Eldri og heldri í hamingjugöngum FÍ

Eldri og heldri í hamingjugöngum FÍ

 

„Ég lenti einu sinni í því að ganga með lausa skrúfu í sjö daga ferð um Jökulfirði og Snæfjallaströnd. Ég hafði ökklabrotnað nokkrum árum áður og verið negld saman en gangan í lausu grjótinu gerði það að verkum að skrúfurnar losnuðu!“

Þetta segir fararstjórinn Ólöf Sigurðardóttir skellihlæjandi þegar hún er spurð um eftirminnilega atburði úr langri ferðaröð sinni undanfarna áratugi. Ólöf hefur unnið lengi við fararstjórn hjá FÍ og þess vegnar þekkja hana margir, ekki síst þau sem gengið hafa um Hornstrandir. Ólöf bætir því við að þótt skrúfa hafi losnað, þá hafi það sem betur fer ekki verið í höfðinu og að heppnin hafi eiginlega fylgt henni í öllum ferðum, hún hafi lent í sárafáum óhöppum í nær óteljandi ferðum sínum.

„Þó gerðist það eitt sinn,“ segir Ólöf allt í einu hugsi, „að þýsk kona sem fór oft með okkur á Hornstrandir lenti í því að fá samfall á hryggjarlið sem er óskemmtileg reynsla. Hún var komin vel á áttræðisaldur en var í góðu formi og létt á sér. Við gátum gefið henni verkjalyf en hún kenndi mér svo að búa til heitan bakstur sem hún gat svo legið á. Hann var gerður úr heitum, mörðum bökunarkartöflum sem settar voru í plastpoka og handklæði yfir. Þetta linaði aðeins sársaukann en þessa aðferð hafði hún lært sem unglingur í seinni heimstyrjöldinni í Þýskalandi áður en hún var send á austur vígstöðvarnar. Það var mjög áhugavert að verða vitni að því hvað hún naut þessa að vera á Hornströndum, svona langt frá heimsins vígaslóð.“

 

Skemmtilegar eldri og heldri göngur

Þessa dagana er Ólöf þó ekki á Hornströndum heldur nærri heimahúsum í höfuðborginni að mestu og leiðir göngur fyrir eldri og heldri félaga í FÍ. Þessar göngur hafa verið í fullri vikni frá miðjum september og munu standa fram í byrjun nóvember.

„Ég tók við þessum göngum vorið 2021 en þá höfðu þær verið áður á dagskrá FÍ tvisvar sinnum. Þetta verkefni stendur yfir í tvo mánuði, haust og vor og gengið er tvisvar í viku, í um 90 mínútur í senn. Þátttaka hefur verið mjög góð en hartnær hundrað manns skráðu sig í verkefnið síðastliðið vor. Það eru einnig margir sem fylgjast með á Facbook-síðunni okkar og eru e.t.v. á leiðinni að vera með!“

Það þarf enginn að óttast hamagang eða gusthlaup í göngunum með Ólöfu því hún stillir hraðanum í hóf, fer á svokölluðum Ólafarhraða sem er að þróast í að verða mælikvarði fyrir göngulag sem gleður eiginlega flesta nema kannski þá sem vilja aldrei anda með nefinu.

„Við göngum aðallega á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ólöf, „en förum einnig í einstakar göngur í nágrannasveitafélögunum. Núna í ágúst fór ég til dæmis dagsferð sem var öðru fremur miðuð við eldri borgara og ösluðum við í Ölfusá gamla þjóðleið um átta kílómetra langa milli Hrauns í Ölfusi að Arnarabæli. Þótt veðrið væri ekki sem best þá mættu 25 galvaskir þátttakendur. Sú elsta í hópnum var tæplega 91 árs og sló ekki feilpúst! Hún hefur gengið mikið í gegnum árin og gerir enn. Eldri borgarar sem stunda hreyfingu eins og göngur eru mjög góðar fyrirmyndir fyrir okkur sem yngri eru,“ segir Ólöf og brosir breitt.

Hefur mikinn áhuga á sögu Reykjavíkur

Ég hef lengi haft áhuga á sögu Reykjavíkur og hef því haft mikla ánægju af því að leiða þessar göngur eldri og heldri í borgarlandinu,“ segir Ólöf.

Hún veit líka mikið, er vellesinn um ótrúlegustu hluti og finnur alltaf eitthvað til frásagnar í ferðunum sem fær fólk til að sperra eyrun. Ólöf veit til dæmis alltaf af hverju gamalt hús er í nýlegu hverfi innan um allt það sem flokka má sem hámóðins eða hvers vegna nýtt hús er í eldra hverfi og stingur þar kannski örlítið í stúf. Ólöf er líka hnyttinn og oft beinlínis mjög fyndin.

