Finndu þína innri hetju

Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall
Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall

Landvættaverkefni FÍ hefur algerlega slegið í gegn en í því reynir gríðarlega á afl og anda allra þátttakenda. Þrátt fyrir það fyllist yfirleitt í hópinn á hálftíma og jafnan er margra blaðsíðna biðlisti. Landvættaverkefnið hefur nú farið fram nokkur ár í röð og ef eitthvað er – þá eru vinsældirnar bara að aukast. En hvað er þetta eiginlega og af hverju er áhuginn svona gríðarlegur á þessum Landvættum?

„Fossavatnsgangan, Bláalónsþrautin, Urriðavatnssundið og Jökulsárhlaupið á 12 mánuðum,“ segir Róbert Marshall en hann leiðir þetta miskunnarlausa verkefni ásamt konu sinni Brynhildi Ólafsdóttur. Margir myndu nú bara snúa frá með tilþrifum við að heyra þessi nánast ókleifu verkefni nefnd – öll í einni bendu -  en Róbert segir að þessu fylgi gríðarlega fjölbreytt hreyfing sem krefjist ferðalaga og fjölbreyttrar líkamsbetingar.

„Þetta er fullkomin leið fyrir fólk til þess að finna sína innri hetju, komast út, upplifa veður og náttúru í allri sinni dýrð um allt land. Áskorunin inniber gönguskíði, fjallahjól, villisund og fjallahlaup í öllum landsfjórðungum. Það er þvílíkt ævintýri að taka þátt í þessu með góðum hópi.“  

Landsþekktir þrautakóngar

Þau Róbert og Brynhildur eru landsþekkt – kannski ekki endilega fyrir útivist þótt þau hafi vakið mikla athygli fyrir flotta sjónvarpsþætti um útiveru – þau voru nefnilega bæði lengi í fréttum í sjónvarpi og komu einkar vel fyrir. Brynhildur ólst upp í Grundarfirði og Róbert í Eyjum. Hann sat í talsverðan tíma á þingi og lét að sér kveða – sumir voru sáttir, aðrir voru á því að hann hefði átt að þegja meira. Þannig er það í pólitík. Hann hefur að auki komist í hóp þeirra heimsfrægu listamanna sem stýrt hafa brekkusöng á Þjóðhátíð í Eyjum.

Það er reyndar magnað hversu tónlistin hefur átt greiða leið inn í mannssálina í Eyjum og stundum fullyrt að allir séu þar skáld, helst þó þeir sem brjóta saltið úr skegginu eftir langan túr og setjast með gítarinn og finna einhverja hljóma sem öllum höfðu áður dulist. Júníus Meyvant er nýjasta ofurstjarna Eyjamanna í músíkinni. Hartnær níu milljónir hafa hlustað á lagið hans Gold Laces á Spotify. Í Eyjum fæddust áður fyrr lög og ljóð eftir menn eins og Ása úr Bæ, Oddgeir Kristjánsson og Árna úr Eyjum. Lög og ljóð sem allir þekkja og hálfpartinn eiga, en Róbert fer létt með að spila og syngja með sínu nefi. Blítt og létt, Ég veit þú kemur, Ágústnótt…

Róbert er reyndar ekki bara vel að sér um gítargripin, hann er líka einarður talsmaður náttúruverndar enda sat hann í umhverfisnefnd Alþings, í umhverfisnefnd Norðurlandaráðs og í Þingvallanefnd á þeim tíma sem hann var á þingi.

„Ég ólst upp í mikilli nánd við náttúruna í Vestmannaeyjum við sprang, klifur og bjargmennsku,“ segir Róbert sem saug úr eggjum á vorin og hljóp eftir fjallseggjum árið um kring.  Hann var auk þess í skátafélaginu Faxa á sínum yngri árum en í þeirri hreyfingu tengir ungt fólk sig í beint samband við allífið. Róbert glutraði um tíma að hluta til niður þessum miklu tengslum við náttúruna en fann svo útivistina aftur uppúr þrítugu í gegnum veiðar og fjallgöngur með Brynhildi.  

„Hún var mesta fjallageit sem ég hafði kynnst þegar við byrjuðum saman. Manni líður einfaldlega svo lifandi og svo vel á fjöllum og í útivistinni að þetta verður að lífsstíl þeirra sem þetta grípur svona fast.“

Brynhildur, fjallageitin eins og Marshall nefnir hana, hefur fengist við fararstjórn hjá Ferðafélagi Íslands í hartnær áratug, bæði í fjallaverkefnum félagsins sem standa allt árið og í lengri sumarleyfisferðum. Hún var líka um hríð verkefnisstjóri Ferðafélags barnanna sem er eitt skemmtilegast verkefnið á vegum Ferðafélagsins.


Heimaklettur og Kirkjufell

Girndin í náttúru og útiveru hefur bara aukist með aldrinum hjá þeim Róberti og Brynhildi. Róbert hefur hjólað á sig ævintýraleg rassæri í óbyggðum auk þess að hlaupa rinda og klífa hæstu tinda Alpanna og Afríku.

