Fjalla- og hreyfihópar

Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjalla- og hreyfihópum sem allir eiga það sammerkt að vera lokaðir hópar sem ganga út á reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap.

Verkefnin standa annað hvort allt árið eða er skipt upp í vor og haustdagskrá. Í upphafi fá þátttakendur í hendurnar fyrirfram ákveðna dagskrá fyrir viðkomandi verkefni.

Meginmarkmið þessara verkefna er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum.

Árgjald Ferðafélags Íslands er innifalið í þátttökugjaldi.
Gönguhópur FÍ

FÍ Aftur af stað

Gönguverkefnið Aftur af stað er fyrir halta, stirða og stæðilega.  Hentar vel þeim sem eru í yfirþyngd, með stoðkerfisvanda eða hafa ekki hreyft sig reglulega í langan tíma.  Lögð er áhersla á léttar og skemmtilegar göngur á höfuðborgarsvæðinu auk styrktarþjálfunar.

Gengið verður á mánudögum og fimmtudögum kl 18:30. Annan hvern laugardagsmorgun verður farið í stuttar fjallgöngu í nágrenni við höfuðborgina

Umsjón með verkefninu hafa Bjarney Gunnarsdóttir og Steinunn Leifsdóttir, íþróttafræðingar.

Verð kr 66.600

Kynningarfundur: Miðvikudaginn 30. ágúst  2017, kl. 20 í risi FÍ, Mörkinni 6.
Sjá haustdagskrá: FÍ Aftur af stað.
 

Haustgöngur Alla Leið 

Fjallaverkefnið Alla leið heldur áfram í haust með fjallgöngudagskrá sem byrjar 26. ágúst og lýkur í desember. Þetta verkefni hefur hlotið nafnið Haustgöngur Alla leið  og verður kynnt á sérstökum kynningarfundi sem fram fer miðvikudaginn 23. ágúst kl. 20 í risinu hjá FI í Mörkinni 6.

Verkefnið er öllum opið, jafnt þeim sem áður hafa gengið í fjallaverkefnum Ferðafélags Íslands sem og þeim sem vilja prufa þessa frábæru leið til að hreyfa sig, stunda útivist, njóta náttúrunnar og kynnast skemmtilegum fjallavinum.

Á dagskránni eru 25 fjöll sem verður gengið á.  Þrjár kvöldgöngur sem farnar eru á mánudögum og ellefu dagsferðir sem verða um helgar.

Innifalið í þátttökugjaldinu er fræðsla, undirbúningur og leiðsögn. 

Umsjónarmaður er Hjalti Björnsson.
Verð kr. 38.600

Kynningarfundur: Miðvikud 23. ágúst 2017, kl. 20:00 í risi FÍ í Mörkinni 6.
Sjá haustdagskrá: Haustgöngur Alla leið
 

FÍ Léttfeti. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, rólegum fjallgöngum inn í dagatalið sitt.

Farið er í 12 fjallgöngur, yfirleitt fyrsta laugardag í hverjum mánuði út árið. Fjöllin sem fyrir valinu verða eru í léttari kantinum. Meðal annars er gengið á Mosfell, Esju og Tröllakirkju.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson. Hámarksfjöldi: 70.

Kynningarfundur: Miðvikud. 4. janúar 2017, kl. 20 í risi FÍ í Mörkinni 6. Verð: 63.600.
Dagskrá FÍ Léttfeta árið 2017.

Búið er að loka verkefninu. Nýtt verkefni hefst á næsta ári. Kynningarfundur auglýstur síðar.


FÍ Fótfrár. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi.

Alls verður gengið á 12 fjöll, yfirleitt þriðja laugardag í hverjum mánuði út árið. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi. Meðal annars verður gengið á Skessuhorn, Fagraskógarfjall og Snæfellsjökul.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson. Hámarksfjöldi: 50.

Kynningarfundur: Miðvikud. 4. janúar 2017, kl. 20 í sal FÍ í Mörkinni 6. Verð: 63.600.
Smellið hér til að skoða dagskrá FÍ Fótfrárs árið 2017.

Búið er að loka verkefninu. Nýtt verkefni hefst á næsta ári. Kynningarfundur auglýstur síðar.


FÍ Þrautseigur. Tvö fjöll á mánuði

Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan og ganga þá á alls 24 fjöll yfir árið, yfirleitt bæði fyrsta og þriðja laugardag í hverjum mánuði.

Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi því bæði er gengið á létt og krefjandi fjöll.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson. Hámarksfjöldi: 30.

Kynningarfundur: Miðvikud. 4. janúar, 2017, kl. 20 í sal FÍ í Mörkinni 6. Verð: 73.600.

Búið er að loka verkefninu. Nýtt verkefni hefst á næsta ári. Kynningarfundur auglýstur síðar.


FÍ Næsta skref

Í verkefnunum FÍ Fyrsta skrefið og Næsta skref er gengið á fjöll einu sinni í viku. Verkefnið er hugsað fyrir þá sem vilja taka fyrstu skrefin í fjallgöngu þar sem áhersla er lögð á að ganga rólega á létt og þægileg fjöll. Verkefnið hentar einnig öllum fjallageitum sem vilja ganga rólega og njóta útiveru og góðs félagsskapar. Sérstök áhersla er á rólega göngu, njóta en ekki þjóta.

Næsta skref er haustverkefni sem stendur frá september til desember.

Umsjónarmenn verkefnisins eru Reynir Traustason og Ólafur Sveinsson sem báðir tóku fyrstu skrefin í fjallgöngum fyrir nokkrum árum með Ferðafélagi Íslands og hafa síðan verið óstöðvandi. Þeim til halds og trausts er Auður Kjartansdóttir.

Kynningarfundur: Fimmtud. 24. ágúst  2017, kl. 20 í risi FÍ, Mörkinni 6. Verð:  57.600
Sjá haustdagskránna.

FÍ Landvættir

FÍ Landvættir er æfingaverkefni sem stendur í 10 mánuði, frá október þar til í byrjun ágúst þar sem takmarkið er að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna, þ.e. skíðagöngu, fjallahjólreiðum, útisundi og fjallahlaupi á innan við ári.

Þetta er æfingaverkefni fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap.

Umsjónarmenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.

Sjá nánar um verkefnið hér.

Kynningarfundur fyrir FÍ Landvætti 2018 verður miðvikud. 25. október 2017, kl 20 í risi FÍ Mörkinni 6. Verð: 92.600.