Um FÍ

Fjölmennt áhugamannafélag

Ferðafélag Íslands er áhugamannafélag um níu þúsund félagsmanna og hefur frá stofnun, árið 1927, unnið að margvíslegri þjónustu fyrir ferðamenn.

Tilgangur félagsins er að stuðla að ferðalögum á Íslandi og greiða fyrir þeim. Þetta gerir félagið meðal annars með skipulagningu fjölbreyttra ferða ásamt uppbyggingu og rekstri fjallaskála víða um land. Jafnframt með viðamiklu útgáfustarfi, merkingu gönguleiða og upplýsingagjöf.

Auk fjölbreyttra ferða er margs konar félagslíf innan vébanda FÍ, svo sem myndakvöld, námskeið og þemaferðir af ýmsu tagi. Margvísleg fjallgöngu- og gönguhópar starfa einnig undir merkjum félagsins.

Ferðafélag Íslands stendur rekur ekki rútuþjónstu eða siglingar en á samstarf við viðurkennda aðila um slíka þjónustu. 

Merki félagsins er hægt að sækja á "PDF" formi: Hér

Deildir og félög

Innan vébanda Ferðafélags Íslands starfa 15 deildir um land allt. Deildir FÍ starfa samkvæmt lögum Ferðafélagsins standa fyrir ferðum, reka gistiskála og sinna fræðslu og útgáfustarfi í heimabyggð.

Ferðafélag Íslands stofnaði Ferðafélag barnanna árið 2009 með það að höfuðmarkmiði að hvetja börn og foreldra til útiveru og samveru í náttúru Íslands. Allar ferðir Ferðafélags barnanna eru farnar á forsendum barna og sniðnar að þörfum þeirra.

Ferðafélag unga fólksins, FÍ Ung, var stofnað sumarið 2015 með það markmið að hvetja ungt fólk á aldrinum 18-25 ára til að ferðast um Ísland, kynnast landinu og njóta útiveru í góðum félagsskap.

Útgáfa

Á hverju ári gefur Ferðafélag Íslands út heimilda- og fræðslurit, kort og bækur, að ógleymdri árbók félagsins. Fyrsta árbókin kom út árið 1928 og hefur síðan komið út árlega í óslitinni röð og er einstæður bókaflokkur um land og náttúru. Þá hefur Ferðafélagið um árabil gefið út sérrit með leiðarlýsingum á göngusvæðum eða öðrum fróðleik er tengist náttúru, sögu og lífríki afmarkaðs svæðis.