Algengar spurningar varðandi skála

Hér er að finna svör við algengustu spurningunum varðandi skálana okkar

Þarf að bóka fyrir fram?

Já, til að tryggja pláss í skála þarf að bóka fyrir fram. Ef ferðast er í júlí eða ágúst er um að gera að bóka með sem mestum fyrirvara. 

Hvernig rúm eru í skálunum?

Það eru kojur í öllum skálum og sum staðar geta gestir þurft að deila koju með öðrum ferðalöngum. Skálaverðir sjá um að útdeila gestum plássi í skála. Talið við skálavörð áður en þið farið inn í skála. 

Get ég tengst netinu í skálunum?

Það er ekki mögulegt að tengjast þráðlausu neti í skálunum okkar. Hægt er að tengjast 4G neti víða á skálasvæðum. 

Hvernig er símasambandið á Laugaveginum?

Símasambandið er ágætt á flestum stöðum, en stundum gæti þurft að fara upp á næsta hól til að ná sambandi. Ekkert símasamband er við skálann í Emstrum. 

Skiptir máli hvora áttina Laugavegurinn er genginn?

Já, það er aðeins bókað í skálana á Laugaveginum frá norðri til suðurs, þ.e. frá Landmannalaugum til Þórsmerkur.

Kemst ég í sturtu á Laugaveginum?

Já, það er hægt að komast í sturtu í öllum skálum á Laugaveginum nema í Hrafntinnuskeri. Sturtan kostar 900 kr. og hægt er að greiða bæði með korti og reiðufé. 

Er hægt að hlaða raftæki í skálum Ferðafélagsins?

Nei, það er ekkert rafmagn í skálunum okkar og því hvergi hægt að hlaða. Við seljum hleðslubanka í skálunum á Laugaveginum og víðar fyrir 8000 kr.

Þarf að koma með eigin eldhúsáhöld?

Nei, í skálunum okkar er allur borðbúnaður sem þarf til að elda og borða einfaldar máltíðir; gashellur,  pottar, pönnur, diskar, skálar og hnífapör. Einnig eru uppþvottalögur og -bursti, viskustykki og tuskur í öllum skálum. 

Hvernig get ég nálgast óskilamuni?

Allir óskilamunir eru sendir á skrifstofuna okkar í Reykjavík. Best er að senda fyrirspurn þangað í tölvupósti. 

Hvernig get ég borgað fyrir vörur sem ég kaupi í skálunum?

Við tökum bæði við kortum og reiðufé í skálunum okkar.
*ATH* Skálarnir okkar eru flestir á hálendi Íslands og því getur komið fyrir að netsamband detti út tímabundið, t.d. vegna veðurs eða bilana í sendum, sem veldur því að ekki er hægt að nota greiðslukort til að greiða fyrir varning. Því er ávalt gott að hafa reiðufé meðferðis í ferðalög um hálendið ef ætlunin er að kaupa þjónust eða varning.  

Ertu klósett eða kamrar á Laugaveginum?

Það eru vatnssalerni í öllum skálum nema í Hrafntinnuskeri en þar er kamar. Það er bæði klósettpappír og handsápa á klósettunum. 

Þarf ég að taka með mér vatn þegar ég geng Laugaveginn?

Nei, það er rennandi vatn í öllum skálum. Í einhverjum skálum stendur stór pottur með heitu vatni á hellu í eldhúsinu. Mikilvægt er að potturinn sé alltaf fullur og því þarf að gæta þess að setja í hann jafn mikið og tekið var úr honum.   

Fæ ég endurgreitt ef ég hætti við ferðina?

Hér eru endurgreiðsluskilmálarnir okkar:
Afbókun 30 dögum fyrir dagsetningu 85% endurgreiðsla gistigjalds.
Afbókun 29 -14 dögum fyrir dagsetningu, 50% endurgreiðsla af gistigjaldi.
Afbókun 13-7 dögum fyrir dagsetningu, 25% endurgreiðsla af gistigjaldi.
Engin endurgreiðsla ef afbókað er innan viku frá dagsetningu.

Er dýrahald leyfilegt í skálum?

Dýrahald er ekki leyfilegt í skálum félagsins.

Á friðlandi að Fjallabaki segir í sérstökum reglum um umferð og dvöl í reglu nr. 12: „Gæludýr skulu ávallt höfð í bandi á fjölförnum gönguleiðum, áningarstöðum og þar sem hætta er á truflun á dýralífi eða á upplifun fólks. Ávallt skal fjarlægja úrgang frá gæludýrum á göngustígum og áningarstöðum ferðamanna.“ 

Umferð hunda innan friðlandsins á Hornströndum er óheimil. 

Hvað er aðstöðugjald?

Aðstöðugjald er innifalið í gistigjaldi fyrir skála og tjöld en aðrir gestir, svokallaðir daggestir sem koma í heimsókn yfir daginn eða part úr degi, þurfa að greiða aðstöðugjöld til að nýta sér þá aðstöðu sem fyrir er, svo sem klósett, nestishús, grill og annað. Aðstöðugjald 2024 er 600 kr. og greiðist hjá skálavörðum við komu á skálasvæði. Allir vilja geta gengið að góðri aðstöðu og hreinum og fínum salernum og aðstöðugjaldið stuðlar að því að hægt sé að halda svæðinu eins og best verður á kosið.