Fararstjórinn sem Ferðafélagið bjargaði

Reynir Traustason er ekki hver sem er. Það vita allir sem hafa kynnst þessum þúsundþjalasmiði, leiðsögumanni, fararstjóra, föður, háfjallamanni, blaðamanni, ritstjóra, rithöfundi, sjómanni og sveitamanni. Hann hefur svo hrjúfan skráp að sjá í fyrstu að meira að segja regnið hrekkur af honum. En þegar nær er komið, þar sem hann sötrar kaffi í ríki sínu í sæluhúsi Ferðafélagsins að Valgeirsstöðum á Ströndum, þá mildast ásjónan.  Undir öllu, allri þessari reynslu og allnokkrum hrukkum, þar eru víðsýn stálblá augu með vestfirsku lagi og í æðunum þýtur blóð ættað úr Hálsasveit í Borgarfirði.  Reynir hefur líka miklar skoðanir og eins og títt er með menn sem hafa skoðanir þá ganga þeir ekki endilega alveg í takt við fjöldann.

„Sem blaðamaður var nú áríðandi að halda skoðunum sínum til baka og vera sem minnst áberandi í umræðunni,“ segir Reynir og sýpur aftur á kaffinu. „Ég man þá tíð að hafa hent sígarettustubbum hvar sem er og að hafa reykt í bíl á ferðalagi með börnin. Ég hef stundum sagt að Ferðafélag Íslands hafi bjargað lífi mínu,“ segir Reynir með þunga og maður þarf aðeins að hjálpa eigin kjálka að lyftast á ný yfir þessari játningu.

Þótt mörgum sé hlýtt til Ferðafélagsins þá eru ekki jafnmargir sem telja félagið hreinlega lífgjafa sinn. En þannig er það nú bara í tilviki Reynis. Fyrir hartnær tveimur áratugum var hann þannig staddur að líkurnar til langlífis voru hartnær engar. Vandi hans var þríþættur. „Stress, yfirþungi og reykingar,“ segir Reynir. „Þetta varð mér áhyggjuefni og eftir að ég greindist með 40 prósent þrengingar í slagæðum ákvað ég að hefja endurreisn mína. Þar var lykilatriði að fara í reglubundnar fjallgöngur. Fyrsta skrefið var þó að hætta að reykja.“

Það gerðist þann 10. júní árið 2010 þegar hann jarðaði pípurnar sínar og allt sem þeim fylgdi í garðinum heima að viðstaddri þrettán ára dóttur sinni. „Eftir jarðarförina var ég hættur. En þá vildi ekki betur til en svo að ég þyngdist um 40 kíló. Í árslok 2010 var ég sem sagt búinn að minnka hættuna á krabbameini en hjartaáfall virtist afar líklegt,“ segir Reynir og horfir hugsi til baka.

Þar með hófst stórátak sem fólst í daglegum fjallgöngum og gjörbreyttu mataræði. Reynir setti sér algerlega brjálæðisleg markmið. Hann ætlaði sér ekkert minna en að fara á hæsta tind Íslands og það er kannski út af fyrir sig djarft en kannski ekki vitfirring. „Ég ætlaði jafnframt að fara á Mont Blanc,“ segir hann og þarna tók steininn úr. „Fæstir trúðu því að mér tækist þetta,“ segir hann og þagnar andartak en glottir svo… „en ég náði báðum markmiðum á þremur árum. Þann 23. september árið 2013 stóð ég á toppi hæsta fjalls Evrópusambandsins og naut þeirrar gleði sem felst í því að ná markmiði sínu.“

Göngur gefa betri líðan og aukinn styrk
Reynir segir gönguferðirnar hafi þannig tryggt sér styrk og heilbrigði auk þess að opna augu sín fyrir ægifegurð náttúrunnar. „Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, bauð mér á erfiðleikatímum í lífi mínu að vinna fyrir félagið sem skálavörður og fararstjóri. Þar með gat ég sameinað vinnu og áhugamál. Við stofnuðum gönguhópinn Fyrsta skrefið sem varð til þess að ég gekk reglulega tvisvar í viku. Þessi reynsla hefur kennt mér margt og gefið mér mikla lífsfyllingu. Í dag snýst líf mitt um útivist og það sem henni fylgir. Ég er alsæll.“
Fjallaverkefnið Fyrsta skrefið lifir enn góðu lífi hjá Ferðafélaginu og er öllum opið með þeim tilgangi að kynna fjallgöngur sem skemmtilega og árangursríka heilsurækt. Ávinningurinn er bætt heilsa, betri líðan og aukinn styrkur, allt afrekað í ágætum félagsskap.

Já, sjómennskan er ekkert grín
Leiðir þess sem þetta ritar hafa legið með Reyni Traustasyni á nokkrum ristjórnum þessa lands og duglegri maður er vandfundinn enda er keppnisskapið með ólíkindum. Reynir hafði þá gjarnan skegg nokkurra daga gamalt og hatt á höfði sem hann tók ekkert alltaf niður þegar hann skrifaði – ekkert ólíkan þeim höttum sem útlagar hafa í vestramyndum og kannski í raunveruleikanum. Seinna, þegar fjöllin höfðu dáleitt Reyni, þá vék þessi barðastóri hattur fyrir litríkari derhúfum og kannski buffi sem hann þræddi um hausinn.

