FÍ og Landsbjörg endurnýja samstarfssamning

Ólöf Kristín Sívertsen forseti FÍ og Kristján Þór Harðarson framkvæmdastjóri Landsbjargar handsala nýja samstarfssamning á milli félaganna.
Ólöf Kristín Sívertsen forseti FÍ og Kristján Þór Harðarson framkvæmdastjóri Landsbjargar handsala nýja samstarfssamning á milli félaganna.

Ferðafélag Íslands og Slysavarnafélagið Landsbjörg hafa gert með sér nýjan samstarfssamning. Markmið samningsins er að auka öryggi ferðafólks á hálendi Íslands og í óbyggðum.

FÍ og Landsbjörg eiga langa sögu um gott samstarf og hefur FÍ meðal annars verið einn af bakhjörlum Hálendisvaktar Landsbjargar. Ólöf Kristín Sívertsen, forseti Ferðafélags Íslands, er mjög ánægð með samninginn. ,,FÍ og Landsbjörg hafa lengi átt gott samstarf og eru um margt lík félög en bæði byggja þau starf sitt að mestu á vinnu sjálfboðaliða og starfa í þágu almennings í landinu. Þá er forvarnastarf og öryggi ferðafólks sameiginlegt verkefni okkar sem stöðugt þarf að vinna markvisst að," segir Ólöf.

Kistján Þór Harðarson framkvæmdastjóri Landsbjargar segir að  samstarf Landsbjargar og FÍ sé mjög mikilvægt „ Til margra ára hafa einingar Slysavarnafélagsins Landsbjargar staðið vaktina á hálendi Íslands ásamt skálavörðum FÍ og haft aðstöðu í skálum Ferðafélagsins. Sameiginlegt markmið félaganna í gegnum fjölmörg verkefni er að stuðla að aukinni fræðslu og öryggi ferðamanna á hálendi Íslands. Þetta samstarf er okkur ómetanlegt“.

Neyðarstöðvar í skálum FÍ

FÍ hefur í gegnum tíðina og í samstarfi við SL komið upp neyðartalstöðvum í skálum FÍ. Þessar neyðarstöðvar eru í anddyri skála FÍ og merktar sem neyðarbúnaður SL og FÍ. Þær virka eins og hefðbundnar neyðartalstöðvar í skýlum SL. Þessar neyðarstöðvar verða nú allar yfirfarnar og endurnýjaðar og um leið unnið að því að styrkja fjarskipta samband á fjöllum. Skálar FÍ eru með VHF sambandi og/eða símasambandi. Skálaverðir FÍ eru hluti af fyrstu viðbragðsáætlunum SL þegar kemur að björgun, eða útköllum á hálendinu, og SL getur nýtt sér aðstöðu og innviði á skálasvæðum FÍ við fyrstu hjálp á fjöllum.

Hálendisvakt SL

Ferðafélag Íslands styður hálendisvakt SL með gistiplássi í skálum FÍ þar sem Hálendisvaktin hefur aðstöðu hverju sinni. FÍ styður einnig við starf Hálendisvaktarinnar með fjárframlagi á ári hverju. Hálendisvaktin veitir ferðafólki á hálendi Íslands aðstoð með margvíslegum hætti og og sinnir forvarnarstarfi þegar kemur að slysavörnum á hálendi Íslands. Skálaverðir FÍ og Hálendisvakt SL eiga gott samstarf um sameiginleg verkefni sem snúa að öryggi ferðafólks á hálendinu.

Skilti og merkingar

FÍ og SL vinna sameiginlega að því að setja upp skilti og merkingar á fjölförnum gönguleiðum og upphafsstöðum þeirra með upplýsingum sem snúa að öryggi ferðafólks, búnaði, leiðarvali, árstíðarbundnum aðstæðum, erfiðleikastigi ofl. FÍ annast verkefnið og ber af því allan fjárhagslegan kostnað en sækir um styrki í verkefnið í samvinnu við SL og slíkir stryrkir renna í heild sinni til verkefnisins..

Björgunarsveitarfólk og fararstjórn

FÍ og SL kynna samstarf fyrir björgunarsveitarfólki SL sem snýr að möguleikum fyrir björgunarsveitarfóllki SL til að koma að fararstjórn hjá FÍ og er samstarfið kynnt einu sinni á ári fyrir björgunarsveitum SL. Um leið kaupir FÍ námskeið frá SL, t.d. GPS námskeið, skyndihjálp, ferðamennska og rötun, fjallamennska 1 og 2, jökla 1 og 2 og önnur námsskeið eftir atvikum.

Afnot björgunarsveita af skálum FÍ

FÍ býður björgunarsveitum forgang að skálum FÍ á veturna ef þær eru í leitum eða í skipulögðum æfingarferðum gegn ferðafélagsverði sem ávallt er besta verð sem FÍ býður upp á . Á móti heita björgunarsveitirnar aðstoð eftir atvikum, góðri umgengni og því að láta vita ef eitthvað er athugunarvert við búnað eða aðkomu að skálunum. Um annað samstarf og annað verð eru gerðir sérstakir samningar á milli FÍ og SL og eða einstakra deilda SL.