Viðbrögðin voru sterk og við ákváðum í framhaldinu að gefa út Fossadagatal á prenti,“ segir Tómas. Með fossadagatalinu vildu þeir félagar kynna fegurð þessara ósnortnu víðerna með áherslu á þá hundruðu fossa sem eru á svæðinu.  „Sennilega er hvergi á Íslandi að finna jafn fjölbreytt fossalandslag og margir hverjir eru með þeim fegurstu á landinu,“ Segir Tómas.  Dagatalið vakti mikla athygli og seldist allt upplagið upp, eða alls 3.000 eintök.  „Þetta gaf okkur byr undir báða vængi,“ segir Tómas.

 

 

 

Ekki allir sammála
Tómas segir ekki alla sammála sér í þessari baráttu. „Við höfum fundið fyrir reiði á Ísafirði, meðal annars á opnum fundi sem við héldum þar í bæ,“ segir Tómas. „Margir eru okkur ósammála og á fundinum var töluð kjarnyrt í íslenska. Við höfum samt einnig fengið til okkar fólk úr bænum sem þakkar fyrir framtakið en af einhverjum ástæðum vill ekki koma fram opinberlega og tjá sig um málið.“

Brothætt byggð
„Árneshreppur er skilgreindur sem brothætt byggð og því hef ég fullan skilning á því að fólk vilji úrræði, ekki eftir tíu ár heldur strax. Þetta er aðalástæðan fyrir því að það hoppar á þennan virkjunarvagn og það er einmitt þess vegna sem er mikilvægt að bjóða íbúum upp á fleiri valkosti. Það eru fleiri leiðir en virkjun og stóriðja, við viljum biðja fólk að horfa til framtíðar fremur en einblína á skammtímalausnir,“ segir Tómas.

Ósnortin náttúra í húfi
„Við höfum engra hagsmuna að gæta nema náttúrunnar og erum að berjast fyrir því sem við teljum svo mikilvægt. Vestfirðir eru stórkostlegir og miklir hagsmunir í húfi að vernda þessi ósnortu víðerni. Ég hef ferðast þarna um alla firði og fjöll og þetta er stórkostlegt svæði,“ segir Tómas ennfremur.

„Það er ekki stór fylking sem hefur tekið að sér að brjóta ölduna. Ég veit að fleiri eru okkur sammála og hvet þá til að láta sig málið varða. Því fleiri brýnd sverð, þeim mun betra,“ segir Tómas að lokum og hvetur fólk til að láta í sér heyra í nafni náttúrunnar.

 


Fossinn Drynjandi í Hvalá í Árneshreppi. Tómas Guðbjartsson og
Ólafur Már Björnsson sjást ofarlega til hægri á myndinni. Fossinn er 77m hár.

Mynd: Ragnar Axelsson/RAX