„Við veltum fyrir okkur gömlum sveitabæjum í austurborginni fyrr og nú. Einnig höfum við reynt að ganga um skógræktarsvæði og græna reiti í borginni sem blasa kannski ekki við. Það eru einnig nokkrir staðir í borginni þar sem fæst gott útsýni yfir hana alla. Svo hef ég reynt að vera með einhvers konar þemu s.s. fjárborgir á höfuðborgarsvæðinu, verkamannabústaðir í Vesturbænum og Breiðholti, bakgarðar, friðlýst svæði í borginni og margt fleira.“

Borgin breytist og mennirnir með

Allt er í heiminum hverfult orti skáldið og vísindamaðurinn Jónas Hallgrímsson og borgin er brennd því marki og breytist meira að sega ört. „Það höfum við sko sannarlega séð í þessum eldri og heldri göngum,“ segir Ólöf. „Það hefur skipt okkur máli að göngustígar eru sífellt að verða fleiri og betri og gerir okkur kleift að fara auðveldar um borgina og fylgjast m.a. með þéttingu byggðar. En það er einnig nauðsynlegt að halda grænum svæðum og fjölga þeim því það er vel kunngt að það skiptir máli fyrir andlega og líkamlega vellíðan borgaranna. Við höfum reynt að velja mjúka stíga þar sem þeir fara betur með liðamótin en það þarf ekki að malbika alla göngustíga,“ segir Ólöf sem veit hvað hún syngur því hún hefur slitið mörgum skópörum í löngum göngum og stuttum í gegnum tíðina.

Ólöf segir að ótal rannsóknir sýni fram á að hreyfing utanhúss efli sál og líkama. „Það að ganga í hópi gefur líka færi á að kynnast nýju fólki eða rifja upp gamla vináttu eða kunningsskap. Mér hefur fundist vera afslappaður og góður andi í hópnum sem ég er mjög ánægð með. En eitt af heimsmarkmiðum SÞ er „heilsa og vellíðan“ og gönguferðir eru ein leið að því markmiði.“

 

Hamingjuna er að finna á Hornströndum

Þótt lífið hafi ekki alltaf verið ljúft á Hornströndum, enda eru þær við ysta haf með litlum grasrindum, nærri engu undirlendi og aðstæður ekki alltaf eins og nú er kallað mannsæmandi, þá er hamingjan þar eftir sem áður sterkur undirtónn í öllum göngum Ferðafélagsins. Ólöf segir að Hornstrandirnar kalli, ekkert ólíkt því sem segir í ljóði alþýðutónskáldsins Magnúsar Eiríkssonar, Óbyggðirnar kalla, það verður ekki undan því vikist að gegna þeim.

„Undanfarin sumur hef ég verið með ferðir á Hornstrandir, Strandir og í Jökulfirði ásamt Jóni Erni Guðbjartssyni fararstjóra FÍ og í þeim ferðum höfum við reynt að höfða til þeirra sem vilja fara sér hægar. Það er hægt að fara flestar leiðir ef farið er á hæfilegum hraða.“

Ólöf segist hafa farið flestar leiðir á Hornströndum síðastliðin 25 ár en hún kom þangað fyrst árið 1972, löngu áður en landsmenn höfðu uppgötvað þá töfra sem þar eru leiddir saman í ósnortnum víðernum, rústum af bæjum og byggðum og svo húsum sem hafa verið gerð upp af mikilli smekkvísi.

„En svo liðu yfir tuttugu ár þar til ég fór að ganga þar aftur. Það er hægt að ánetjast svæðinu og margir kannast við þá tilfinnngu,“ segir Ólöf og í svipnum er allt í einu eitthvað sem ber þess merki að hún hafi einmitt gert það, hreinlega ánetjast Hornströndum.

En svo segir Ólöf allt í einu að þótt Hornstrandirnar séu hennar uppáhaldssvæði þá hafi henni þótt einna eftirminnilegast að koma í Öskju af öllum þeim stöðum sem hún hefur stigið niður fæti.

