Hjól og fjall af stað aftur

Haustið 2020 var verkefninu Hjól og fjall hleypt af stokkum. Verkefnið fól í sér lengri og styttri ferðir á fjallahjólum sem allar fólu þó í sér mislangar gönguferðir eða fjallgöngur. Hugmyndin var því að nota reiðhjól til náttúruskoðunar og útivistar líkt og gönguskó eða skíði. Farið var í nokkrar dagsferðir á svæðinu frá Snæfellsnesi til Mýrdals en einnig styttri ferðir, aðallega í nágrenni Reykjavíkur.
Covid þvældist svolítið fyrir verkefninu í haust og tafði lok þess. Engu að síður voru vinsældir slíkar að ákveðið var að setja verkefnið af stað aftur nú á vordögum með örlítið breyttri dagskrá. Umsjónarmenn og fararstjórar eru sem fyrr Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.
Verkefnið er fullskipað með 35 þátttakendum og segir sína sögu um áhuga þeirra að rúmlega helmingurinn var með í verkefninu s.l. haust. 
Á sunnudaginn stefna menn ótrauðir austur á aura Markarfljóts til að skoða heimkynni galdramanna, 1700 ára gamla birkiskóga og ganga á Stóru-Dímon. Veðurspá gæti vissulega verið betri en eitt af því sem þátttakendur lærðu s.l. haust er að flest sem er einhvers virði í lífinu krefst nokkurrar fyrirhafnar og hjólar sig ekki sjálft eins og stundum var sagt.