FÍ vísar veginn

Nýtt upplýsingaskilti við rætur Snæfellsjökuls.
Nýtt upplýsingaskilti við rætur Snæfellsjökuls.

Ferðafélag Íslands hefur á undanförnum árum sett upp upplýsingaskilti á fjölförnum vinsælum gönguleiðum, meðal annars á Laugaveginum, Fimmvörðuhálsi, Esjunni, Vífilsfelli, Öræfajökli og nú við Snæfellsjökul. Með þessu er Ferðafélagið að greiða götu útivistarfólks og fjallafara og tryggja öryggi þeirra.
Á skiltinu koma fram upplýsingar um búnað ofl. sem þarf til göngunnar á viðkomandi leið. Eins er árstíðarhringur sem sýnir mismunandi erfiðleika- og hættustig eftir því á hvaða árstíma er ferðast og sumar leiðir lokaðar yfir vetrartímann. Um leið hefur félagið sett upp stikur og vegvísa á þessum leiðum.
Þessi ágætu skilti eru hönnuð af Árna Tryggvasyni en Ferðafélag Íslands hefur lengi átt samstarf við Árna um gerð skilta af þessu tagi. Árni er grafískur hönnuður en einnig þrautreyndur fjallagarpur sem hefur fengist við fjallgöngur og útivist í áratugi.