Ferð: Vatnaleiðin

Vesturland

Vatnaleiðin

Hlíðarvatn – Hítarvatn – Langavatn – Hreðavatn
Lýsing

Um er að ræða þriggja daga gönguferð frá Hallkelsstaðahlíð í Hnappadal að Bifröst. Leiðin liggur um söguslóðir og um stórbrotna náttúru. Gengið verður með dagpoka en svefnpokar, matur og annar búnaður verður trússaður milli gististaða.

Verð kr. 40.000 fyrir félagsmenn og kr. 45.000 fyrir utanfélagsmenn

Brottför/Mæting
23.júlí kl 12:00 Borgarnes
Innifalið
Rúta frá Borgarnesi að upphafsstað göngu og frá Bifröst í Borgarnes í lok göngu, trúss, gisting og fararstjórn.

Búnaður

Pakkað fyrir trússferð eða bækistöðvarferð

Í trússaðri ferð er farangur fluttur á milli náttstaða svo aðeins þarf að bera nauðsynlegan búnað fyrir einn dag í einu í léttum dagpoka. Mat, svefnpoka og tilheyrandi er pakkað ofan í trússtösku og flutt í náttstað, sem getur ýmist verið tjaldstæði eða skáli.

Þó að ekki þurfi í trússferðum að skera allan útbúnað niður eins og þegar gengið er með allt á bakinu þá er nauðsynlegt að pakka naumt. Oftast er takmarkað pláss í trússbílum og bátum og pökkun þarf að taka mið af því.

Bækistöðvaferð er svipuð trússferðum en þá er gengið með dagpoka út frá sama náttstað allan tímann, tjaldi eða skála. Í bækistöðvaferðum er farangur ekki trússaður á milli náttstaða og hægt að vera enn frjálslegri í pökkun en í trússferðunum.

Athugið að listinn hér að neðan er ekki tæmandi, heldur aðeins til viðmiðunar. Endanlegur búnaður fer eftir persónulegum þörfum, lengd ferðar og hvort sofið er í skála eða tjaldi. Ef gengið er á milli skála eða dvalið í skála, þá má þar oftast finna eldunaraðstöðu og matarílát auk salernis eða kamars með klósettpappír.

Göngufatnaður

  • Góðir gönguskór og mjúkir göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
  • Peysa úr ull eða flís
  • Göngubuxur / stuttbuxur

Í dagpokanum

  • Bakpokahlíf / plastpoki inni í bakpokanum
  • Áttaviti, landakort og GPS tæki
  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatnsbrúsi
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff um hálsinn
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður
  • Legghlífar, vaðskór og broddar, ef þurfa þykir

Í trússtöskunni

  • Svefnpoki og lítill koddi
  • Bolur til skiptana og til að sofa í
  • Auka nærbuxur og sokkar
  • Höfuðljós
  • Tannbursti og tannkrem
  • Sápa / sjampó
  • Lítið handklæði
  • Eyrnatappar
  • Skálaskór
  • Peningar
  • Núðlur eða pasta í pokum
  • Pulsur eða foreldaðar kjúklingabringur
  • Eitthvað gott á grillið
  • Kol og uppkveikilögur
  • Haframjöl
  • Brauð og flatkökur
  • Smjör og álegg, svo sem ostur, kæfa, hangikjöt
  • Hrökkbrauð og kex
  • Þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Kakó, te og/eða kaffi
  • Súpur
  • Krydd, t.d. salt og pipar

Ef sofið er í tjaldi þarf að auki í trússtöskuna

  • Tjald og tjalddýna
  • Prímus og eldsneyti
  • Eldspýtur
  • Pottur
  • Hitabrúsi og drykkjarbrúsi
  • Diskur og drykkjarmál
  • Hnífapör
  • Vasahnífur / skæri
  • Viðgerðasett, nál og tvinni, snæri og klemmur

Bókun í ferð:

Skráning fer fram með því að senda tölvupóst á netfangið: ffb@ffb.is

Nauðsynlegt er að skrá sig í ferðina í síðasta lagi 15. júní 2024.

1. dagur. Farþegar koma á eigin vegum í Borgarnes þriðjudaginn 23. júlí kl. 12:00, brottför með rútu kl 13:00 og ekið að Hallkelsstaðahlíð, þar sem gangan hefst. Gengið upp Hellisdal, um Klifsskarð yfir í Hítardal. Ef skyggni er gott verður gengið út á Rögnamúla. Ganga dagsins endar við Hólm, leitarmannahús í Hítardal þar sem verður gist. Gönguvegalengd um 12 km.

2. dagur. Gengið austur Þórarinsdal og upp úr botni dalsins niður í Langavatnsdal við norðurenda Langavatns. Þaðan er gengið út með Langavatni og gist í leitarmannahúsi á Torfhvalastöðum. Gönguvegalengd um 23 km.

3. dagur. Gengið frá Torfhvalastöðum að Beylá og þaðan yfir Beylárheiði. Gengið á Vikrafell ef útsýni er gott. Annars er gengið niður að Vikravatni og þaðan norður fyrir Vikrafell þar til komið er á gönguleiðina niður að Hreðavatni og þaðan að Bifröst þar sem rútan bíður okkar og ekur okkur aftur í Borgarnes. Gönguvegalengd um 18 km.