Best að flétta ferðir úr fræðslu, náttúru og útivist

Það er gaman ganga með Pétri H. Ármannssyni arkitekt og fararstjóra hjá Ferðafélagi Íslands til margra ára um borgarlandið því fáir ef nokkrir þekkja betur eðli og inntak húsanna en hann. Kannski má orða það þannig að Pétur bendi á það sem allir sjá, en fæstir taka eftir. Sjálfur er Pétur þeirrar náttúru að hann les ekki bara húsin fyrir okkur hin sem erum ekki jafnlæs á byggingar, hann er líka vel lesinn í sögunni og vitnar oft í skáldin í ferðum sínum. Hann hefur enda leitt fólk í fótspor Nóbelsskáldsins Halldórs Laxness, bæði í borginni og í nágrenni Gljúfrasteins auk þess að ganga um sögusvið bóka á Álftanesi. En þekktastur er Pétur fyrir borgargöngurnar hjá FÍ sem tengjast allar skipulagi, sögu, mannlífi og byggingum.

 

„Hús og önnur mannvirki segja ákveðna sögu og það gefur lífinu gildi að þekkja þá þætti sem mótað hafa okkar nánasta umhverfi,“ segir Pétur þegar vikið er að mikilvægi bygginganna í borginni. Og hann vitnar strax í Ofvitann eftir Þórberg Þórðarson sem skrifaði listilega um sjálfan sig og samferðarfólk sitt í Reykjavík á fyrstu áratugum 20. aldar.

 

„Í Ofvitanum talar Þórbergur um húsin sem bókfell aldanna,“ segir Pétur og bætir svo við að oft sé vitnað til þessara orða Þórbergs : „All­ir Íslend­ing­ar kunna að lesa bæk­ur. En hversu marg­ir kunna að lesa hús? Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús, en að geta lesið bæk­ur. Húsið er hugs­un, sem hef­ur hæð, lengd og breidd. Bók­in er vönt­un á hugs­un sem aðeins hef­ur lengd. Húsið er sann­leik­ur­inn um líf kyn­slóðanna. Bók­in er lyg­in um líf þeirra."

 

Svo mörg voru þau skáldlegu orð Þórbergs sem eiginlega bjargar sjálfur húsum með því að lýsa þeim svo vel í bókum sínum, ekki síst í Ofvitanum, Bréfi til Láru og í Íslenskum aðli.

 

En það er nú stundum háttur skáldanna að tala ekki fjálglega um skáldskapinn en meina samt hið gagnstæða og þau eru svo sannarlega mörg upptekin af húsum. „Menn búa í húsum, hús búa í mönnum og hús og menn farast hjá,“ orti skáldið Sigfús Daðason.

 

Af þessum línum Sigfúsar má auðveldlega ráða að húsin móta líf okkar sem búum í þeim og með þeim og nákvæmlega þannig orðar Pétur það sjálfur: „Við verðum að lifa með húsunum hvort sem okkur líkar betur eða vel - við höfum ekkert val.“

 

Brýnt að fólk sé læst á umhverfi sitt

Þegar gengið er með Pétri í þéttbýlinu – á malbikinu eins og stundum er sagt - verður fólk þess fljótt áskynja að hann er með mikla þekkingu á sviði byggingarlistar og skipulagssögu og flestar ferðir hans taka mið af því. Það kom því fáum á óvart þegar Pétur hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir tveimur árum fyrir miðlun þekkingar á sögu byggingarlistar á Íslandi og sömuleiðis fyrir rannsóknir á því sviði. Þeirrar miðlunar njóta öll þau sem ganga með honum í ferðum FÍ um borgina. Pétur segir brýnt fyrir fólk að vera læst á umhverfi sitt - þar skipti þekking á undirstöðuatriðum byggingarlistar máli.

 

 

„Umfjöllun á sviði byggingarlistar og skipulagssögu má þó ekki vera of sértæk eða fræðileg í gönguferðum ef hún á að ná eyrum þátttakenda með ólíkan bakgrunn. Íslendingar eru sagnaþjóð og því hefur mér reynst vel að flétta inn í leiðsögnina frásagnir af fólki og viðburðum tengdum þeim stöðum sem skoðaðir eru á göngunni, jafnframt því að fjalla um hús og skipulag. Stundum gerist það að þátttakendur í göngunni uppgötva nánasta umhverfi sitt í nýju ljósi og þá er tilganginum náð.“

 

Aðdáandi húsameistarans Guðjóns Samúelssonar
Þegar Pétur er spurður um áhrif húsanna á okkur sem ferðumst um þessa borg í bíl, gangandi, hjólandi eða á rafskútum eins og nú er móðins, þá svarar hann að bragði að húsin séu einfaldlega til staðar og séu okkur nauðsynleg, þau tryggi okkur öryggi og skjól. Hönnun þeirra, útlit og viðmót hafi líka áhrif á vellíðan okkar, meðvitað og ómeðvitað.

