Árbók FÍ 2024 - Sunnan Vatnajökuls - Frá Núpsstað til Suðursveitar

Árbók FÍ 2024

Árbók Ferðafélags Íslands kemur nú út 97. árið í röð. Titill bókarinnar er Sunnan Vatnajökuls – Frá Núpsstað til Suðursveitar. Í henni er fjallað um svæði sem markast af Djúpá í Fljótshverfi í vestri, vatnaskilum Vatnajökuls í norðri, Steinadal í Suðursveit í austri og strandlengjunni í suðri.

Höfundar eru Hjörleifur Guttormsson náttúrufræðingur, Snævarr Guðmundsson náttúrulandfræðingur og Oddur Sigurðsson jarðfræðingur. Langflestar ljósmyndir í bókinni eru eftir höfundana þrjá og Snævarr annaðist jafnframt gerð uppdrátta og skýringarmynda. 

Árbókin er komin til okkar og dreifingarferli er hafið og bókin væntanleg næstu daga til  félagsmanna sem þegar hafa greitt árgjaldið.  Þeir félagar sem eiga eftir að greiða árgjaldið eru hvattir til greiða gjaldið og fá  árbókina senda í kjölfarið.  Margvíslegur ávinningur fylgir því að vera félagi í Ferðaf´élagi Íslands.  Sjá hlekk: https://www.fi.is/is/fi/fridindi-og-afslattarkjor-fi-felaga

Eins og áður í árbókum félagsins kynnast lesendur svæðinu í gegnum landlýsingu, umfjöllun um jarðfræði og náttúrufar auk þess sem fjallað er um söguna, mannlífið og þær persónur sem þar hafa verið áberandi. Rúm þrjátíu ár eru síðan svæðið sunnan Vatnajökuls var síðast til umfjöllunar í árbók og margt hefur breyst á þeim tíma í þessum stórbrotna heimi jökla og elda. Þá er ítarleg umfjöllun um stofnun Skaftajökulsþjóðgarðs, sem varð síðar hluti af Vatnajökulsþjóðgarði, og gönguleiðum lýst í Skaftafellslandinu. Bókin ætti að reynast góður ferðafélagi þeirra sem leggja leið sína um svæðið eða vilja kynnast því nánar.

Árbókin er 280 blaðsíður með 235 ljósmyndum og 32 kortum og skýringarmyndum. Bókin er litprentuð með heimildaskrá ásamt örnefna- og mannanafnaskrám. Í bókarlok er greint frá starfi FÍ og deilda þess á landsbyggðinni á árinu 2023.

Ritnefnd FÍ er þannig skipuð:  Gísli Már Gíslason formaður, Guðrún Kvaran, Eiríkur Þormóðsson, Pétur Eggertz. 
Daníel Bergmann hafði umsjón með útgáfunni.