Gönguleiðir: Akrafjall

Suðvesturland

Akrafjall

Lýsing

Akrafjallið er mikilvægur hluti af sjóndeildarhring Reykvíkinga og bæjarfjall Akurnesinga. Það er skemmtilegt verkefni að ganga upp á hæstu tinda þess sem eru Geirmundartindur (GPS N.64.20.619 W. 21.56.618)  að norðan og Háihnúkur að sunnan (GPS N. 64.19. 110 W. 21. 56. 988).
Fjallið er klofið sundur af Berjadal sem gengur inn í það og við mynni dalsins er bílastæði þar sem gangan hefst (GPS N.64.19.687 W. 21.59.114). Merktar leiðir liggja frá bílastæðinu og upp á báða hluta fjallsins eftir því á hvorn hnúkinn er stefnt. Fyrst er frekar brattur slóði upp á fyrsta haftið og er það líklega brattasti hluti leiðarinnar.
Margir kjósa að ganga hring um fjallið til þess að stíga á báða hnúkana í sama leiðangrinum og er sú leið merkt á kortið hér að neðan.
Þetta er í meðallagi erfið ganga, alls nærri 14 km ef menn fara heilan hring en 6-7 km ef annar er valinn. Eggjarnar upp að Geirmundartindi eru nokkuð brattar og grýttar og getur verið krefjandi ferðalag þar upp þótt víðast hvar sjáist slóð.
Að vetrarlagi þarf að gæta sín á þessu ferðalagi og ekki víst að það henti öllum og þörf á öryggisbúnaði.
Á sumardegi er skemmtilegt að skondra um eggjar Akrafjalls og sjá nærumhverfi sitt frá nýju sjónarhorni.
GPS-ferill

Hvernig varð Akrafjall til?

Í þjóðsögum má lesa um Jóku tröllkonu sem bjó vestur á Snæfellsnesi. Hún var hrifin af fjöllum og vildi hafa þau nálægt sér. Þess vegna fór hún um og stal fallegum fjöllum sem hún bar á bakinu vestur á Snæfellsnes og raðaði þeim í skipulegan fjallgarð eftir nesinu endilöngu. Sérstaklega sótti hún fjöll á Suðurland og þarna er komin skýringin á því hvers vegna er svo fátt um fjöll á Suðurlandsundirlendinu.
Eitt sinn var Jóka á heimleið af Suðurlandi með fjall á bakinu en rétt norðan við Hvalfjörð varð henni fótaskortur og datt kylliflöt og fjallið ofan á hana. Við þetta brotnaði fjallið í tvo parta og er annar sunnan Berjadals og hinn norðan. Jóka varð að steini þegar sólin kom upp en þjóhnappar hennar standa enn upp úr fjallinu austanverðu þar sem heitir Jókubunga.