FÍ Landvættir

Um verkefnið 2021

Búið er að loka fyrir skráningu inn í verkefnið árið 2021.
Skráning inn í FÍ Landvætti 2022 hefst í september 2021 og æfingar hefjast í byrjun nóvember.

....

Tvær æfingaleiðir standa til boða: FÍ Landvættir og FÍ Landvættir ½ .

Umsjónarmenn FÍ Landvætta eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall ásamt einvalaliði þjálfara sem allir eru þrefaldir, fjórfaldir og fimmfaldir Landvættir.


FÍ Landvættir

FÍ Landvættir er æfingaverkefni sem stendur í rúma 9 mánuði, frá nóvember til júlí loka og hefur það takmark að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna innan ársins. Landvættaþrautirnar fjórar eru eftirfarandi:

  • Fossavatnsgangan: 50 km skíðaganga. 17. apríl, 2021.
  • Bláalónsþrautin: 60 km fjallahjól. 12. júní, 2021.
  • Þorvaldsdalsskokkið: 25 km fjallahlaup. 3. júlí, 2021 (eða Jökulsárhlaupið: 33 km. 7. ágúst, 2021).
  • Urriðavatnssundið: 2,5 km vatnasund. 24. júlí, 2021.

FÍ Landvættir er hugsað fyrir venjulegt fólk sem nú þegar er í sæmilegu formi og hreyfir sig meira eða minna reglulega, fólk sem vill stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap. Verkefnið er ekki afreksverkefni á par við járnkarlaþrautirnar en hentar illa fyrir þá sem eru að taka sín fyrstu skref upp úr sófanum. 

Hópurinn er lokaður og æfir saman úti í náttúrunni á einni stórri æfingu í hverri viku, oftast annað hvort á laugardegi/sunnudegi eða þriðjudegi/fimmtudegi. Þess á milli æfir hópurinn eftir fyrirfram ákveðinni æfingaáætlun. 

Verkefnið hefst á svokölluðum Busadegi, laugardaginn 31. október, æfinga- og fyrirlestrardegi þar sem línur eru lagðar, kennt er á hreyfimælingar og nauðsynleg smáforrit sem fólk getur notað til að fylgjast með framvindu sinni, farið er í gegnum þrautirnar fjórar og þann útbúnað sem til þarf og hugað að persónulegri markmiðasetningu.

Í kjölfarið byrja æfingar. Fremstu sérfræðingar landsins stýra nokkrum æfingum og fara nánar í tæknileg atriði, líkamsbeitingu og búnað. Að auki fer hópurinn fjórum sinnum í nokkurs konar æfingabúðir yfir helgi, þar sem sjónum er beint að einni eða tveimur þrautum á tveimur dögum. 

Þátttakendur í FÍ Landvættum fá mikið persónulegt aðhald og þurfa að sýna fram á að þeir séu að æfa og undirbúa sig. Í janúar verður frammistaða þátttakenda metin sérstaklega og fólki beint yfir í hálfan Landvætt ef líkur eru á að tímamörkum þrautanna verði ekki náð. Lágmarkið er nokkurn veginn þannig að fólk geti í allra minnsta lagi skíðað og hlaupið 10 km á ójöfnu undirlagi (upp og niður) á undir 1:30 klst, hjólað 10 km á ójöfnu undirlagi á undir 40 mínútum og synt 1 km í vatni á undir 50 mínútum.

Fjöldi þátttakanda er takmarkaður.

Verð

Verð í verkefnið er 140.000 kr. Hægt er að skipta greiðslum, hafið þá samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533.
Innifalið í verði er árgjald FÍ 2021, 9 mánaða æfingaáætlun, ein sameiginleg æfing á viku, sérfræðifyrirlestrar og tækniæfingar, fjórar æfingahelgar, hópskráning í þrautirnar (skráningargjöldin í hverja þraut eru ekki innifalin), utanumhald og aðhald, Fésbókarhópur og Stravahópur. Að ógleymdum frábærum félagsskap og nýjum vinum :)


FÍ Landvættir ½

Hægt er að taka hálfan Landvætt og sérstakur æfingahópur undirbýr fólk fyrir það verkefni. FÍ Landvættir ½ taka þátt í sömu fjórum þrautum og Landvættir en vegalengdirnar eru styttri:

  • Fossavatnsgangan: 25 km skíðaganga. 17. apríl, 2021.
  • Bláalónsþrautin: 20 km fjallahjól. 12. júní, 2021.
  • Þorvaldsdalsskokkið: 16 km fjallahlaup. 3. júlí, 2021 (eða Jökulsárhlaupið: 21 km. 7. ágúst, 2021).
  • Urriðavatnssundið: 1,250 m vatnasund. 24. júlí, 2021.

Þessi hópur er hugsaður fyrir þá sem eru að koma sér af stað í fjölbreyttri hreyfingu úti í náttúrunni, fólk sem er að hefja sinn íþróttaferil, að byrja að æfa eftir hlé eða það fólk sem hefur æft eina íþróttagrein en langar að læra meira og útvíkka getuna. Þetta æfingaverkefni er einnig tilvalið fyrir þá sem vilja æfa sig upp í heilan Landvætt á þarnæsta ári 2022.

FÍ Landvættir ½ æfa jafnlengi og jafn mikið og FÍ Landvættir, þ.e. að meðaltali á einni sameiginlegri æfingu í hverri viku í rúma 9 mánuði en vegalengdirnar eru styttri og hraðinn minni. Hópurinn æfir saman úti í náttúrunni oftast annað hvort á laugardegi/sunnudegi eða þriðjudegi/fimmtudegi en fer þess á milli eftir fastmótaðri æfingaáætlun. Æfingar hefjast á Busadegi, sunnudaginn 1. nóvember, með fyrirlestrum og fræðslu ásamt léttum æfingum. Sérfræðingar hitta hópinn á nokkrum æfingum og boðið er upp á sérstakan fyrirlestur um næringarmál. Að auki fer hópurinn fjórar helgar í æfingabúðir til að æfa hverja þraut fyrir sig og boðið verður upp á kynningar- og afsláttarkjör á útbúnaði.

Fjöldi þátttakanda í verkefninu er takmarkaður, þjálfarar halda þétt utan um hópinn, veita aðhald og stuðning og fylgjast með framförum hvers og eins. 

Verð

Verð í verkefnið er 140.000 kr. Hægt er að skipta greiðslum, hafið þá samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533.
Innifalið í verði er árgjald FÍ 2021, 9 mánaða æfingaáætlun, ein sameiginleg æfing á viku, sérfræðifyrirlestrar og tækniæfingar, fjórar æfingahelgar, hópskráning í þrautirnar (skráningargjöldin í hverja þraut eru ekki innifalin), utanumhald og aðhald, Fésbókarhópur og Stravahópur. Að ógleymdum frábærum félagsskap og nýjum vinum :)