Eldri og heldri borgarar í Þórsmörk

Í gær heimsótti fríður hópur eldri og heldri borgara Þórsmörk í ferðafélagsferð í  blíðskaparveðri.   Þessi ferð var sérstaklega hugsuð fyrir eldri og heldri borgara en allir voru velkomnir. Fullbókað var í ferðina og komust  færri að en vildu en þetta er þriðja árið í röð sem að ferð sem þessi er farin.

Þórsmörk bauð upp á blíðskaparveður og ferðalangar kynntumst þeim þremur ferðamannasvæðum sem þar eru; Húsadal, Langadal og Básum.

Boðið var upp á létta göngu milli svæðanna fyrir þá sem vildu. Harmonikka var með í för og trommur, haldin ferðafélagskvöldvaka og sagðar sögur; sumar nýjar en aðrar gamlar; sumar sannar en aðrar ekki alveg. Aðalatriðið var að eiga góða og skemmtilega stund saman og það tókst alveg ljómandi vel.

Fararstjórar í ferðinni voru Pétur Magnússon og Ingimar Einarsson.