Börn á fjöllum

Frá Laugavegsferð í sumar
Frá Laugavegsferð í sumar

Það hefur verið áberandi hversu mörg börn hafa gengið meðal annars Laugaveginn þetta sumarið. Það vex mörgu fólki í augum að ganga þessa leið, hvað þá sú tilhugsun að börn gangi hana. En þau eru seigari en margir halda.

Samvera kynslóðanna

Dalla Ólafsdóttir hefur umsjón með Ferðafélagi barnanna ásamt Matthíasi Sigurðarsyni. Hún telur ástæðu þessa mikla fjölda barna í göngum vera þá að æ fleiri séu að átta sig á því hversu mörg frábær tækifæri til samveru og ævintýra íslensk náttúra býður upp á. Að úti í náttúrunni geti kynslóðirnar átt góðar stundir saman, styrkt böndin, aukið seigluna og skapað góðar minningar. Þá gefi göngurnar börnum og foreldrum tækifæri til að gera eitthvað saman á jafningjagrundvelli.

Ferðafélag barnanna fór í margar skemmtilegar ferðir í sumar, td. um eyðivíkur Víknaslóða, um stórbrotnu Lónsöræfin þar sem krakkarnir reyndu sig niður Illakamb og veiðiferð á Vatnaleiðinni þar sem börnin léku sér við vatnið, veiddu fisk og gengu um falleg svæði. Þá var einnig boðið upp á jóga- og galdraferð á Ströndum að ógleymdum nokkrum Laugavegsgöngum en uppselt var í allar þessar ferðir.

Ótal ævintýri á forsendum barnanna

„Það er fátt sem toppar vað yfir ískaldar jökulár, spennandi snjóhella, einstigi, hveri, uppáhaldsnesti, góðan félagsskap, heitt kakó í skála og spil og kvöldvöku með fjölskyldu og vinum!” segir Dalla. Þegar hún er spurð að því hvort öll börn geti gengið á fjöll stendur ekki á svari. „Já það geta öll börn gengið á fjöll og farið í gönguferðir. Ferðir þurfa þó að vera á forsendum barnanna þar sem gleði og leikur er í fyrirrúmi. Reglulegar pásur eru nauðsynlegar og ekki skemmir fyrir að geta sagt börnunum sögur af útilegumönnum, eldgosum og jarðhræringum eða hrakningasögur af svæðinu sem gengið er um hverju sinni. Setja landslagið í samhengi sem börnin skilja. Það er fyrst og fremst hausinn sem þarf að þjálfa og það gerum við með því að byrja smátt, vera dugleg og hvetja krakkana og svo verðlauna þau með góðu nesti og jafnvel kósístund að göngu lokinni.“ 

Hvað með búnað fyrir börn? Er hann smækkuð útgáfa af þeim búnaði sem fullorðna fólkið notar?

„Já það má segja það. Börnin þurfa fyrst og fremst góða skó, ullarföt og regnheldan fatnað. Þá eru þau fær í flestan sjó. Þegar börnin stækka, um 10 ára aldur, geta þau farið að ganga með dagpoka og svo finnst sumum börnum sport að ganga með göngustafi en það er yfirleitt ekki nauðsynlegt fyrir þau.“ 

Dalla mælir með þolinmæði, sérstaklega fyrstu einn til tvo kílómetrana en eftir það er gangan iðulega komin á gott skrið. Gott sé að taka rúsínupásu á ca 45 mínútna fresti og lengri pásur á 2ja til 3ja klst. fresti. Svo er líka nauðsynlegt að börnin fái að velja uppáhaldsnestið sitt, sem þarf auðvitað að vera hollt en það megi líka vera pínu óhollt með. Þá þarf að muna að vera stolt að göngu lokinni. Það er heldur ekki verra að bjóða vinum barnanna með, það geri gönguna enn skemmtilegra sem og að hafa í huga að ferðalagið sjálft sé markmiðið frekar en toppurinn eða næturstaðurinn.

En hvað ætli komi börnum og foreldrum mest á óvart í göngum? 

„Krökkunum finnst yfirleitt langskemmtilegast að kynnast fullt af nýjum krökkum í ferðunum okkar, vaða yfir jökulár, klífa bratta kletta með keðjum og hrekkja foreldrana á kvöldvökum. Svo finnst krökkum reyndar líka skemmtilegt þegar þau fá að heyra þjóðsögur eða hrakningasögur af þeim svæðum þar sem gengið er um hverju sinni. Foreldrarnir eru yfirleitt steinhissa hvað börnin eru dugleg og eru börnin yfirleitt langtum óþreyttari en fullorðna fólkið.“

Framundan hjá Ferðafélagi barnanna

Ferðafélag barnanna hefur ekki farið varhluta af ástandinu en stefnt er að því að fræðast um það hvernig eldfjöll verða til í byrjun október þegar gengið verður á Helgafell. Þá verða stríðsminjar í Öskjuhlíðinni skoðaðar undir lok októbersmánaðar. Ef aðstæður leyfa verður svo farið í hina árlegu vetrarferð í Þórsmörk í lok nóvember en Dalla segir fátt fallegra en Þórsmörk í vetrarham og þessi ferð sé dásamleg byrjun á jólaundirbúningi.

Vert er að geta þess að allir félagsmenn Ferðafélags Íslands tekið þátt í starfi Ferðafélags barnanna. Auk þess eru nokkrir viðburðir á hverju ári í samstarfi við Háskóla Íslands svo sem sveppasöfnun, norðurljósaskoðun og fuglaskoðun sem hafa notið mikilla vinsælda.

Nánari upplýsingar um Ferðafélag barnanna