Góð ráð fyrir foreldra

Foreldrar, óttist ei! Því fer fjarri að leggja þurfi ferðalögin til hliðar þó að börn bætist í hópinn. Þvert á móti opnast nýjar víddir þegar byrjað er að ferðast með börnum enda sjá þau hlutina oftast í aðeins öðruvísi ljósi en hinir fullorðnu.

Nokkur almenn heilræði

 • Passið að börnin drekki vel á göngu. Jafnframt þarf að passa upp á að þau haldi ekki í sér pissi, því það getur leitt til þess að þeim verði kalt og fái verk í magann.
 • Bakpokar eru ekki vatnsheldir svo það þarf að pakka öllu sem ekki má blotna í plastpoka ofan í pokann.
 • Ef skór eru blautir er ágætt að fara í þurra sokka og svo í plastpoka ofan í skóna. Þetta er þó ekki lausn til lengri tíma þar sem að lokum myndast raki innan í plastpokunum.
 • Alltaf ætti að bæta á sig fötum í stoppum. Líkaminn er fljótur að kólna niður þegar hann er ekki á hreyfingu.
 • Gott er að mæta smávægilegum hitabreytingum með húfu og vettlingum. Þessir hlutir ættu því alltaf að vera aðgengilegir í bakpokanum.
 • Ullarfatnaður er að jafnaði besti ferðaklæðnaðurinn enda heldur ullin einangrunargildi sínu og er hlý þótt hún sé vot.
 • Bómullarfatnaður er afleitur ferðafélagi því bómullin verður bæði þung og köld þegar hún blotnar og þornar illa.
 • Gallabuxur eru aldrei leyfilegar á fjöllum enda beinlínis lífshættulegt að verða blautur í slíkri flík.
 • Sólgleraugu með vörn gegn útfjólubláum geislum eru líka mikilvæg fyrir börn. Festið þau með bandi um hálsinn svo þau týnist ekki.
 • Gott er að hafa sólarkrem með hárri vörn meðferðis, bæði í vetrar- og sumarferðum og líka í skýjuðu veðri á fjöllum, því þá er ekki síður mikilvægt að bera vel á nef og kinnar.
 • Í miklum kulda á veturnar er nauðsynlegt að bera feitt krem, t.d. sérstakt kuldakrem, á kinnarnar.
 • Ef barnið á að bera bakpoka þá ætti hann að vera mjög léttur, helst bara með nesti barnsins eða aukapeysu, húfu og vettlinga. Barn undir átta ára aldri ætti aldrei að bera meira en sem nemur 1/10 af þyngd sinni.
 • Það getur verið ágætt að láta eldri börn hafa einn göngustaf og stilla hann rétt fyrir þeirra hæð. Stafir gera hins vegar minna gagn hjá yngri börnum og vilja oftast bara flækjast fyrir fótunum á þeim.
 • Ungum börnum finnst oft gaman að ganga með einhvers konar létt stafprik, t.d. úr bambusi, trjágrein eða jafnvel bara flugeldaprik sem þau geta notað til að pota í það sem á vegi verður.