Alla leið á Hvannadalshnúk

Um síðustu helgi héldu þáttakendur í fjallaverkefninu Alla leið á Hvannadalshnúk í góðu veðri ásamt fararstjórum og félögum úr FÍ Ung, alls 64 manns.

Fjallaverkefnið Alla leið er æfingaáætlun sem miðar að því að undirbúa þátttakendur fyrir langa og spennandi jöklagöngu að vori. Undirbúningurinn er þríþættur og felst í vikulegum fjallgöngum, sem stigmagnast að erfiðleikastigi, þrekæfingum og alhliða ferðafræðslu, meðal annars um klæðnað, búnað, næringu, öryggismál og jöklagöngur. Verkefninu líkur með göngu á hæstu tinda landsins, t.d. Snæfellsjökul, Hrútsfjallstinda og Hvannadalshnúk.

56 farþegar og 8 fararstjórar
Leiðangurinn að þessu sinni var hinn hefðbundna hvítasunnuganga FÍ á Hvannadalshnúk. Flestir í hópnum voru þátttakendur í Alla leið verkefni félagsins. Einnig voru með farþegar úr FÍ Ung og samtals voru því 56 farþegar + 8 fararstjórar.  Hjalti Björnsson og Örlygur Steinn Sigurjónsson voru leiðangursstjórar.

24km ganga
„Gangan er alls um 24kílómetrar, um 12km hvora leið og 2100metra hækkun,“ segir Hjalti Björnsson umsjónarmaður Alla leið og einn leiðangursstjóra.

Dregin á skóflu niður úr 1800m hæð
Hjalti leggur áherslu á að leggja ekki í svona ferðir nema með reyndu fjallafólki sem þekkir aðstæður vel og fært í skyndihjálp og fjallabjörgun.

„Einn fararstjóri sýndi afburða útsjónarsemi þegar einn farþeginn meiðist á hné á niðurleið og varð ógangfær í tæplega 1800 metra hæð. Það var ákveðið að leita eftir aðstoð en vegna aðstæðna þurfti að koma hinum slasaða niður í 800-900m hæð og var farþeginn dreginn niður á snjóskóflu í fyrrgreinda hæð þar sem þyrlan gat lent,“ segir Hjalti ennfremur og leggur áherslu á mikilvægi þess að ferðast með kunnáttufólki sem getur brugðist rétt við aðstæðum sem geta komið upp.

Allt fór vel að lokum og eftir situr ævintýraleg ferð allra sem tóku þátt.  Hér að neðan má sjá nokkrar myndir úr ferðinni.