Ferð: Náttúruskoðun og sjálfsrækt á Glerárdal

Norðurland

Náttúruskoðun og sjálfsrækt á Glerárdal

Lýsing

Í bakgarðinum okkar hér á Akureyri er hinn ægifagri Glerárdalur með alla sína tinda og náttúrufegurð. Þangað er ferðinni heitið í skemmtilega og nærandi gönguferð sem felur í sér verkefni til sjálfsræktar, hugleiðslu, köld böð, léttar jógaæfingar, sjálfsþekkingarleiki, heilsufæði svo eitthvað sé nefnt. Gist verður tvær nætur í skála FFA á Glerárdal, Lamba þar sem góð er aðstaða.

Brottför/Mæting
Kl. 13 frá bílastæðinu við Súluveg.
Fararstjórn

Ásdís Skúladóttir og Birna Guðrún Baldursdóttir

Innifalið
Gisting í tvær nætur og fararstjórn. Sameiginlegur matur greiðist sérstaklega. Fararstjórar sjá um að kaupa inn og elda.

Leiðarlýsing

1.d., föstud. Ganga dagsins er frá bílastæði við Súluveg að Lamba. Gengið eftir stígum og slóðum. Komum okkur fyrir í skálanum, borðum saman, hugleiðum og eigum notalega stund. Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: 400m.

2.d. Ganga dagsins er frá Lamba upp að Tröllunum sem eru sérkennileg berggöng austan Glerár í Tröllafjalli. Þá er gengið niður að vatninu Tröllaspegli þar sem verður áð og hugleitt ef veður leyfir. Vaða þarf yfir Glerána sem er auðvelt á þessum árstíma en gott að hafa vaðskó og göngustafi. Síðan er gengið til baka aftur í Lamba þar sem verður borðað saman ásamt smá kvöldvöku.
Vegalengd: 12-14 km. Gönguhækkun: 450 m.

3. Létt jóga fyrir þá sem vilja. Til byggða verður gengið niður Finnastaðadal og komið að Finnastöðum í Eyjafirði þar sem þarf að sækja göngufólk. Fararstjórar aðstoða við það ef þarf. Gert er ráð fyrir að koma til Akureyrar seinni part dags.
Vegalengd: 11 km. Gönguhækkun: 270 m.