Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar hefst 4. maí

Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar á sinn stað hjá Ferðafélagi barnanna og hefst með göngu á Búrfell í Heiðmörk miðvikudaginn 4. maí. 

Gengið verður á fjögur fjöll þetta vorið og lýkur verkefninu með göngu á Akrafjall 29. maí. Göngurnar eru fyrir félaga FÍ og fjölskyldur þeirra og þarf ekkert að panta eða greiða fyrir þær, bara að mæta með góða skapið. 

Búrfell í Heiðmörk

Fyrsta fjallgangan af fjórum er á Búrfell í Heiðmörk, en það er þægileg og skemmtileg ganga á alvöru eldfjall og svo verður kíkt á á helli sem gerir gönguna enn meira spennandi!

Búrfell í Heiðmörk

Reykjafell í Mosfellsbæ

Önnur fjallgangan er á Reykjafell í Mosfellsbæ. Hún er stutt og skemmtileg og hentar öllum fjölskyldumeðlimum.
Þessi leið er kjörin til að byggja upp göngugleði fjölskyldunnar fyrir ævintýri sumarsins en af Reykjafelli er fallegt útsýni til allra átta. 

Reykjafell í Mosfellsbæ

Hattur og Hetta

Þriðja fjallgangan er á Hatt og Hettu. Gengið verður meðfram hverasvæðinu í Seltúni og upp tvo hnjúka sem heita Hattur og Hetta. Svæðið minnir dálítið á Landmannalaugar og er því góð æfing fyrir stærri ævintýri sumarsins. 

Hattur og Hetta

Akrafjall

Fjórða og síðasta fjallið í Fjallagarpaverkefninu er Akrafjall. Gengið verður á Háahnjúk, sem er í 553 metra hæð. 
Þetta er alvöru fjallganga sem getur verið örlítil áskorun fyrir lofthrædda. Útsýnið svíkur þó enga þegar upp er komið.  Að lokinni göngu verða Fjallagörpum afhent viðurkenningarskjöl fyrir árangurinn. 

Háihnúkur á Akrafjalli