Færð á Laugaveginum

Mynd: Kerstin Langenberger
Mynd: Kerstin Langenberger

Eins og fram hefur komið er Laugavegurinn nú opinn og fyrstu ferðalangarnir hafa gengið þessa fallegu leið.

Margir velta fyrir sér færðinni á Laugaveginum, hvort snjórinn sé enn of mikill. Færðin er góð þótt þar sé líklega aðeins meiri snjór en vanalega. Hann er frá um það bil Stórahver og að Jökultungunum. Að sögn Jóhanns Kára Ívarssonar, rekstrarstjóra skála FÍ, ætti snjórinn þó ekki að vera hindrun fyrir ferðalanga þar sem jafnvel auðveldara sé að ganga í snjónum en í krapanum sem snjórinn breytist í síðar í sumar. Snjórinn geti aftur á móti unnið með göngufólki þar sem hann fyllir til dæmis upp í gil og stytti jafnvel aðeins leiðina. Jóhann Kári minnir á að met hafi verið sett í Laugavegshlaupinu 2015 en þá var meiri snjór á Fjallabaki en sést hafði í mjög mörg ár.

Varðandi vöðin þá er erfitt fyrir okkur að segja til um stöðuna á þeim þar sem hún getur breyst frá degi til dags. Við hvetjum hins vegar göngufólk til að ræða alltaf við skálaverði við brottför úr skála um leiðina sem framundan er þann daginn.

Mynd: Kerstin Langenberger