Málstefna FÍ

Málstefna Ferðafélags Íslands

Leiðarljós og gildissvið

Íslenska er mál Ferðafélags Íslands og málnotkun þar skal vera til fyrirmyndar. Vandað, skýrt og auðskilið mál, hvort heldur ritað eða talað, er lykilatriði í allri þjónustu Ferðafélags Íslands. Þar er íslenska í öndvegi og skal hún vera til fyrirmyndar í samræmi við þingsályktun um íslenska málstefnu frá 2009 og lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls 2011. 61/2011.

Í rafrænni þjónustu FÍ skal allt mál vera skýrt og auðskiljanlegt þannig að félagar og viðskiptavinir geti hæglega hagnýtt sér hana og lokið erindum sínum. Málstefnan tekur einnig mið af annarri stefnumörkun og skuldbindingum af hálfu Ferðafélags Íslands og byggir á grundvallaratriðum þeirra um jafnræði, virðingu, trausti, gagnsæi, góðu aðgengi að upplýsingum og virkum samskiptum. Málstefna þessi gildir á öllum starfsstöðum félagsins. Starfsfólk skal taka mið af henni í störfum sínum og samskiptum og vanda allt mál í þjónustu og upplýsingamiðlun.

Íslenska og önnur tungumál

Starfsfólk Ferðafélags Íslands skal nota íslensku í störfum sínum nema þar sem aðstæður krefjast þess að það noti önnur tungumál, t.d. í ráðgjöf og samskiptum við fólk með annað móðurmál en íslensku.

Allar upplýsingar um þjónustu FÍ, útgefið efni og önnur gögn, eru á vandaðri, skýrri og auðskiljanlegri íslensku.

Meta skal þekkingu og menntun starfsfólks af erlendum uppruna að verðleikum og veita því aðstoð til að nýta hana samhliða því að ná góðum tökum á íslensku máli. Æskilegt er að starfsfólk, sem er í beinum samskiptum viðskiptavini, hafi grundvallarfærni í íslensku. Íslenska skal vera meginsamskiptamál í þjónustu og vinnuumhverfi starfsstöðva Ferðafélags Íslands. Þetta gildir líka um viðmót í tölvum, rafrænni þjónustu og helsta notendahugbúnaði á starfsstöðum félagsins. Efni sem gefið er út á vegum FÍ á erlendum tungumálum, skal jafnframt vera til á íslensku. Æskilegt er að birta erlendan texta samhliða íslenskum texta til að auðvelda gagnkvæman skilning í þjónustu og tilgreina með þjóðfána eða í texta á hvaða tungumáli efnið er.

Leiðbeiningaskilti og aðrir vegvísar ávegum félagsins skulu vera á íslensku og eftir atvikum samhliða á öðrum tungumálum.

Auglýsingar

Ritstjórnarefni og auglýsingar Ferðafélags Íslands skulu fullnægja eðlilegum kröfum um málfar. Auglýsingar skulu almennt vera á íslensku.

Málfar og málnotkun

Sá sem kemur fram fyrir hönd Ferðafélags Íslands talar og ritar vandað mál og sýnir vinsemd og virðingu í öllum samskiptum og þjónustu. Á það við um öll tungumál, íslensku sem önnur. Vandað mál er markvisst og í samræmi við málvenju, í viðeigandi málsniði og ritað í samræmi við gildandi reglur um réttritun. Starfsfólk skal nota vandaða íslensku í samskiptum og þjónustu og þýða eins og kostur er á íslensku fagheiti og hugtök í störfum sínum. Sá sem skrifar og svarar erindum fyrir hönd FÍ skrifar einfaldan, skýran og hlutlægan texta. Starfsfólk FÍ heilsar og kveður undantekningalaust á íslensku.

Starfsfólk í þjónustu FÍ skal geta nýtt sér allan máltæknibúnað fyrir íslensku og önnur tungumál, svo sem leiðréttingaforrit, talgervla, talgreina og þýðingarforrit.

Ráðgjöf og gæðaeftirlit með góðu málfari á útgefnu efni og í upplýsingamiðlun á vegum Ferðafélags Íslands verður komið á í samræmi við málstefnuna. Stjórn Ferðafélags Íslands skipar sérstaka málnefnd sem fylgir stefnunni eftir og sker úr um ágreiningsatriði.

 

Málstefna þessi skal reglulega endurskoðuð.