Ættliðirnir þrír ganga saman

Mæðgurnar með góðum hópi við fossinn Drynjanda í Hvalá. Hópurinn fór með allt á bakinu úr Eyvindarfirði og upp á Ófeigsfjarðarheiði og gisti í tjöldum.
Mæðgurnar með góðum hópi við fossinn Drynjanda í Hvalá. Hópurinn fór með allt á bakinu úr Eyvindarfirði og upp á Ófeigsfjarðarheiði og gisti í tjöldum.

Ættliðirnir þrír ganga saman

Á hálendi með allt á bakinu og í fjallahópum

„Ég byrjaði að fara í ferðir með Ferðafélagi barnanna þegar Signý dóttir mín var fjögurra ára. Þá hafði ég sjálf aldrei gengið á fjöll en langaði að hún fengi áhuga á útivist og náttúrunni almennt. Það tókst heldur betur og nú höfum við báðar mjög gaman af því að ganga á fjöll og gerum það mjög reglulega saman. Nú erum við farnar að ganga margar saman, mamma mín, dóttir mín, systur mínar þrjár sem eru í kringum tvítugt og svo oft vinir og vandamenn með. ,” segir Hrönn Vilhjálmsdóttir sem undanfarin ár hefur gengið á fjöll með dóttur sinni, móður og systrum. Hrönn og ættliðirnir ganga gjarnan með Ferðafélagi Íslands og hafa tekið þátt í gönguhópum og sumarferðum  á vegum Ferðafélags Íslands. Þeim fylgir mikil gleði og eru þær gjarnan hrókar alls fagnaðar. .

„Við höfum farið í lengri ferðir saman. Til dæmis gengum við Laugaveginn fyrir þremur árum og í fyrra gengum við frá Eyvindarfirði og yfir í Ófeigsfjörð með allt á bakinu og það var mikil upplifun. Að ganga á fjöll er besta hreyfing sem völ er á að mínu mati, því útiveran, hreyfingin og félagskapurinn nærir líkama og sál,” segir Hrönn. Aðspurð segir hún að samveran í guðsgrænni náttúrinni sé ómetanleg.

„Öll samvera skerpir kærleikann en að vera úti saman og ganga er auðvitað bara frábær leið til að verja frítíma og njóta lífsins. Mér finnst Ferðafélag Íslands standa sig mjög vel í því að fá fjölskyldur til að ganga saman. Það var Ferðafélag barnanna sem kom okkur af stað, sem annars hefði sennilega aldrei gerst. Ef fólki langar að fara, þá eru ferðir fyrir fólk á öllum aldri og við allra færi hjá Ferðafélaginu,” segir Hrönn.  

Signý Harðardóttir, 11 ára, tekur undir með móður sinni. Hún rifjar upp það skemmtilegasta sem hún hefur lent í á fjöllum.  
„Eftirminnilegasta ferðin sem ég hef farið í var ferðin sem ég fór í sumarið 2018  þegar við sigldum í Eyvindarfjörð á Ströndum og gengum svo í þrjá daga um Ófeigsfjarðarheiði og gistum í tjöldum á leiðinni. Það var líka skrítið þegar ég steig næstum á rjúpu sem ég hélt að væri steinn. Svo var það maðurinn sem gekk á eftir okkur sem við héldum að væri að passa okkur fyrir ísbjörnum,” segir Signý og rifjar upp skemmtilegan misskilning vegna ferðalangs sem fékk að fylgja í humátt á eftir hópnum. Hún segist líka hafa skemmt sér vel á tónleikum á Úlfarsfelli 1000.

Signý segir að göngurnar sé aldrei aldrei of erfiðar.   
„Nei, mér finnst það ekki. En einu sinni lenti ég í því að við mamma þurftum að húkka okkur far til byggða þegar við vorum að ganga Laugaveginn því ég var orðin veik. Það lagaðist eftir að ég borðaði og drakk vel. Þannig að núna passa ég alltaf uppá að borða og drekka vel á göngum.
Signý segist ætla að verða fjallgöngumaður þegar hún verður fullorðin. er fljót að svara því hvert er uppáhaldsfjallið hennar.
„Það eru Úlfarsfell og Valahnúkur í Þórsmörk”.
Hvað skyldi svo að hennar mati vera það besta við fjallgöngurnar.  
„Að komast á toppinn eða á leiðarenda”.