Útkall í Esjuna annan hvern mánuð

Fræðslu- og varúðarskilti var meðal annars komið fyrir við upphaf hinnar hefðbundnu gönguleiðar á Þv…
Fræðslu- og varúðarskilti var meðal annars komið fyrir við upphaf hinnar hefðbundnu gönguleiðar á Þverfellshorn.

Í gær voru afhjúpuð fræðslu- og varúðarskilti á þremur stöðum við Esjurætur. Skiltin eru við vinsælustu gönguleiðina á fjallið, Þverfellshorn, við Kerhólakamb og við Skarðsá þar sem gengið er á Móskarðshnjúka.

Mörg alvarleg slys hafa átt sér stað í Esju síðustu árin og er skemmst að minnast þess að ungur maður lést þar í byrjun þessa árs. Næstum sléttum fjórum árum fyrr lést þar kona en í báðum tilfellum voru viðkomandi aðilar á ferð með félögum sínum að vetrarlagi.

Fólk vanmetur aðstæður

Að sögn Smára Sigurðssonar, formanns Slysavarnafélagsins Landsbjargar vanmeta margir aðstæður á þessu heimafjalli höfuðborgarbúa en að vetrarlagi er um að ræða alvöru fjall og til þess að ganga á það þarf þekkingu og réttan útbúnað. 

Ofangreind slys eru ekki einu banaslysin í Esju að vetrarlagi, því árið 1979 fórust þar tveir ungir menn í snjóflóði og síðustu áratugina hafa þar verið fjölmörg alvarleg slys þar sem oft hefur litlu mátt muna. Björgunarsveitir hafa farið í útkall í Esjuna að meðaltali annan hvern mánuð, síðastliðin fjögur ár. 

Esjuskilti

 Gríðarlega fjölgun göngumanna á fjallið

„Esjan er fjölsóttasta útvistar- og göngusvæði landsins og gönguleiðin á Þverfellshorn er vinsælasta gönguleið landsins, þar sem tugir þúsunda ganga á fjallið ár hvert,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. „Ferðum á fjallið að vetrarlagi hefur fjölgað gríðalega mikið og skiptir mikilu mál að fólk sem gengur á fjallið sé vel útbúið og meðvitað um aðstæður sem geta skapast þar. Þess vegna teljum við mikilvægt að setja þar upp skilti til að vara fólk við.“

Ferðafélag Íslands hefur gert áhættumat fyrir nokkrar af þekktum gönguleiðum í Esjunni, meðal annars á Þverfellshorn og sést vel í því mati hversu krefjandi aðstæður geta orðið í hlíðum Esjunnar. Sjá hér áhættumat á fleiri fjöll. 

Uppsetning þessa þriggja skilta er samstarfsverkefni Ferðafélags Ísland og Slysavarnafélagsins Landsbjargar og eru félögin að skoða uppsetningu á sambærilegum skiltum á fleiri stöðum. Það er Árni Tryggvason, björgunarsveitarmaður og hönnuður, sem hannaði skiltið.

Skilti í Esju Skilti í Esju

Á mynd til vinstri: Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landbjargar og Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands. 
Á mynd til hægri: Árni Tryggvason, hönnuður skiltisins, Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri Safetravel og Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ.