Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

Fossinn Rjúkanda í ánni Rjúkanda. Tómas Guðbjartsson tók myndina.
Fossinn Rjúkanda í ánni Rjúkanda. Tómas Guðbjartsson tók myndina.

Um þessar mundir er afar áhugaverð sýning í Norræna húsinu sem ber yfirskriftina „Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur“. Sýningin er mjög fjölbreytt með ljósmyndum, kvikmyndum og Náttúrukorti Framtíðarlandsins á tölvuskjá og minnir hún annars vegar á þau svæði í íslenskri náttúru sem þegar hafa verið nýtt til raforkuframleiðslu og hins vegar á þau svæði sem eru ýmist í nýtingar- eða biðflokki Rammaáætlunar. 

Á jarðhæð Norræna hússins eru sýnd myndbandsverk um öræfin í kringum Snæfell, áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar og eyðileggingu þess sem Ólafur Sveinsson gerði sérstaklega fyrir sýninguna. Auk þess er má sjá á sýningunni fimm mínútna langa mynd um hina umdeildu Hvalárvirkjun. 

Eitthvað fyrir börnin

Stór ljósmyndasýning er að auki í kjallara Norræna hússins þar sem finna má risastórar myndir af villtum dýrum, eitthvað sem örugglega vekur áhuga yngri kynslóða. 

Sýning á Hörputorgi

Þá verður einnig opnuð sýning á Hörputorgi  á næstu dögum en það er sýning á ljósmyndum Skarphéðins G. Þórissonar, náttúrufræðings og starfsmanns Náttúrustofu Austurlands. Myndirnar eru stórar og sýna einkum hreindýr og heiðargæsir á víðernununum í kringum Snæfell, konung íslenskra fjalla, auk landslagsmynda af Snæfelli. 

Nánari upplýsingar um sýninguna

Sýningin er styrkt af Umhverfisráðuneytinu, Ferðafélagi Íslands, Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, Skjámynd

og Útivist. Sýningarstjóri er Ólafur Sveinsson.