Fjalla- og hreyfihópar

Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjallaverkefnum og hreyfihópum sem snúast um reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap.

Meginmarkmið þessara hópa er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum.

Hér að neðan er stutt yfirlit yfir þessi verkefni en allar nánari upplýsingar má nálgast með því að smella á heiti hvers verkefnis eða beint á viðeigandi undirsíðu hér til hliðar.

Gönguhópur FÍ

FÍ Alla Leið og Haustgöngur Alla leið

Fjallaverkefnið Alla leið er verkefni sem miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum, sem stigmagnast að erfiðleikastigi, alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur og svo vikulegum þrekæfingum. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Haustgöngur Alla leið, sem stendur til áramóta. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig.

Umsjón: Hjalti Björnsson.
Kynningarfundur haustverkefnis er sýnilegur á Facebook

FÍ Fyrsta skrefið og Næsta skrefið

Fyrsta skrefið byggist á reglubundnum göngum á þægileg fjöll. Gengið er á mismunandi fjöll einu sinni í viku og að auki á Úlfarsfell alla miðvikudaga. Farið er á hraða sem hentar hópnum og þrek fólks er smám saman byggt upp. Eftir sumarfrí tekur við nýtt verkefni, Næsta skrefið, frá september til áramóta. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig. 

Umsjón: Reynir Traustason, Guðrún Gunnsteinsdóttir og Ólafur Sveinsson.
Kynningarfundur haustverkefnis er sýnilegur á Facebook

FÍ Göngur og gaman

Göngur og gaman er fjallaverkefni sem byggist á því að ákveðin svæði eru könnuð. Í maí og júní er Esjan könnuð en eftir sumarfrí, frá september til nóvembers er Hengilssvæðið og Hellisheiðin könnuð. Þetta er verkefni fyrir þau sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum og eru í meðalgóðu gönguformi. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig. 

Umsjón: Edith Ólafía Gunnarsdóttir og Örlygur Steinn Sigurjónsson.
Kynningarfundur FÍ Göngur og gaman er sýnilegur á Facebook
Verð: 49.900.

FÍ Hjól og fjall

Hjól og Fjall verkefnið snýst um að hjóla saman um forvitnilegar slóðir og stíga svo af hjólinu og taka stutta fjallgöngu eða langa eftir atvikum. Verkefnið stendur yfir frá ágústlokum til loka októbers og farið er í tíu ferðir, bæði styttri kvöldferðir á miðvikudögum og svo lengri dagsferðir um helgar. Þátttakendur þurfa að koma með eigið hjól. 

Umsjón: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.  
Kynningarfundur FÍ Hjól og fjall er sýnilegur á Facebook
Verð: 42.900.

FÍ Jóga og göngur

FÍ Jóga og göngur er verkefni fyrir alla sem vilja njóta útivistar ásamt því að læra aðferðir til að draga úr streituviðbrögðum og ná slökun og er hugsað fyrir þau sem vilja njóta en ekki þjóta og vilja gera útivist og jóga að lífsstíl. Í gönguferðunum verður fræðsla um fatnað, næringu og öryggi á fjöllum. Engin krafa er um kunnáttu í jóga og núvitund til þess að vera með. FÍ Jóga og göngur stendur yfir frá janúar til maí. Eftir sumarfrí tekur svo við FÍ Jóga og göngur haust, í september til nóvember. Greitt er sérstaklega fyrir hvort verkefni fyrir sig.

Umsjón: Edith Ólafía Gunnarsdóttir.
Kynningarfundur FÍ Jóga og göngur haust er sýnilegur á Facebook
Verð: 77.900.

FÍ Kvennakraftur

Æfinga- og útivistarverkefnið Kvennakraftur er fyrir konur sem vilja hreyfa sig úti í náttúrunni en að auki fá leiðsögn einkaþjálfara við styrktarþjálfun heima fyrir.  Hver vika samanstendur af alls fimm æfingum. Einni fjallgöngu, einu rólegu náttúruhlaupi, tveimur styrktaræfingum og einni teygjuæfingu. Æskilegt er að þátttakendur hafi gengið eitthvað á fjöll og reimað á sig hlaupaskó en ekki eru gerðar kröfur um mikla reynslu.

