Almannavarnagöngur Ferðafélags Íslands

Í Almannavarnagöngum FÍ er tilvalið að ganga að á alla hóla og hæðir og þúfur í sínu nærumhverfi.
Í Almannavarnagöngum FÍ er tilvalið að ganga að á alla hóla og hæðir og þúfur í sínu nærumhverfi.

Ferðafélag Íslands hvetur alla til að fara í gönguferðir í sínu nærumhverfi undir yfirskriftinni Almannavarnagöngur Ferðafélags Íslands.

Gönguferðirnir í þessu verkefni eiga að vera frá heimili hvers þátttakenda þar sem gengið er í nærumhverfinu, allar götur og gönguleiðir í nærumhverfinu þræddar, gengið á hvern hól og hæð og um leiðir sem viðkomandi hefur ekki gengið áður í nærumhverfinu og eða gönguleiðir sem viðkomandi kann og þekkir. Gengið er með maka eða fjölskyldumeðlimum eða einn eftir atvikum. Fyrir, eftir eða á meðan göngunni stendur skal hringt í vin og sagt frá gönguferðinni og viðkomandi hvattur til að fara út að ganga. Enn betra er að hringja í vini sem þurfa sérstaklega á því að halda. Taka skal mynd í gönguferðinni og birta í Facebook hóp verkefnisins FÍ Almannavarnagöngur og merkja þær #ferdafelagislands. Eftir fjórar vikur verður dregið úr hópi þátttakenda sem sent hafa myndir úr göngunum og hljóta 5 heppnir göngugarpar glæsilega ferðavinninga með Ferðafélagi Íslands í sumar.

Almannavarnagöngur Ferðafélagsins eru gengnar til heiðurs starfsfólki í heilbrigðisþjónustunni sem vinnur einstakt starf undir miklu álagi við þær aðstæður sem nú eru uppi og eins til heiðurs almannavarnanefndar og þeim hópi fólks sem leiðir nú leiðangurinn upp brekkuna sem samfélagið er að klífa.

Eins eiga almannavarnagöngur FÍ að minna fólk stöðugt á að við erum öll almannavarnir og fylgjum relgum um fjarlægð í samskiptum og notum bros og hlýju í stað handabands eða faðmlags og munum eftir öllum reglum um hreinlæti.

Við þær aðstæður sem nú eru uppi er mikilvægt að huga vel að heilsunni, þar með talið að sofa vel, borða hollan og góðan mat, brosa, hlæja og hafa gaman og góð gönguferð úti í náttúnni í fárra vina hópi er án efa eitt það allra besta sem hægt að gera.

Ferðafélag Íslands frestaði öllum gönguferðum félagsins,  fjalla- og hreyfiverkefnum fyrir helgi  á meðan samkomubann stendur . Eftir helgi verða lögð fram heimaverkefni fyrir þátttakendur í þeim verkefnum með ýmsum skemmtilegum og frumlegum æfingum og aðferðum.

Við erum öll almannavarnir.

Ferðafélag Íslands