 

„Guðjón Samúelsson og fleiri menntamenn af aldamótakynslóð trúðu því að vel skipulagðar borgir og falleg hús hefðu mannbætandi áhrif jafnt fyrir andlega og líkamlega vellíðan fólks - því væri borgarskipulag mikilvægt lýðheilsumál.“

 

Pétur er vel að sér um byggingarnar sem Guðjón Samúelsson hannaði en þær blasa víða við í Reykjavík og reyndar um land allt. Fyrir bók sem Pétur reit um Guðjón hlaut hann viðurkenningu Hagþenkis en Hið íslenska bókmenntafélag gaf út það merka rit. Pétur hlaut jafnframt tilnefningu til hinna eftirsóknarverðu Íslensku bókmenntaverðlauna fyrir sama rit en slíkar tilnefningar hefur Pétur reyndar hlotið í tvígang.

 

Háskólinn rís
upp af hæðinni

virki byggt
úr þeirri
bjargföstu trú
að vernda skuli
allt sem gott er
og satt

Þannig yrkir þjóðskáldið okkar Gerður Kristný um eitt af þeim húsum sem húsameistarinn Guðjón hannaði fyrir alla Íslendinga, Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Talandi um áhrif húsa – þá hefur sú bygging verið eitt af meginkennileitum borgarinnar frá því hún reis á Melunum og var vígð árið 1940. Og þótt byggingin tali sterkt til okkar þegar sólarljósið fellur á hana þá má stundum auka áhrif bygginga með lýsingu eins og Gerður Kristný bendir okkur á í ljóðinu sínu um Háskóla Íslands.

 

Á kvöldin
lýsa kastarar
upp virkisvegginn

 

Birtast þá menn
á múrnum
sem risar

 

Þannig er Háskólinn
stækkar okkur
svo við megum
vernda allt sem gott er
og satt

 

Arkitekt með marga hatta

Pétur H. Ármannsson er arkitekt eins áður sagði, rétt eins og Guðjón Samúelsson var. Guðjón lauk námi í arkitektúr frá Listaakademíunni í Kaupmannahöfn árið 1919 en Pétur nam slík fræði við Toronto-háskóla í Kanada og svo við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum og lauk þaðan prófi árið 1991. Einni tölu er víxlað ef horft er til útskriftarárs Guðjóns Samúelssonar, 1919 og 1991.

 

En Pétur er ekki bara arkitekt því við þá iðju má bæta ýmsu. Hann setur nefnilega upp ólíka hatta eftir þörfum. Pétur er afkastamikill rithöfundur og hefur skrifað bækur um arkitektúr, skipulag og byggingalist. Fyrir eina þeirra, bók um Manfreð Vilhjálmsson arkitekt, hlaut hann Menningarverðlaun DV ásamt Halldóru Arnardóttur árið 2014.

 

Pétur er líka höfundur blaða- og fræðigreina, fyrirlestra, sýningartexta og dagskrárefnis um sögu byggingarlistar. Pétur unnir gömlum húsum og starfar við að slá um þau skjaldborg en frá árinu 2013 hefur hann verið sviðsstjóri húsverndarmála hjá Minjastofnun Íslands.

 

„Störf mín sem arkitekt hafa í gegnum tíðina mest tengst hinum sögulega byggingararfi, varðveislu hans, rannsóknum og miðlun. Ég hef starfað tímabundið á teiknistofum í samstarfi við aðra en aldrei staðið í sjálfstæðum rekstri á því sviði,“ segir Pétur sem er auðvitað fararstjóri sem gengur ekki hvað síst um borgarlandið og miðlar til okkar um flest það sem ber fyrir augu.