„Það hafði mjög sterk áhrif á mig að vera í Öskju því náttúran þar er svo yfirþyrmandi og sterk. En það sem hefur heillað mig á Hornströndum er hvað íbúarnir þar áður fyrr þurftu að glíma við, ekki síst óblíða náttúru, bæði mikil veður og erfiðar aðstæður til búskapar. En það er einnig alveg einstaklega fallegt þar í góðu veðri og landslagið víða hrikalegt og heillandi.“

Ólöf hefur alla tíð verið stolt af því að vinna í þágu Ferðafélagsins og segist miklu muna hvað Ferðafélagið hefur hugað að öllum aldursskeiðum í sarfi sínu. „Allt frá ferðum í Ferðafélagi barnanna, að fjölmörgum verkefnum fyrir ýmsa hópa með ólíka getu til að takast á við ólíkar áskoranir að léttum ferðum fyrir okkur þessa eldri félaga. Fyrir okkur sem erum að komast á efri árin er mikilvægt að muna að með daglegri hreyfingu höldum við okkur styrkum og liprum lengur, bætum heilsuna og við höldum betur færninni til að lifa sjálfstæðu lífi.“

Öryggið aðalatriðið í bland við einstaka upplifun

Þegar fólk hefur gengið hvert sumar í áratugi er það nú alls ekki þannig að sólin skíni í heiði upp á hvern dag, þótt hún elski nú allt eins og segir í ljóðinu. Ólöf segist þó yfirleitt hafa verið heppin með veður þótt það hafi einstaka sinnum sett strik í reikninginn. Þannig var það til dæmis eitt sinn að vindhamurinn var slíkur að varla var hægt að hafa eld í kamínu í húsi í Hlöðvík því hann sló svo oft niður í strompinn að húsið fylltist af reyk. Hún og hennar hópur hafði þó yndislegt hús í Hlöðuvík til að halda frá sér kulda og regni en þá dagana hröktust margir göngumenn í skjól í skipsbrotsmannaskýlum á Hornströndum.

„Ég hef reynt að undirbúa ferðirnar vel og að sjálfsögðu lagt áherslu á að allir komi heilir heim. Mér hefur einnig fundist það skipta máli að halda hópinn í lengri gönguferðum því þegar hópur er um 20 og fleiri þá má búast við misjafnri getu og að allir ganga ekki á sama hraða. Þá vil ég helst ráða hraðanum svo allir getir verið samferða. Þetta fyrirkomulag kynni ég strax á undirbúningfundi og minni á að þegar ferð telst tveggja skóa ferð þá er það m.a. vegna gönguhraðans.“

 

Sérkennarinn síheppni

Ólöf fékk ást á landinu í æsku enda ferðaðist hún þá með fjölskyldunni á hverju sumri með tjaldið á bíltoppnum til að hafa yfir höfðinu allar nætur.

„Um tíu ára aldur hafði ég farið með fjölskyldunni eins langt norður, suður og austur um land eins og hægt var þá. Þessar ferðir hafa áreiðanlega orðið til þess að ég hef alltaf haft ánægju af ferðalögum og haft þörf fyrir þau.“

En hvað skyldi svo Ólöf okkar hafa gert annað en að ganga um landið með góðu fólki? Jú, hún hefur verið sérkennari í meira en 45 ár og meira að segja mátti hún ekki hætta þegar hún eiginlega vildi því hún naut slíkra vinsælda að hún var fengin ofan af því að hætta þegar hún mátti það sökum aldurs. En núna einbeitir hún sér bara að göngunum.

„Kennslustarfið er ekki svo ólíkt fararstjórastarfinu, margt sem er líkt og reynslan af kennslunni hefur komið sér vel,“ segir Ólöf sem naut sumrana í göngum á meðan hún kenndi, enda taldi hún það best af öllu til að hlaða batteríin.

„Við erum auk þess nokkrar vinkonur sem höfum gengið saman einu sinni í viku í um 35 til 40 ár. Við fundum það út að við hittumst of sjaldan og fórum því að ganga saman til að rækta tengslin og láta ekki vinnuna taka allan tíma okkar.“

 

 

Reykjarfjörður efstur á óskalistanum í sumar

Framundan hjá Ólöfu eru ekki bara heldri og eldri göngur í vetur því hún er núna að teikna upp ferð fyrir sama hóp á Strandir í sumar. Sú reisa hefur eiginlega verið árviss þar sem áherslan er á að njóta en ekki að þjóta. Þau verða saman með þá göngu hún og Jón Örn eins og tíðkast hefur síðustu ár. Í þeirri göngu er hægt að upplifa allt það besta sem Strandirnar bjóða auk þess sem gist er í upphituðu húsi í Reykjarfirði nyrðri í ævintýralegri náttúrufegurð og sundlaugin er steinsnar frá hlaðinu.

„Já, einmitt,“ segir Ólöf, „það verður gengið í rólegheitum um nágrennið í skjóli Drangajökuls og Geirólfsgnúps með léttar byrðar á daginn og lúin bein hvíld í heitri laug og potti á kvöldin.“

Það er ekki amalegt að skella sér í heita laug og láta líða úr sér gönguþreytuna áður en farið er í hátíðarkvöldverðinn sem er reyndar hvert einasta kvöld í göngu Ferðafélagsins í Reykjarfirði.