Fleiri konur í jöklafararstjórn hjá FÍ

Ferðafélag Íslands innleiddi Vakann gæðakerfi ferðamálastofu í sitt starf fyrir þremur árum. Hluti af gæðakerfinu snýr að menntun fararstjóra. Ferðafélag Íslands er stolt af yfir 70 fararstjórum félagsins sem hafa ólíkan bakgrunn og reynslu og eru bæði konur og karlar á öllum aldri. Allir aðalfararstjórar félagsins hafa lokið grunnmenntun sem snýr að fyrstu hjálp, rötun og gps þekkingu, ferðamennsku 1 og 2. Þá eru yfir 40 farartjórar félagsins sem hafa lokið Fyrstu hjálp í óbyggðum – Wilderness first response og þá eru yfir 20 fararstjórar félagsins sem hafa öll réttindi til að leiða hópa í jöklagöngum og hafa lokið við jökla 1 eða jökla 2. Ferðafélagið býður á hverju ári upp á fjölmörg námskeið sem nýtast bæði fararstjórum félagsins og félagsmönnum og miða að því að auka þekkingu þekkingu sem stunda fjallamennsku.

 

Nú nýlega luku nokkrir FÍ fararstjórar námskeiði sem heitir jöklar 1 og gefur réttindi til að leiða hópa í jöklagöngu. Það var sérstaklega ánægjulegt að þetta voru allt saman konur og bætast þær nú í hóp jöklafararstjóra félagsins. ,,Við fórum bæði á Virkisjökul og Svínafellsjökul, lærðum að lesa í jökla og velja öruggugustu leiðirnar. Síga í sprungu og koma okkur aftur upp og setja upp kerfi til að bjarga manneskju úr sprungu. Og svo príluðum við upp ísveggi með og án ísaxa,” sagði Kolbrún Björnsdóttir fararstjóri hjá FÍ sem var ein þeirra sem lauk við námskeiðið.

 

,,Ég held að við höfum allar gert meira og lært meira en við áttum von á. Við ætlum svo að sjálfsögðu að halda þessari þekkingu við, styrkja hana og bæta við hana og erum strax byrjaðar að plana æfingar,” sagði Kolla og var afar ánægð með námskeiðið. Jón Gauti Jónsson fjallaleiðsögumaður hafði umsjón með námskeiðinu.