Þegar ég heyrði fyrst af Reyni Traustasyni var hann samt hvorki blaðamaður né skálavörður í Norðurfirði á Ströndum eins nú, heldur sjómaður á Flateyri og baráttumaður fyrir bættum hag þeirra sem hafa lakari kjörin. Hann vildi hafa hag og öryggi sjómanna í háskerpu.

„Fyrir mér hefur nú lífið á sjó lengst af verið óeðlilegt ástand,“ segir Reynir þegar talinu víkur að þessum tíma, og það kemur nokkuð á óvart því maður gæti ætlað að svona nagli væri sægarpur og sáttur í meira lagi við að stíga ölduna. En þótt sjómannalögin bregði sum gylltri birtu á lífið í lúkarnum og á þilfarinu þá segir nú líka í laginu að sjómennskan sé ekkert grín.

„Ég fæddist á Búrfelli í Hálsasveit. Sveitin sú er fjarri hafi og fyrstu æviárin þekkti ég fátt annað en fjöllin og Reykjadalsánna sem liðast um sveitina. Hvorutveggja heillaði mig. Sjórinn kom ekki inn í myndina fyrr en ég kom til Flateyrar fimm ára gamall,“ segir Reynir og það er ekkert einfalt fyrir hann að rifja upp allt sem dreif á dagana hjá renglulegum sveitastrák að sunnan, nýkomnum á mölina í Önundarfirði.

„Ég var aðkomukrakki í þorpinu og fann fyrir einelti í upphafi sem náði hámarki í minningunni þegar hrúga af krökkum hafði mig undir og hlandblautur eineltisseggur settist ofan á andlitið á mér,“ segir Reynir sem var lengi að taka þorpið í sátt en varð svo sjálfur þorpari á endanum og sá engan annan veruleika. 

„Mér fannst ég aðeins hafa úr því að velja að fara á sjóinn eða vinna í frystihúsinu. Ég valdi sjóinn vegna tekjumöguleikanna. En í mínum huga fylgdi engin fegurð sjómennskunni á Vestfjarðamiðum, harðsóttasta hafsvæði landsins. Þetta var vinna og ekkert annað. Fegurðin var í sveitinni.“  

Reynir segir að þorpslífið hefði haft þá kosti að skila honum ákveðinni seiglu og hörku. „Sveitadrengurinn lærði að bölva og koma sér upp skráp og ég varð einn af jöxlunum á sjónum. Harðbýlið hefur líka nýst mér vel í að auka úthald og seiglu til að takast á við erfið verkefni á fjöllum og flatlendi.“

Gjörbreytt viðhorf til náttúrunnar á sjó og landi
Reynir stundaði sjómennsku fyrst af á línubátum og seinna á togurum. „Tíðarandinn var framan af sá að ruslinu var einfaldlega hent í hafið,“ segir hann þegar talinu er vikið að umgengni um auðlindina okkar. „Lengi tekur sjórinn við.“

Hann segir að sjálfsagt hafi þótt að brjóta niður kóralrif á hafsbotni og búa þannig til brautir sem hægt væri að draga veiðafærin yfir án þess að rífa þau. „Þetta var reyndar svipað uppi á landi þar sem jarðýtur ruddu slóða þar sem virðing var ekki borin fyrir einu eða neinu í náttúrunni. Í dag geri ég mér grein fyrir þeim sóðaskap sem fylgdi togveiðum þess tíma. Núna er viðhorfið gjörbreytt með þó undantekningum eins og sjá mátti í nýlegu myndskeiði þar sem sjómenn skáru sporð af hákarli og kættust. Um 1970 fór sögum af matsvein sem hafði unun af því að skvetta sjóðandi kleinufeiti yfir múkka sem flugu aftur með skipshliðinni til að ná sér í æti. Þetta dýraníð var fordæmt og er undantekning frá því sem almennt gerist hjá sjómönnum sem eru auðvitað eins og allir aðrir þegnar landsins.“

Fyndnar sögur af fjöllum
„Hver einasta ferð hefur verið ævintýri í sjálfu sér,“ segir Reynir þegar hann er hvattur til að rifja upp sögur af fjöllum. „Stórvinkona mín, Gunnsa Viðarsdóttir, hefur verið viðloðandi margar ferðir mínar ásamt börnum og barnabörnum. Hún er sannur gleðigjafi en hefur glímt við lofthræðslu. Eitt sinn var Næsta skrefið í Þórsmerkurferð og gengið upp að Magna og Móða. Þegar við fórum yfir Kattarhryggi, sem eru mörgum hindrun, varð Gunnsa miður sín af lofthræðslu. Það varð til þess að ég gekk þétt með henni og við læstum saman höndum. Þegar við vorum hálfnuð bað Gunnsa mig skjálfandi röddu að segja sér sögu til hughreystingar. Ég sagði það sjálfsagt og hóf söguna…
„Það var einu sinni maður sem byggði hús úr múrsteinum...“
Þá æpti Gunnsa upp yfir sig.  „Hættu, ég vil ekki heyra um neitt sem getur hrunið.”
Reynir segir að Gunnsa sé einn af uppáhaldsgöngufélögunum sínum og að lofthræðslan hafi minnkað smám saman. Elínborg Kristinsdóttir hefur líka lengi fylgt Reyni en hún er 77 ára gömul og algjör orkusprengja að hans sögn.