Brynhildur vill helst hafa fjölin í hærra lagi enda heldur hún utan um áskorun FÍ sem kallast „Hundrað hæstu.“  Jöklarnir heilla líka þessa kraftmiklu konu og löng vetrarferðalög á gönguskíðum. Þegar Brynhildur var í vöggu blasti við henni eitt frægasta fjall veraldar, Kirkjufellið í Grundarfirði, en það hefur meiri mátt en flest fjöll á Íslandi og togar fólk stöðugt til sín. Fá fjöll á jörðinni eru jafn áberandi á samfélagsmiðlum og þessi magnaði „sykurtoppur“ sem gerir fólk eiginlega bergnumið í orðsins fyllstu merkingu. Þangað hefur Brynhildur sótt orku óteljandi sinnum frá blautu barnsbeini og Róbert líka hin síðustu ár.

„Já, við eigum hvort sitt bæjarfjallið,“ segir Róbert,  „sem eru einmitt Kirkjufellið og svo Heimaklettur í Eyjum. Við erum samt ekki alveg sammála um hvort þeirra er fegurra.“

Öræfin, vötnin, árnar, strandirnar og hafið

Róbert, sem hefur viðað að sér þekkingu í óteljandi námskeiðum í ís- og klettaklifri, snjóflóðahættu, veðurfræði, kajaksiglingum, fjallaskíðamennsku og skyndihjálp, segir að fjallamennska og göngur séu ekki bara áhugamál hjá þeim hjónum, heldur lifibrauð þeirra beggja.

„Við erum allt í senn í útgáfu og framleiðslu fjölmiðlaefnis á sviði útivistar og í þjálfun, kennslu og fararstjórn. Útivistin og íslenska náttúran skipta okkur því hreinlega öllu. Okkar mesti fjársjóður er náttúran og nálægðin við hana í öllum þessum fjölbreytileika sem landið okkar býður uppá. Hér höfum við fjöllin, öræfin, vötnin, árnar, strandirnar, firðina og hafið sem leiksvæði. Allt er þetta í seilingarfjarlægð.“  

Það má með sanni segja að þetta sem Róbert lýsir svo skemmtilega, sé einmitt leiksvið Landvættanna en í þeim segir Róbert að fólk sækist í áskorunina, ævintýrið, félagsskapinn og ferðalagið.

„Ég held að þetta sé frábær leið til að halda sér í formi og upplifa um leið einhverja alveg nýja hlið á sér. Ein konan í þessari áskorun sagði stundarhátt við sjálfa sig þegar hún skíðaði síðustu kílómetrana í Fossavatnsgöngunni: Er þetta í alvörunni ég? Og ég held að þessi spurning dragi saman í einni setningu upplifun margra. Við höfum líka séð að fólk sem tekur þátt í þessu með okkur mætir ár eftir ár í þessar keppnir þannig að það er heldur betur að leggja inn fyrir framtíðina. Kannski er þetta tískubóla en hún er góð og holl og það sér allavega ekki fyrir endann á henni miðað við áhugann. Í fyrra komust færri að en vildu.“
 

Samheldni og ævarandi vinátta

Róbert og Brynhildur eru vinsælir fararstjórar enda hrikalega skemmtileg og fróð um landið og miðin og gauka endalausum sögum að fólki – þegar það hefur úthald til að sperra eyrun. Hópurinn í Landvættum heldur saman í um tíu mánuði og smám saman þéttist hann og samkennd verður mikil á endanum.  Vinátta sem myndast verður sterk og mun án efa haldast ævilangt.

„Við æfum saman minnst einu sinni í viku og fylgjum sameiginlegri æfingaáætlun, förum í æfingabúðir fyrir hverja grein og svo eru það auðvitað keppnirnar sjálfar. Öll þess samvera er stór hluti af upplifuninni. Maður leggur af stað í þennan leiðangur með 120 ókunnugum þátttekendum og hefur í lok fararinnar eignast jafnmarga nýja vini.“
 
Þegar átakið er mikið og álagið á köflum nánast óyfirstíganlegt, þá gætu margir ímyndað sér að þarna safnist einvörðungu saman fólk með hálfgerða ofurkrafta.

„Fólk þarf vissulega að vera í þokkalegu formi,“ segir Róbert,  „þetta er ekki hópurinn sem þú ferð í ef þú hefur átt lögheimili í sófanum undanfarin ár. Það eru til aðrir hópar til að koma sér af stað. En fólk sem er í ágætu hlaupaformi, getur tekið þátt í tíu kílómetra hlaupi og hreyfir sig reglulega, það á fullt erindi. Svo þarf fólk að vera svolítið þrjóskt og hafa þolinmæði og úthald til að setja undir sig hausinn og halda sig við efnið.“