Ferðaáætlun FÍ 2022 í umhverfisvænni netútgáfu

Markarfljótsglúfur er eitt af undrum íslenskrar náttúru
Markarfljótsglúfur er eitt af undrum íslenskrar náttúru

Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands 2022 fer í loftið á morgun 2. desember. Um leið verður hægt að skrá sig í ferðir og fjallaverkefni á heimasíðu FÍ. Ferðaáætlunin er gefin út á rafrænu formi og eiga allir aðgang að henni hér á heimasíðunni undir ferðir. Einnig má finna ferðaáætlunina á heimasíðunni, umbrotna í flettiforriti, ríkulega skreytta með fallegum myndum

Ferðaáætlunin er nú í  annað sinn gefin út eingöngu á rafrænu formi og eiga allir aðgang að henni hér á heimassíðu félagsins.
Stjórn FÍ hefur sett sér það markmið að félagið verðandi í fararbroddi í stafrænum lausnum og birtingu.  Um leið hefur æ stærri hópur félagsmanna nýtt sér áætlunina með nettengingu en slíkt má segja um lestur og margvíslega miðlun upplýsinga í seinni tíð s.s. í blaða- og bókaútgáfu, birtingu fréttabréfa,  Eins vill  Ferðafélagið leggja sitt af mörkum í umhverfismálum þ.á m. að draga úr pappírsnotkun sem óneitanlega er umtalsverð við prentun og útgáfu ferðaáætlunar í tugþúsunda tali.  

Vissulega sjá margir eftir því að geta ekki handleikið ferðaáætlunina, jafnvel haft hana á náttborðinu eða eldhúsborðinu og lesið sér til ánægju um allar þær ótrúlega mörgu ferðir sem í boði eru. Sumir hafa mikla ánægju af lestrinum enda þótt þeir ætli sé ekki í nokkra ferð á komandi ári. Á hinn bóginn gefur rafræna útgáfa áætlunarinnar ýmsa möguleika umfram pappírsútgáfuna.

Þá er líka þess að líta að ferðaáætlunin  og vinna ferðanefndar er með ríkari hætti sveigjanlegri en áður þ.e. nýjum ferðum verður bætt við eftir því sem aðstæður og eftirspurn kalla á. Þetta hefur félagið meðal annars lært í gegnum Covid aðstæður með góðum árangri.    Mikil aðsókn að ferðum og fjölgun félagsmanna gefur von um að vaxandi fjöldi muni ferðast með félaginu á næstu árum. Verður þá ferðum fjölgað og úrval þeirra gert fjölbreyttara og þær upplýsingar birtar á vef félagsins.