Finnurðu fyrir streitu?

Edith Gunnarsdóttir
Edith Gunnarsdóttir

Jóga og göngur er nýjung  á vegum FÍ í samstarfi við Hugarsetrið. Edith Gunnarsdóttir hefur umsjón með verkefninu sem kynnt verður kl. 20:00 fimmtudaginn 9. janúar í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6. 

Við heyrðum í Edith og byrjuðum á að spyrja hana fyrir hverja Jóga og göngur væri ætlað. 

„Jóga og göngur er fyrir alla sem vilja njóta en ekki þjóta. Það hentar mjög vel byrjendum og fyrir þau sem eru að koma sér af stað aftur eftir hlé eða veikindi. Þetta er eins mjög gott fyrir þau sem eru undir álagi og vilja draga úr streitu.“ segir Edith. „Á miðvikudagskvöldum fræðumst við og göngum við í núvitund á lægri fjöll í nágrenni Reykjavíkur. Á föstudögum förum við svo í Jóga Nidra djúpslökun og lærum hugleiðslu og öndunaræfingar til að draga úr streitu. 

Þarf fólk að hafa þekkingu á jóga til að vera með? 

„Nei, fólk þarf ekki að hafa neina þekkingu á jóga eða hafa stundað það áður. Jóga nidra djúpslökun eða jógískur svefn er ævaforn tækni sem notuð er til þess að sameina hugleiðslu og slökun. Það mætti líkja því við liggjandi hugleiðslu, þar sem þátttakendur eru leiddir inn í kyrrðina handan hugans, liggjandi á dýnum með púða og teppi. Aðferðin er mjög áhrifarík til þess að kyrra hugann og ná þannig dýpri slökun til að öðlast betri stjórn á huganum og brjóta upp neikvæð hugsanamynstur.“ segir Edith og bætir við að Jóga Nidra stuðli einnig að auknu jafnvægi, betri svefni og dragi úr kvíða og streitu. Það sé einfaldlega endurnærandi. 

En hvernig kom þessi nýjung til?

Edith hefur gengið með þá hugmynd í maganum í þó nokkurn tíma að sameina jóga og göngur. Hún hefur starfað sem bæði jógakennari og leiðsögumaður í nokkur ár og hefur séð áhrifin af hvoru tveggja, ekki bara á öðrum heldur líka á sjálfri sér. „Ég lenti í bílveltu árið 2011 og þar með fór stoðkerfið. Með því að stunda útivist og jóga saman hef ég náð frábærum bata. Það er líka ótrúlega gefandi og gaman að sjá fólk taka framförum og það segir mér margt um gagnsemi aðferðanna. Til að vera í jafnvægi þurfum við líka að næra hugann og sálina en ekki einungis að þjálfa líkamann eins og við gleymum okkur gjarnan í.“

Eitthvað að lokum? 

„Ég segi alltaf að það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli eða að toppa tindinn heldur ferðalagið og fólkið sem maður kynnist á leiðinni, samveran og félagsskapurinn.“

Kynningarfundur Jóga og göngur