60 eldri og heldri borgarar í Kerlingafjöllum og Hveravöllum

Þann 4. júlí s.l. bauð FÍ upp á stórskemmtilegri dagsferð á Kjöl. Þetta var ferðin "Upplifðu Kerlingarfjöll og Hveravelli" þar sem eldri og heldri borgurum var boðið að koma með og upplifa töfra þessara sögufrægu svæða. Rúmlega 60 sæta rútu þurfti í ferðina svo allir kæmust með en þetta er einhver lengsta rúta sem hefur farið um þessar slóðir.


Veðrið var hið ágætasta og skemmti fólk sér vel við að heimsækja skíðaskálann í Kerlingarfjöllum, skoða Hveradali og ganga um Hveravelli auk þess sem slegið var upp alvöru fjallaskálakvöldvöku í gangnamannaskála Tungnamanna, Gíslaskála í Svartárbotnum.  Harmonikka var með í för og sungið og sagðar sögur enda af nógu að taka á þessum sögufrægu slóðum. Aðalatriðið var að njóta lífsins og að eiga góða og skemmtilega stund saman - og það tókst alveg sannarlega vel. Fararstjórar voru Pétur Magnússon, Ingimar Einarsson og Margrét Ýrr Sigurgeirsdóttir.