Fjalla- og hreyfihópar

Ferðafélag Íslands heldur úti nokkrum fjalla- og hreyfihópum sem allir eiga það sammerkt að vera lokaðir hópar sem ganga út á reglulegar fjallgöngur, heilsubót og góðan félagsskap.

Meginmarkmið þessara verkefna er útivera, náttúruupplifun, gleði og góður félagsskapur. Eins og í öllum ferðum Ferðafélags Íslands er mikil áhersla lögð á fræðslu og öryggi á fjöllum.

Hér að neðan er yfirlit yfir þessi verkefni en allar nánari upplýsingar má nálgast með því að smella á heiti hvers verkefnis eða beint á viðeigandi undirsíðu hér til hliðar.

Gönguhópur FÍ

FÍ Alla Leið og Haustgöngur FÍ Alla leið

Fjallaverkefnið Alla leið er æfingaáætlun sem miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum sem stigmagnast að erfiðleikastigi, vikulegum þrekæfingum og alhliða ferðafræðslu um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur. Eftir sumarfrí tekur við verkefnið Haustgöngur Alla leið sem stendur til áramóta.

Umsjónarmaður er Hjalti Björnsson.
Kynningarfundur fyrir Haustgöngur FÍ Alla leið er miðvikudaginn 22. ágúst kl. 20 í risi FÍ, Mörkinni 6.
Verð 31.000 / 38.700.


FÍ Léttfeti. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er hugsað fyrir þá sem vilja koma sér af stað að nýju eftir hlé sem og alla þá sem vilja koma reglulegum, auðveldum fjallgöngum inn í dagatalið sitt. Farið er í 12 fjallgöngur, yfirleitt fyrsta laugardag í hverjum mánuði út árið. Fjöllin sem fyrir valinu verða eru í léttari kantinum.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2018.

FÍ Fótfrár. Eitt fjall á mánuði

Þetta verkefni stendur allt árið og er tilvalið fyrir þá sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum þar sem þessi hópur ræðst til uppgöngu á erfiðari og meira krefjandi fjöll. Þátttakendur þurfa því að vera í nokkuð góðu gönguformi. Alls verður gengið á 12 fjöll, yfirleitt þriðja laugardag í hverjum mánuði út árið. Göngurnar verða heldur hraðari og meira krefjandi.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2018.

FÍ Þrautseigur. Tvö fjöll á mánuði

Þeim sem vilja ganga meira og hittast oftar gefst kostur á að taka þátt í báðum verkefnunum hér að ofan og ganga þá á alls 24 fjöll yfir árið, yfirleitt bæði fyrsta og þriðja laugardag í hverjum mánuði. Þátttakendur þurfa að vera í nokkuð góðu gönguformi því bæði er gengið á létt og krefjandi fjöll.

Umsjónarmenn eru Ævar Aðalsteinsson og Örvar Aðalsteinsson.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2018.

FÍ Fyrsta skrefið og Næsta skrefið

Heilsurækt á fjöllum.
Eitt fjall á viku plús Úlfarsfell á fimmtudögum. Sjálfstætt framhald eftir Fyrsta skrefið.

Umsjónarmenn eru Reynir Traustason og  Ólafur Sveinsson
Kynningarfundur 30. ágúst

FÍ Landvættir

FÍ Landvættir er 10 mánaða æfingaverkefni sem byrjar síðla hausts og stendur fram í ágúst árið eftir. Takmarkið er að ljúka öllum fjórum þrautum Landvættanna, þ.e. 50 km skíðagöngu, 60 km fjallahjólreiðum, 2,5 km útisundi og 33 km fjallahlaupi. Þetta er æfingaverkefni fyrir þá sem vilja stunda líkamsrækt úti í náttúru Íslands, setja sér ögrandi markmið og komast í frábært líkamlegt form í þéttum, skemmtilegum og styðjandi félagsskap.

Umsjónarmenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2018.

FÍ Landkönnuðir

FÍ Landkönnuðir er lokaður hópur ævintýrafólks sem tekst á við margs konar áskoranir úti í náttúrunni. Meginmarkmið hópsins er að fylla lífið af ævintýrum, vera á iði og hafa gaman. Lögð er áhersla á fjölbreytt útiævintýri og góða fræðslu. Hópurinn hittist að meðaltali einu sinni í mánuði og stundar jöfnum höndum fjallahjólreiðar, villisund, fjallgöngur, kajakróður, náttúruhlaup og fjallaskíði. Meðal verkefna eru vetrarferðalög á gönguskíðum, Vesturgötu þríþrautin og jöklaganga í Ölpunum.

Umsjónarmenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2018.

FÍ Svalur á fjöllum

Þetta gönguverkefni er fyrir alla foreldra og unglingana þeirra þar sem markmiðið er að skapa gæða samverustundir í góðum gönguferðum úti í náttúrunni. Það er gaman að ganga í hópi með öðrum, spjalla og sprella og deila reynslusögum. Frábær undirbúningur fyrir fjallamennsku og útivist. Fræðsla um búnað og nesti, hvernig á að pakka, ganga með bakpoka, vaða ár og hita súpu uppi á fjalli. Hópurinn gengur saman annan hvern laugardag frá janúar og fram í maí og fer á lág fjöll í nágrenni Reykjavíkur til að byrja með.

Umsjónarmenn eru mæðginin Hanna Gréta Pálsdóttir og Aron Freyr Stefánsson ásamt Írisi Sæmundsdóttur.
Búið er að loka fyrir skráningu í verkefnið 2018.

Hundrað hæstu

Í Hundrað hæstu verkefninu gengur fólk á öll hundrað hæstu fjöll Íslands og fær tindasöfnunina staðfesta, skráða og viðurkennda. Þetta er ekki lokaður hópur heldur einstaklingsverkefni hvers og eins. Þátttakan er ókeypis og öllum opin og ekki er skilyrði að vera félagi í Ferðafélagi Íslands. Hins vegar býður Ferðafélagið þeim sem það kjósa að koma með sér í 10 ára einstakt ferðalag sem lýkur með því að þeir sem taka þátt, klára hundrað hæstu tinda Íslands sama ár og FÍ verður hundrað ára eða árið 2027. Allar ferðir á dagskrá FÍ þar sem gengið er á tinda sem ná inn á hundrað hæstu listann, fá nú sérstakan stimpil: Hundrað hæstu. Fólk getur að sjálfsögðu klárað söfnunina á eigin vegum og tekið í það skemmri eða lengri tíma en tímaramminn sem FÍ gefur sér er 10 ár.