Anna Dóra nýr forseti

Anna Dóra Sæþórsdóttir var kjörinn forseti FÍ á aðalfundi á þriðjudag. Hún er fyrst kvenna til þess að gegna þessu embætti í 94 ára sögu félagsins. Anna Dóra hefur setið í stjórn Ferðafélags Íslands í tvö ár. Hún tekur við embættinu af Ólafi Erni Haraldssyni sem hefur verið forseti FÍ s.l. 17 ár. Aðeins Geir Zoega hefur gegnt embættinu lengur en hann var forseti FÍ í 20 ár frá 1938 til 1958. 
Anna Dóra Sæþórsdóttir er prófessor við Háskóla Íslands þar sem hún kennir ferðamálafræði og hefur stundað áhugaverðar rannsóknir á sviði ferðamála meðal annars á hálendi Íslands á ýmsum kjörsvæðum Ferðafélags Íslands.
Anna Dóra lýsti því skemmtilega á aðalfundi FÍ hvernig hún hefði alist upp við virka þátttöku í starfsemi Ferðafélagsins og ferðast mikið um Ísland alla ævi. Hún hefur verið virkur þátttakandi í ýmsum verkefnum á vegum FÍ undanfarin ár á borð við FÍ Landvætti og FÍ Landkönnuði og hyggur á áframhaldandi þátttöku í ferðum félagsins.