Fimm fræknu ætla alla leið

Á Sveifluhálsi laugardaginn 2. febrúar 2019.  Frá vinstri uppi, Jóhann Aron Traustason, Gunnar Óska…
Á Sveifluhálsi laugardaginn 2. febrúar 2019. Frá vinstri uppi, Jóhann Aron Traustason, Gunnar Óskarsson, Björn Zoëga Björnsson. Niðri frá vinstri Anna Sveinsdóttir og Linda Sveinsdóttir.

Fimm fræknu ætla alla leið

Lífið eftir Biggest winner

„Við byrjuðum að ganga saman fyrir fimm árum síðan með Biggest winner. Þá var kynningarfundur á Bolludaginn fyrir The Biggest Winner - fyrir feita, flotta og frábæra og stór hópur tók þátt. Þetta verkefni var á vegum Ferðafélags Íslands. Eftir að verkefninu lauk þá stofnuðum við gönguhópinn, Magna og Móða.  Með þeim hóp höfum við meðal annars farið í fjögurra daga gönguferð á Hornstrandir og yfir Fimmvörðuháls,” segir Björn Zoëga Björnsson, göngugarpur sem fyrir fimm árum sneri við blaðinu og tók upp nýjan lífstíl.

Fimm félagar úr Biggest winner-hópnum eru nú þáttakendur í gönguhópnum Alla leið sem Ferðafélag Íslands heldur úti. Það verkefni nær meðal annars til þess að ganga á hæsta tind Íslands, Hvannadalshnúk. Fimmenningarnir sem hafa náð þessum frábæra árangri eru gjarnan kölluð hin fimm fræknu. Auk þess að hafa styrkt sig og lést hafa þau öðlast ómæld lífsgæði.

Frá því þau útskrifuðust úr Biggest winner hafa þau haldið hópinn og farið víða í göngur. Þegar þetta viðtal var tekið voru þau fimm að koma úr göngu af Sveifluhálsi með þeim hópi Ferðafélags Íslands sem er með hvað háleitust markmið.

„Við fimm höfum svo farið í allskonar göngur og erum núna að taka þátt í Alla Leið 2019. Sum okkar eru að taka þátt í fjórða og fimmta skiptið. Ég er í hópnum í í þriðja skiptið.  Við göngum mikið, bæði saman og hver í sínu horni. Við keppum innbyrðis og erum stöðugt að hvetja hvert annað og setja okkur markmið,” segir Björn. .

Hvernig er ástandið á ykkur fimmmenningunum þessum árum eftir að þig tókuð þátt í Biggest Winner verkefninu?

„Ég er búinn að léttast mikið og styrkjast en heilt yfir þá held ég að við öll höfum aukið þol og styrk. Göngur eins og Fimmvörðuhálsinn á sínum tíma tók mikið á. Gangan á Sveifluháls tók á en var auðveldari því þolið hefur aukist. Svo má ekki gleyma allri fræðslunni, sem FÍ hefur miðlað af sér í gegnum tíðina, lærdómurinn hvernig á að búa sig og nesta fyrir ferðir sem þessar. Það er ómetanlegt,” segir hann.