10.750 félagar í FÍ

Félagsmönnum Ferðafélagi Íslands fjölgaði um 2000 á síðasta ári. Tala félagsmanna er nú 10.750 og hefur í sögulegu samhengi aldrei verið hærri. Það er trú forsvarsmanna félagsins að þessi fjölgun endurspegli aukinn áhuga á útivist sem lífsstíl og ánægju með þau fjölmörgu verkefni sem Ferðafélag Íslands býður upp á.
Þessi fjölgun átti sér stað meðan covid faraldurinn gekk yfir Ísland og var því sérstakt ánægjuefni því faraldurinn hafði gríðarleg áhrif á tekjustreymi Ferðafélagins og því var fjölgunin kærkominn stuðningur á erfiðum tímum. Íslendingar ferðuðust meira um eigið land en áður meðan faraldurinn geisaði og fjölmörgum ferðum var bætt við á dagskrá Ferðafélagsins til þess að mæta þessari auknu eftirspurn.

Í sögulegu samhengi í nærri 100 ára sögu Ferðafélagsins er áhugavert að bera saman fjölda félaga og mannfjölda á landinu í heild. Þá kemur í ljós að nánast frá upphafi hefur fjöldi félaga í FÍ verið í kringum 3% af heildarmannfjölda og er svo enn.
Önnur leið til að líta á þennan stóra hóp er að líta svo á að bakvið hvern félaga sé eitt lögheimili og aðrir heimilismenn séu jafnframt félagar í FÍ því fríðindin sem fylgja félagsaðild gilda fyrir fjölskylduna alla. Gegnum þau gleraugu sést skyndilega að hópur félagsmanna er nálægt 30 þúsundum og gerir Ferðafélag Íslands að einni stærstu fjöldahreyfingu á Íslandi.
Aðalatriði þessa máls er samt og verður að vort aldna félag nái að vera síungt með því að vera stöðugt í takt við tímann og tilbúið til að taka virkan þátt í því sem fólkið í landinu langar til að fást við og leggja fram aðstoð og leiðsögn við það. Þá gengur öllum vel.