Tímaritinu Úti dreift til allra félaga

Guðmundur Steingrímsson, annar ritstjóra Úti, afhenti Páli Guðmundssyni framkvæmdastjóra FÍ eintak a…
Guðmundur Steingrímsson, annar ritstjóra Úti, afhenti Páli Guðmundssyni framkvæmdastjóra FÍ eintak af blaðinu í gær.

Sumarblað tímaritsins Úti var að koma úr prentun og er á leið í búðir. Ferðafélag Íslands og útgáfufélagið Vertu úti ehf. hafa gert með sér samkomulag um að allir félagar í FÍ fái, til kynningar, eintak af þessu tölublaði og því næsta, sem kemur út í vetur. Félagar fá blaðið með árbókinni, sem nú er afhent í Mörkinni.

Blaðið á mikið erindi við útivistarfólk. Það fjallar um útivist, hreyfingu og áskoranir í íslenskri náttúru. Í þessu blaði prófar Halldóra Geirharðsdóttir leikkona að fara á brimretti, og ræðir í leiðinni um heimsreisu fjölskyldu sinnar, leiklistina, umhverfismálin, hreyfingu og konuna sem fer í stríð. Sauðhamarstindur er klifinn, fjallað um sex frábærar fjallahjólaleiðir, farið til Lofoten og á hæsta fjall Austurríkis, gengið með börnum og skilgreind ný og krefjandi áskorun á hálendi Íslands: Öræfaleiðin. Hún er 500 kílómetrar og tæki mánuð í göngu. 

Við vonum að félagar njóti blaðsins vel! Hægt er að gerast félagsmaður í Ferðafélagi Íslands á heimasíðu félagsins, www.fi.is