Umsjón: Kolbrún Björnsdóttir og Nanna Kaaber.
Kynningarfundur Kvennakrafts er sýnilegur á Facebook
Verð: 84.900

FÍ Léttfeti. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, auðveldum fjallgöngum inn í dagatalið sitt. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Fjöllin sem fyrir valinu verða teljast létt til miðlungs erfið en miðað er við að ganga rólega.  

Umsjón: Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.

FÍ Fótfrár. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi. Farið er í 10 dagsferðir og eina helgarferð þannig að alls er gengið á að minnsta kosti 12 fjöll. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi en í verkefninu Léttfeta. 

Umsjón: Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.

FÍ Þrautseigur. Tvö fjöll á mánuði

Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan og ganga þá á að minnsta kosti 24 fjöll yfir árið í 20 dagsferðum og tveimur helgarferðum. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi því bæði er gengið á létt og krefjandi fjöll. 

Umsjón: Einar Ragnar Sigurðsson og Höskuldur Björnsson.

FÍ Útideildin

FÍ Útideildin er verkefni fyrir útivistarfólk í meðalgóðu gönguformi sem vill hittast reglulega og stunda skemmtilega og fjölbreytta útivist á besta tíma ársins. Verkefnið hefst um miðjan maí og endar í október. Megináhersla er á hefðbundnar göngur og ferðir um áhugaverðar ferðaslóðir og fjöll. 

Umsjón: Örvar Aðalsteinsson og Þóra Björk Hjartardóttir.

FÍ Landvættir og FÍ Landvættir ½

FÍ Landvættir er 10 mánaða æfingaverkefni sem byrjar síðla hausts og stendur fram í ágúst árið eftir. Takmarkið er að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna, þ.e. 50 km skíðagöngu, 60 km fjallahjólreiðum, 2,5 km útisundi og 25 km fjallahlaupi. FÍ Landvættir ½ æfa jafn lengi og taka þátt í sömu fjórum þrautum en vegalengdirnar eru um helmingi styttri. Þetta eru hvoru tveggja æfingaverkefni fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap. 

Umsjón: Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Búið er að opna fyrir skráningu í verkefnið 2021, sjá hér.
Upplýsingafundir fyrir árið 2021 verða haldnir 1. október 2020 í sal FÍ, Mörkinni 6. Kl. 18 fyrir FÍ Landvætti ½ og kl. 20 fyrir FÍ Landvætti

FÍ Landkönnuðir

FÍ Landkönnuðir er lokaður hópur ævintýrafólks sem tekst á við margs konar áskoranir úti í náttúrunni. Meginmarkmið hópsins er að fylla lífið af ævintýrum, vera á iði og hafa gaman. Lögð er áhersla á fjölbreytt útiævintýri og góða fræðslu. Hópurinn hittist að meðaltali einu sinni í mánuði og stundar jöfnum höndum fjallahjólreiðar, vatnasund, fjallgöngur, kajakróður, klettaklifur, náttúruhlaup og fjallaskíði. Meðal verkefna eru vetrarferðalög á gönguskíðum og Vesturgötu-þríþrautin. 

Umsjón: Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Upplýsingafundur fyrir árið 2021 verður haldinn í október 2020, nánar auglýst síðar.

Hundrað hæstu

Í Hundrað hæstu-verkefninu gengur fólk á öll hundrað hæstu fjöll Íslands og fær tindasöfnunina staðfesta, skráða og viðurkennda. Þetta er ekki lokaður hópur heldur einstaklingsverkefni hvers og eins. Þátttakan er ókeypis og öllum opin og ekki er skilyrði að vera félagi í Ferðafélagi Íslands. Allar ferðir á dagskrá FÍ, þar sem gengið er á tinda sem ná inn á hundrað hæstu-listann, fá sérstakan stimpil: Hundrað hæstu. Taktu þátt í áskoruninni með okkur og kláraðu að klífa hundrað hæstu tinda landsins fyrir 100 ára afmæli Ferðafélagsins árið 2027.