Anna Dóra í stjórn FÍ

Aðalfundur Ferðafélags Íslands var haldinn í gær. Ólafur Örn Haraldsson flutti skýrslu stjórnar en árið 2018 var sérlega viðburðaríkt hjá félaginu og fjölmörg verkefni sem félagið sinnti á árinu.  Skálarekstur er sem fyrr umfangsmesti hluti starfseminnar en kjörsvið félagsins eru skálarekstur, ferðir, útgáfa og fræðsla.  Ferðasumarið 2018 var sérstakt meðal annars vegna mikillar vætutíðar fyrri hluta sumars og eins setti HM í knattspyrnu sinn svip á fyrri hluta sumars.

Gríðarlega góð þátttaka var í fjallaverkefnum FÍ sem og FÍ Landvættum og Landkönnuðum, Ferðafélagi barnanna og FÍ Ung.  Eins var þátttaka almennt góð í ferðum sumarsins, ekki síst seinni hluta sumarsins.  Nýframkvæmdir og viðhaldsvinna var fyrirferðamikil í skálarekstrinum. 

Alls störfuðu yfir 70 skálaverðir hjá félaginu sumarið 2018.  Þá var Ferðafélag Íslands með göngustjóra á Laugaveginum, umhverfisstjóra í Þórsmörk, setti upp skilti og vegvísa í Landmannalaugum, á Laugaveginum og Fimmvörðuhálsi.  Ferðafélagið innleiddi Vakann á árinu og samþykkt málstefnu félagsins.  

Á aðalfundinum var Sigrún Valbergsdóttir endurkjörin varaforseti FÍ til næstu þriggja ára, sem og Gísli Már Gíslason var endurkjörinn til þriggja ára.  Anna Dóra Sæþórsdóttir prófessor við HÍ var kjörin í stjórn en Ólöf Sigurðardóttir hætti í stjórn og var henni þakkað frábært starf í stjórn síðustu ár.