FÍ Hjól og fjall

Um verkefnið 2021

Hjól er afbragðs gott tæki til þess að stunda útivist með nýjum hætti. Á hjóli komast menn yfir lengri vegalengdir en gangandi og sjá land og náttúru með öðrum augum. Hjól og fjall á vegum FÍ snýst um að hjóla saman um forvitnilegar slóðir og stíga svo af hjólinu og taka stutta fjallgöngu eða langa eftir atvikum.
Hjólreiðar þjálfa jafnvægi, úthald og snerpu og margar rannsóknir sýna að fjölbreytt hreyfing er góð og því hentar vel að blanda saman hjólreiðum og göngu.

Umsjón: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Verð: 55.900 árgjald FÍ 2021 innifalið.

 

Kynningarfundur á facebook síðu FÍ, 27. ágúst kl. 20

Hvað þarf ég að eiga?

Þess er vænst að þátttakendur eigi fjallahjól og sæmilegan fatnað til skjóls og hlífðar á hjóli og göngu. Allir þurfa að eiga hjálm og hjólafestingu á bíl svo flytja megi hjólið á upphafsstað göngu. Léttur bakpoki undir nesti og annað er nauðsynlegur. Umsjónarmenn og fararstjórar vilja að ferðirnar séu í hefðbundnum anda Ferðafélags Íslands þar sem áhersla er lögð á fræðslu og upplýsingar um sögu og náttúrufar þeirra slóða sem ferðast er um.

Dagskrá FÍ Hjól og fjalls

 
Dagsetning Hvað Áfangastaður Lengd
31. ágú Kvöldferð Heiðmörk/Rauðhólar 15 km.
11. sep Dagsferð Fljótshlíð/Þjófá 35 km/stutt ganga
14. sep Kvöldferð Heytjarnarheiði 15 km
25. sep Dagsferð Haffjarðará/Litla-Hraun 25 km/stutt ganga
3. okt Dagsferð Fossárdalur/Kjós 30 km/stutt ganga
9. okt Dagsferð Kjós/Meðalfell 41 km/stutt ganga
12. okt Kvöldferð Mosfellsdalur 15 km
23. okt Dagsferð Reykjanes/Eldvörp 30 km

 

Ferðafélag Íslands áskilur sér rétt til að breyta, fresta eða endurskipuleggja dagskrá fjallaverkefna félagsins vegna sóttvarnarfyrirmæla í tengslum við Covid 19 eða annarra óviðráðanlegra aðstæðna.

Afbókunarskilmálar fyrir fjalla-og hreyfiverkefni:

  • Afbókun eftir að verkefni er hafið: Engin endurgreiðsla.

Tryggingar: Ferðafélag Íslands tryggir hvorki farþega sína né farangur þeirra. Farþegar ferðast með félaginu á eigin ábyrgð. Félagið hvetur fólk til að kaupa ferða- og slysatryggingar fyrir ferðir.

Smelltu á mynd til að bóka

 

Nánari lýsing

Heiðmörk/Rauðhólar
31. ágúst kl. 18.00
Hjólreiðin hefst á bílastæði við Elliðavatn. Þátttakendur hjóla saman um hinn fræga "Ríkishring" um Heiðmörkina eftir skógarstígum. Síðan verður hjólað út að Rauðhólum og gengið á einn þeirra til að fá sýn yfir þetta skemmda náttúruundur. Samtals vegalengd 15 km.

Fljótshlíð/Þjófá
11. september kl. 10.00
Þátttakendur hittast rétt við bæinn Vatnsdal ofan við Fljótshlíð. Þaðan verður hjólað eftir grófum malarvegum og jeppaslóðum að eyðibýlum norðan Þríhyrnings. Rauðnefsstaðir og Þorleifsstaðir eru áfangastaðir okkar. Á leiðinni til baka tökum við krók eftir bröttum malarvegi upp með Þjófá til þess að skoða sjaldséða fossa og finna Þjófahelli þar sem sagt er að útileguþjófar hafi leynst fyrr á öldum. Vegalengd á hjólinu er ca. 35 km og við það bætist stutt gönguferð að Þjófá.

 

Heytjarnarheiði
14. september kl. 18.00
Þátttekendur hittast við Hafravatnsveg við Geitháls. Þaðan verður hjólað um afkima og heiðalönd eins og Heytjarnarheiði og að Selvatni, Krókatjörn og Silungatjörn. Samtals vegalengd 15 km.

 

Haffjarðará/Litla-Hraun
25. september kl. 10.00
Þátttakendur hittast við Gerðuberg á Snæfellsnesi og hjóla þaðan norður fyrir Rauðamelskúlu og ganga á fjallið. Svo verður hjólað meðfram Haffjarðará allt til sjávar við Stóra-Hraun og þaðan hjólað/gengið um sjávarleirur að Litla-Hrauni þar sem Ásta Sigurðardóttir skáldkona ólst upp. Ævintýralegt ferðalag þar sem sæta þarf sjávarföllum. Samtals vegalengd 25 km og stutt gönguferð að Litla-Hrauni þegar hjólreið endar.

 

Fossárdalur/Kjós
3. október kl. 10.00
Þátttakendur hittast við Fossá í Hvalfirði og þaðan verður hjólað eftir línuvegi yfir Reynivallaháls og niður í Kjós. Leiðin liggur rétt við Sandfell í Kjós og verður gengið á fjallið. Síðan eftir sveitavegum niður Kjós og fyrir nesið inn i Hvalfjörð á ný. Vegalengd 30 km og stutt fjallganga.

 

Kjós/Meðalfell
9. október kl. 10.00
Þátttakendur hittast við Kiðafell í Kjós og hjóla þaðan um Miðdal og Eilífsdal að Meðalfellsvatni og svo hring um vatnið. Gengið verður á Meðalfellið. Vegalengd á hjóli 30 km en vegalengd á göngu 3 km með 300 metra hækkun.

 

Mosfellsdalur
12. október kl. 18.00
Þátttakendur hittast við Mosfellskirkju. Þaðan verður hjólað eftir ýmsum sveitavegum stóran hring um Mosfellsdal og horft eftir sögustöðum. Gengið/hjólað á Æsustaðafjall. Vegalengd 15 km.

 

Reykjanes/Eldvörp
23. október kl. 10.00
Þátttakendur hittast við bílastæði við Þorbjörn. Þaðan verður hjólað meðfram sjó út eftir Reykjanesi en um fáfarnari slóðir til baka með viðkomu við Eldvörp sem er stórkostleg gígaröð og mikið náttúruundur.