Börn að leik

Hafið í huga að börn eru meistarar í að búa til skemmtilega leiki úti í náttúrunni og þurfa sjaldan hjálp frá fullorðnum við það. Þvert á móti þarf að passa að hinir fullorðnu séu ekkert of mikið að skipta sér af enda getur þeirra „hjálp“ oft haft heftandi áhrif. 

Stundum kemur hins vegar upp sú staða að fullorðnir þurfa að hafa aðkomu að leikjunum, til dæmis þegar hópur er að koma saman í fyrsta skipti. Þá er mikilvægt að fullorðnir brjóti ísinn og stuðli að því að leikföngum eða hlutverkum sé jafnt skipt. Ekki má heldur gleyma mikilvægi þess að foreldrar leiki sér við börnin sín. 

Börn að leik

Hvernig leikir?

Hér eru hugmyndir að nokkrum leikjum sem hægt er að skipuleggja.

Finna hluti

Finna sem flesta hluti, plöntur og annað sem byrja t.d. á bókstafnum S eða B. Þetta er hægt að gera bæði sem liða- eða einstaklingskeppni. Hægt er að setja tímamörk á leikinn. Hver getur fundið flesta hluti á 15 mínútum?

Eftirhermuleikir

Börnin standa á móti hvort öðru, tvö og tvö saman, herma eftir dýrum og svo á hitt að geta hvaða dýr það er. Þessi leikur æfir börnin bæði í því að herma eftir dýrahljóðum og að vera góð í að geta uppá hljóðunum. Ef leikurinn á að vera hluti af keppni, þá er hægt að hafa tímatakmörk og börnin vinna sér inn stig.

Þrautastígur

Þegar þrautastígur er skipulagður þarf að taka mið af aldri barnanna, árstímanum og nánasta umhverfi. Það getur verið sniðugt að hafa viðurkenningarskjal sem sönnun þess að allar þrautirnar hafi verið leystar.

Þrautirnar geta til dæmis verið: 

  • Finna ákveðin skordýr.
  • Finna tvö blóm eða ber, af mismunandi tegund.
  • Finna þrjú ólík laufblöð. 
  • Finna börk eða kvist af þremur ólíkum trjám.
  • Finna fjóra köngla/skeljar/kuðunga.
  • Finna fimm ólíka steina, slétta, kringlótta, flata, o.s.frv.

Rötun með korti

Hægt er að nota kort af næsta nágrenni sem krakkarnir hafa tekið þátt í að teikna. Skiptið krökkunum niður í hópa. Merkið inn mörk eða áfangastaði á leiðinni sem farin er á kortinu. Þátttakendurnir fá kortið, finna áfangastaðina, svara spurningum eða gátum um hvað þar er að sjá og koma svo til baka á byrjunarreitinn. Þá fá þau kortið aftur með nýjum áfangastað. Staðsetjið áfangastaðina þannig að börnin þjálfist í að fylgja bestu leið þangað, t.d. eftir stíg eða árbakka.

Fjársjóðsleit

Ákveðið byrjunarreit og búið til skriflega lýsingu á því hvar fjársjóðurinn er falinn, svo sem tvö skref í suður eða í átt að sjónum, þrjú skref í vestur o.s.frv. Það er líka hægt að fara í fjársjóðsleit með kort þar sem krakkarnir merkja inn á kortið hvert þau fara samkvæmt skriflegu lýsingunni.

Einbeitingar- og skynjunarleikir

Hér á eftir eru nokkur dæmi um leiki sem örva getu barnanna til að taka eftir hlutum í náttúrunni og setja upplifun sína af náttúrunni í samhengi. Þessa leiki er líka hægt að stunda á veturna.

Sjón – finna aftur sitt tré

Skiptið hópnum í tvo og tvo. Bundið er fyrir augun á öðrum en hinn leiðir. Sá sem sér, leiðir hinn þvers og kruss um svæðið og nemur staðar við tré. Sá „blindi“ þreifar vandlega á trénu. Svo er hann leiddur sömu leið aftur á byrjunarstaðinn. Þá er hulan tekin af augunum og hann á að finna leiðina að trénu og benda á það. Svo er skipt um hlutverk.

Heyrn – hlustað á þögnina

Hér er best að skipta hópnum niður þannig að tveir eða fleiri séu saman og að einn fullorðinn sé með hverjum hópi. Takið með eitthvað til þess að sitja á. Hóparnir dreifa sér um svæðið og finna friðsæla staði þar sem gott er að setjast niður. Svo loka allir augunum og munninum og hlusta:

    • Hvaða hljóð heyrir þú í náttúrunni og hvað geta þau sagt okkur? 
    • Hvaða hljóð heyrir þú frá öðrum stöðum? 
    • Hvaða hljóð heyrðir þú fyrst? 
    • Hvaða hljóð koma frá okkur sjálfum?
    • Tókstu eftir einhverju sem þú þekktir ekki?
    • Hvaða hljóð eru lág og hver eru sterk og hávær? 
    • Hvað eru góð hljóð og hvaða hljóð eru óþægileg og skerandi? 
    • Reyndu að afmarka lágværu hljóðin og hlustaðu bara eftir þeim.
Lykt – hvernig lykta hlutirnir

Látið börnin loka augunum og einbeita sér að því að finna og greina ýmsa lykt, s.s. af greinum, trjám, jarðhita, regni, strönd, grasi, mýri, hesti, hundi, ketti, rollum o.s.frv. Einnig er hægt að láta börnin finna lykt af ýmsu með bundið fyrir augun og þau geta upp á því hvað það er.

Minnisleikur – þjálfun sjónminnisins

Tíu hlutir úr náttúrunni eru settir fyrir framan þátttakendurna. Svo snúa þeir sér við og einn hlutur er fjarlægður. Hvaða hlutur? Önnur aðferð: Börnin leggja á minnið hvaða hlutir eru settir fram. Hversu marga hluti geta þau munað?

Hreyfiskynjun – að hreyfa sig blindur

Allir í hópnum leiðast og mynda langa röð, loka augunum fyrir utan þann fremsta. Forystumaðurinn leiðir hópinn vítt og breitt um svæðið, yfir ójöfnur og breytilegt landslag. Hvernig bregst líkaminn við þessu? Hvernig líður fótunum?