 

„Umhverfið í borginni talar til allra skynfæra okkar,“ segir hann, „ekki aðeins það sem við sjáum heldur líka hljóð, lykt og snerting. Við hér á norðurslóðum sækjum í birtu, skjól og umhverfi sem býr yfir fjölbreytileik og er áhugaverður vettvangur mannlífs. Gott dæmi er Vallarstræti við norðanverðan Austurvöll þar sem eitt sinn voru bílastæði en er nú þéttsettinn dvalarstaður fólks eftir að götunni var lokað fyrir bílaumferð.“

 

 

Náttúran á Álftanesi mótaði með frammúrstefnuhúsum

Það er varla hægt að segja að við Íslendingar séum allir komnir af húsum, því við áttum öldum saman eiginlega engin, bjuggum í torfbæjum, en við erum öll komin af ljóðum og líka af fólki sem ól sinn aldur allan í sveit. Föðurætt Péturs er úr Rangárvallasýslu en móðuramma og -afi hans voru úr Bitrufirði og Reykhólasveit.

 

Pétur er sjálfur fæddur í Hafnarfirði árið 1961 og ólst upp á Álftanesi. Hann er því ekki alveg borgarbarn þótt áhuginn á borgum og húsum hafi snemma orðið mikill. Hann sleit nefnilega barnsskónum á mörkum þéttbýlis og sveitar; og ennþá má sjá merki um búskap víða á Álftanesi. Þar á nesinu urðu líka fyrstu kynni Péturs af íslenskri náttúru en fjaran og túnin eru ekki bara magnað leiksvæði fyrir ungan dreng, þessi sömu svæði eru fyrsti áfangastaður fjölmargra farfugla á leið sinni á varpstöðvarnar hér heima. Á Álftanesið sækir líka hluti af heimsstofni margæsar brýna næringu fyrir frekara flug yfir Grænlandsjökul til að verpa í nyrstu túndrum Kanada. Stundum eru líka fjörurnar þéttsetnar af tildru og rauðbrystingi sem sjást hér bara vor og haust.

 

Á Álftanesi urðu líka fyrstu kynni Péturs af Ferðafélagi Íslands. Hann komst snemma í bókahillur foreldra sinna og þar voru Árbækur FÍ í uppáhaldi. „Þær eru að mínu viti aðgengilegustu og vönduðustu rit um íslenska staðfræði og náttúru og ég er svo heppinn að eiga allt safnið í heild sinni.“

 

Á Álftanesi eru líka gömul hús með mikla sögu, Bessastaðastofa og Bessastaðakirkja sem blasa líka við Reykvíkingum þegar horft er til suðurs yfir Skerjafjörðinn. Það hefur vafalítið haft áhrif á Pétur að hafa þessi hús fyrir augunum alla daga í æsku. En það kom fleira til sem mótaði drenginn sem var ofið inn í nútímann og kannski nær okkur en þessi gömlu sögufrægu hús.

 

„Hús og mannvirki vöktu snemma áhuga minn og ég var um fermingu þegar ég ákvað að leggja arkitektúr fyrir mig ef ég ætti þess kost að fara í háskólanám. Það hafði áhrif að alast upp á Álftanesi á 7. og 8. áratugnum, litlu sveitasamfélagi þar sem fjórir kunnir arkitektar voru búsettir. Ég kynntist fjölskyldum arkitektanna og heillaðist af húsunum þeirra sem mér þóttu spennandi og framúrstefnuleg. Fallegar byggingar snerta hjarta okkar líkt og tónlist, leiklist og myndlist og gera líf okkar innihaldsríkara. Byggingarlist hefur verið kölluð móðir listanna enda tengist hún öllum greinum lista og hönnunar.“

 

Nálægð við náttúru brýn – en ekki góð þróun allsstaðar

Ó borg, mín borg, ég lofa ljóst þín stræti, þín lágu hús og allt sem fyrir ber, syngur stórstjarnan Bubbi Morthens og á undan honum frændi hans Haukur Morthens við ljóð Vilhjálms frá Skálholti. Borgin hefur svo sannarlega breyst þótt enn séu það lágreistu húsin sem setja mestan svip á byggðina eins og í ljóði Vilhjálms. En Pétur sér blikur á lofti í þróun bygginga og skipulagi þar sem ljósið á ekki alltaf jafngreiða leið inn í mannssálina.

 

„Því miður hafa á síðustu árum risið hverfi á höfuðborgarsvæðinu þar sem ekki nýtur sólar og útsýnis í mörgum íbúðum og græn svæði eru skert í nafni þéttingu byggðar. Þetta er dapurleg þróun,“ segir Pétur.