„Á dögunum fór hún með mér upp á Puig Campana á Spáni, sem er 1400 metra hátt fjall og snarbratt á köflum. Í hlíðinni spurði ég Elínborgu hvernig hún nennti að fara í allar þessar göngur. Hún var snögg til svars. „Það er vinnan mín að halda líkamanaum í lagi.“ Elínborg er bæði vinkona og fyrirmynd.“

Úlfarsfellið, hundarnir og krísurnar
Stundum er byr og stundum stendur gusturinn beint í fangið. Reynir hefur sótt sitt sólskin í fjöllin jafnvel þótt élin hafa dunið á honum á láglendinu. Þar hefur Úlfarsfellið verið nokkurskonar lausnari inn í lífið.  Líklega hefur enginn Íslendingur gengið oftar á Úlfarsfellið en Reynir Traustason. Þar er hans óðal. Hann hefur farið 1126 sinnum á hæstu bunguna á þessu fjalli sem losar röska 300 metra yfir sjávarmáli. Líklega er þessi tala úrelt þegar þetta er birt – en Reynir lætur aldrei staðar numið.

„Ég man alltaf fyrstu ferðina mína. Ég var tvo tíma að komast upp með öll mín 140 kíló. Fljótastur hef ég verið 15 mínútur. Úlfarsfellið er yndislegt fjall og sannkölluð perla í miðju höfuðborgarsvæðinu.“

Í flestum ferðanna á Úlfarsfellið hefur Reynir haft hund eða hunda sér við hlið, því honum hefur ekki alltaf dugað að eiga bara einn. „Hundarnir eru bestu vinir sem hægt er að hugsa sér,“ segir hann.
Hundarnir hans eru af tegundinni American Cocker Spaniel en þeir hafa gífurlegt þol á fjöllum og komast upp mikinn bratta.

„Helsti kosturinn er þó sá að þeir vilja umfram allt vera með manni. Þeim er sama hvort það er heima í stofu eða á fjöllum. Þeir eru fyrst og fremst félagar. Það hafa komið þannig tímar í lífi mínu að mér hefur fundist sem hundarnir séu þeir einu sem maður geti leitað til. Þeir hlusta en segja auðvitað ekkert, sem er heppilegt fyrir málglaðan mann í krísu.“

Gósentíð í Norðurfirði á Ströndum
En nú er engin krísa hjá Reyni Traustasyni því gósentíð í  Norðurfirði á Ströndum er næst á dagskrá. Margir þekkja hann af góðu einu úr sæluhúsi Ferðafélagsins þar sem hann heldur fast um stjórnartaumana og gaukar góðum ráðum að göngufólki enda eru Strandir ekki endilega sólríkasti staður landsins. Það þarf að huga að öryggi þegar farið er um snarbrött Strandafjöll, þokusækin skörð og þunglyndar heiðar.  Hús Ferðafélagsins í Norðurfirði er tvílyft og tekur tuttugu manns í gistingu. Þarna er rafmagn og hiti því nægur þótt veðrið úti sé ekki alveg upp á það besta. Í húsinu eru átta herbergi, þar er borðstofa og vel búið eldhús auk sturtu og tveggja salerna. Skammt undan er verslun og svo er sá munaður að hægt er að skella sér í sund á Krossnesi. Sumsé, allt til alls.

„Mér hefur liðið vel í Norðurfirði eins og sjá má af því að nú er ég að hefja  fimmta sumarið á þessum slóðum,“ segir Reynir. „En já, auðvitað er ekki alltaf sólskin. Þokan á það til að liggja dögum saman yfir og þá getur suddinn náð inn í sálina. En svo birtir upp og Strandafjöllin brosa við sólu. Þá víkur drunginn um leið og döggin,“ segir Reynir og er skáldlegur enda er hann flinkur penni og þekktur fyrir að greina kjarnann frá hisminu eins og háttar til með góða blaðamenn. Reynir er enda sískrifandi og er með bækur í smíðum eins og oftast en þær eru orðnar tíu talsins. Þær síðustu hafa allar verið með ferðalög í fókus.

Reynir segist einnig ætla að fara í nokkrar ferðir með hópa á fjöll í sumar. „Þá er ég með annan fótinn á Grænlandi þar sem Ferðafélag Íslands aðstoðar nú við stofnun Ferðafélags Grænlands. Framtíðin er því björt og ég mun njóta alls þess besta sem útivistin býður upp á.“

Reynir horfir út eitt andartak og tæmir svo úr kaffifantinum og bætir því við að það séu sönn lífsgæði að geta stundað fjallgöngur og aflað þeim almenns stuðnings undir fána Ferðafélags Íslands, félagsins sem bjargaði lífi hans.


Reynir á toppi Mont Blanc