Börn á göngu

Börn eru aldrei fyrirstaða í gönguferðalögum. Auðvitað þarf að laga ferðaáætlunina að aldri og þörfum barnanna og þeir fullorðnu þurfa að temja sér ákveðna þolinmæði, því þeir munu hvorki ganga eins hratt né eins langt og áður.

Á móti kemur að við sem eldri erum fáum tækifæri til að upplifa náttúruna upp á nýtt í gegnum augu barnsins og lærum að dást að hinu smáa sem á vegi verður, svo sem köngulóarvef og daggardropa, gjótu í hrauni eða polla á steini.

Börn á göngu

Ungabörn

Nokkurra mánaða gömul börn má setja framan á sig í burðarpoka og ganga með um fjöll og firnindi. Þegar börn eru farin að geta setið upprétt er hægt að setja þau á bakið í þar til gerða burðarpoka og þannig geta foreldrar hæglega gengið með börnin sín, til dæmis í trússuðum gönguferðum.

Hér gildir að hafa í huga að þó að þeim fullorðna sé heitt á göngunni þá situr barnið kyrrt og þarf því að vera vel klætt og varið m.a. fyrir sól og vindum.

Leikskólaaldur

Erfiðasti aldurinn til að ganga með börn er frá því að þau verða of þung í burðarpokann og þar til að þau geta farið að ganga einhverjar vegalengdir sjálf. Það fer eftir þyngd og líkamlegri hreysti barnanna hversu langur tími þetta er, en hægt er að miða við frá tveggja, þriggja ára aldri til u.þ.b. fimm ára.

Á þessum aldri er best að fara í styttri dagsferðir, til dæmis út frá tjaldi eða skála, skoða fjörur og gil, hoppa í mosa og pollum, búa til músahús úr trjágreinum og laufblöðum, stífla læki og stikla á steinum. Börn á þessum aldri ættu þó að fá sínar gönguáskoranir enda geta þau hæglega gengið á flest lægri fjöll, eins og t.d. Úlfarsfell í Mosfellsbæ eða Valahnúk í Þórsmörk.

Grunnskólaaldur

Að öllu jöfnu eru börn fær um að ganga flestar styttri dagleiðir frá fimm, sex ára aldri. Auðvitað er mikilvægt að fyrsta ferð fimm ára barns sé ekki fjögurra daga ferð um Laugaveginn en fimm ára börn geta hins vegar gengið slíkar vegalengdir án nokkurra vandkvæða, hafi þau vanist útiveru og göngum.

Passa þarf að börnin séu aldrei svöng, aldrei kalt og aldrei leið og stundum þarf að hvetja þau áfram með því að láta þau keppa að einhverju takmarki eða láta þau gleyma þreytunni með því að segja þeim spennandi sögu á meðan gengið er. Gott er að skipta göngunni upp í sjáanlega áfanga (þegar komið er að þessari á, þessum kletti, undir þetta fjall) þar sem hægt er að stoppa, hvíla, nasla og dunda. Gera þarf ráð fyrir að gangan taki allt að helmingi lengri tíma en þegar bara fullorðnir eru á ferð.

Unglingar

Frá 10 ára aldri byrja börn að sýna meira sjálfstæði í ferðalögum og á göngu og eru farin að geta gengið til jafns við fullorðna. Þau vilja gjarnan taka vini sína með, virðast geta gengið endalaust og gleyma sér oft á vinaspjalli svo að helsta verkefni foreldranna getur falist í því að passa að þau gangi ekki eitthvað út í buskann og týnist!

Á þessum aldri vilja krakkar oft fá að reyna meira á eigin getu og prufa eitthvað nýtt. Þeim finnst gaman að klifra og skrönglast um hella, sigra fjallstoppa, vaða ár, skoða kort og plana gönguleiðir.