 

Það er nú samt enn þá þannig að Reykjavík og Álftanes eiga ýmislegt sameiginlegt og kannski meira en maður áttar sig á við fyrstu sýn. Ef litið er upp er nándin við náttúruna áþreifanleg á báðum stöðum og víðast hvar blasa við fjöllinn og fjaran þótt þetta sé sums staðar í allt öðrum tónum en Pétur vill sjá slegna við hönnun í þéttbýli þessa dagana. Kannski eru samt fáir staðir á jörðinni þar sem er nánast hægt að horfa á eldgos útum gluggann heima hjá sér.

 

„Já, segir Pétur, nálægðin við náttúruna, hafið og fjöllin, hefur alla tíð einkennt Reykjavík og aðra íslenska þéttbýlisstaði. Víðast hvar er stutt í náttúruna utan við bæjarmörkin. Þá má ekki gleymast að ætla náttúrunni stað innan þéttbýlisins. Tenging við náttúruna í nærumhverfi borgarbúa: birta, fjallasýn og græn svæði, er nauðsynleg fyrir vellíðan og andlega heilsu fólks, það má aldrei gleymast þegar ný hverfi eru skipulögð,“ segir Pétur.

 

Þegar Pétur er spurður beint að því hvað honum finnist mikilvægast varðandi byggingar og borgarskipulag liggur hann ekki á svarinu.

 

„Rannsóknir í umhverfissálarfræði og arkitektúr hafa bent á ýmis atriði sem hafa áhrif á upplifun okkar af borgarumhverfinu. Eitt af því mikilvægasta er mælikvarði húsa, hæð þeirra og umfang. Hefðbundin, klassísk byggingarlist bjó yfir ýmsum ráðum til að brjóta upp form og umfang bygginga í minni einingar sem samsvara betur því sem við skynjum sem mannlegan mælikvarða. Í nýrri byggingarlist er oft ekki nægilegur gaumur gefinn að þessu atriði auk þess sem hagnaðarsjónarmið stýra oftar en ekki mótun og stærð húsa - á kostnað samfélagslegra gæða. Að margra mati búa gamlar byggingar yfir fagurfræðilegum eiginleikum og mannlegum hlutföllum sem sumar yngri byggingar skortir.“

 

 

Bestu ferðirnar fléttast úr fræðslu, náttúru og útivist

Þegar við erum að slá botninn í spjallið okkar við Pétur beinum við því að Ferðafélaginu sem senn fagnar hundrað ára afmæli. Pétur segist fyrst hafa farið í sumarleyfisferðir með FÍ á síðasta áratugi 20. aldar en hann hafði áður farið í styttri göngur á fell og hæðir í nágrenni Reykjavíkur.

 

 

„Ég komst snemma í kynni við Guðmund heitinn Hallvarðsson fararstjóra,“ segir Pétur og með þeim orðum snertir hann þráð í þeim sem þetta ritar. Við eigum það nefnilega sameiginlegt við Pétur að hafa átt fyrstu löngu göngurnar okkar með Ferðafélagi Íslands með Guðmundi sem var ættaður frá Hlöðuvík á Hornströndum.

 

„Hann var brautryðjandi í því að fara með hópa á svæðið norðan við Ísafjarðardjúp. Næstu árin fór ég í ógleymanlegar ferðir um þær slóðir undir traustri leiðsögn Guðmundar. Það var einmitt Guðmundur sem bað mig upphaflega um að vera með leiðsögn í árlegum janúargöngum um höfuðborgarsvæðið, fyrst á vegum Hornstrandafara og síðar sem hluti af dagskrá Ferðafélagsins. Eftir Hornstrandir bættust aðrir staðir við: Þjórsárver, Kjalvegur hinn forni og Kerlingarfjöll, Jarlhettuslóðir, Öskjuvegur, Lónsöræfi, Rauðisandur, Látrabjarg og uppland Skaftártungna, svo nokkur dæmi séu nefnd. Í öllum þessum ferðum nutum við leiðsagnar farastjóra á heimsmælikvarða sem í öllum tilvikum voru sérfróðir um það landssvæði sem leiðin lá um. Bestu ferðalögin eru þau þegar fræðsla um sögu staða og náttúru landsins helst í hendur við útivist og hreyfingu. Þetta tvennt verður ekki aðskilið að mínu mati. Í þessum efnum hefur vönduð fararstjórn skapað Ferðafélagi Íslands mikilvæga sérstöðu.“