Fjallamennska að vetri - öryggisatriði

Góður undirbúningur og allur réttur búnaður er mikilvægur allar fyrir fjallgöngur að hausti og vetri.
Góður undirbúningur og allur réttur búnaður er mikilvægur allar fyrir fjallgöngur að hausti og vetri.

Ferðafélag Íslands hefur unnið að áhættumati fyrir fjölmargar gönguleiðir á Íslandi og er þeirri vinnu haldið áfram. Vinnan felst í því að kortleggja þær hættur sem við er að etja, sem geta auðvitað verið fjölmargar, sérstaklega þegar ferðast er að hausti til og vetrarlagi.

Helstu áhættur í haust/vetrarferðamennsku

 • Hætta á að hrasa – renna í hálku
 • Hætta á að renna í fjalllendi í harðfæri – hálku
 • Hætta á að hrapa fram af fjallsbrúnum / klettum
 • Hætta á að villast – verða úti
 • Hætta á að lenda í óveðri – verða úti
 • Hætta á að verða blautur – kaldur – krókna
 • Hætta á að falla í gegnum ís á vatni
 • Hætta á að lenda í snjóflóði / aurskriðum
 • Hætta á að verða sambandslaus
 • Hætta á að lenda í vandræðum vegna þess að maður er vanbúinn / illa búinn
 • Hætta á að vanmeta aðstæður / ofmeta sjálfan sig

Þetta er að sjálfsögðu ekki tæmandi listi yfir hættulegar aðstæður sem göngufólk getur lent í þegar það stundar fjallamennsku að hausti eða vetri. Mikilvægt er að undirbúa sig vandlega fyrir hverja ferð.

Undirbúningur fyrir fjallgöngur að hausti og vetri

 • Kanna aðstæður á leiðinni, t.d. snjóalög, hálku, aurbleytu eða annað og ekki fara í ferðina nema aðstæður séu góðar.
 • Fylgjast með veðurspá fyrir ferð – sé veðurspá slæm og gert ráð fyrir meiri vindhraða en 14 metrum á sekúndu er rétt að fresta ferð eða breyta. Rétt er að hafa í huga að veður breytist hér á landi á örskammri stundu. Þá er veður til fjalla yfirleitt mun verra en í byggð.
 • Athuga hvort snjóflóðahætta sé á viðkomandi leið og tryggja að þátttakendur eigi ekki á hættu að lenda í snjóflóði. Hér má nálgast snjóflóðaspár Veðurstofunnar.
 • Mikilvægt er að fara yfir búnað sem þarf til hverrar ferðar miðað við aðstæður og tryggja að allir séu rétt búnir.
 • Nauðsynlegur búnaður í allar vetrarferðir eru: nærfatnaður úr ull er bestur eða gerviefnum, gott millilag t.d. flís eða stretch og góður hlífðarfatnaður, jakki og buxur, vind- og vatnsheldur. Þá er nauðsynlegt að vera með húfu og vettlinga. Góðir gönguskór eru nauðsynlegir, helst háir, með góðri styrkingu yfir ökla og grófum botni. Gott að hafa hálkubrodda en rétt að hafa í huga að þeir duga skammt í krefjandi aðstæðum og geta veitt falskt öryggi. Ef leið liggur um brattlendi eða klettabelti er nauðsynlegt að hafa með ísbrodda. Ef farið er í ísbrodda þá þarf viðkomandi að hafa ísexi í hendi.
 • Mikilvægt er að hafa GPS tæki og kunnáttu til að vinna með tækið.
 • Göngustafir veita stuðning í ákveðnum aðstæðum.
 • Nauðsynlegt er að hafa hlaðinn farsíma með í ferð.
 • Aldrei skal vera einn á ferð í vetraraðstæðum.
 • Láttu vita af ferðum þínum og áætlaða heimkomu. Gott er að nota safetravel.is
 • Gott er að hafa bakpoka með auka hlífðarfatnaði, sjúkrapoka, nestisbita og heitt á brúsa.
 • Gott er að kaldstarta sem kallað er, það er að vera ekki of mikið klæddur í upphafi og hafa frekar fatnað í bakpoka. Göngumaður er mjög fljótur að ganga sér til hita en um leið þarf að varast að svitna. Blaut föt og kuldi eru hættuleg göngumanni. Þess vegna er mikilvægt að vera í fatnaði sem andar eða tekur ekki í sig raka.
 • Gott er að lesa og fræðast um vetrarfjallamennsku og auka þannig þekkingu sína. Eins er gott að læra af reyndari fjallamönnum og byggja upp reynslu sína og þekkingu. Hægt er sækja námskeið um fjallamennsku hjá Ferðafélagi Íslands og fleiri aðilum.