Frábær ferð hjá FÍ Ung

Ferðafélag unga fólksins hefur farið vel af stað á þessum vetri og metþátttaka var í fjölsóttri göngu á Akrafjall um helgina. Háskóli Íslands hefur átt gott samstarf við Ferðafélagið í þessari gönguseríu og vísindamenn eða vísindamiðlarar frá skólanum hafa reimað á sig gönguskóna með okkar fólki. Þeir hafa gengið með unga fólkinu og látið fróðleiksmola falla með jöfnu millibili. Í göngunni á Akrafjall var nokkur fjöldi stúdenta frá Háskóla Íslands og í hópi þeirra var Katrín Fríða Jóhannsdóttir sem er á þriðja ári í sjúkraþjálfun.


„Fjallgöngur eru frábær hreyfing þar sem maður fær að njóta náttúrunnar í leiðinni,“ sagði Katrín Fríða þar sem hún sat á efstu egginni á Háahnúki, í 555 metra hæð. „Ég elska að sjá útsýnið frá toppnum.“ Þetta var fyrsta ferð Katrínar Fríðu með FÍUNG en hún skráði sig í Ferðafélagið til að kynnast fleiri gönguleiðum en Ferðafélag unga fólksins er fyrir alla á aldrinum 18 til 25 ára sem vilja ganga og upplifa íslenska náttúru.
„Í fjallgöngum sér maður svo vel hversu landið okkar er fallegt. Mér finnst líka allir vera glaðari við útiveru,“ sagði Katrín og benti á samferðafólkið sem ljómaði allt á efstu brún Háahnúks.

Fróðleiksmolar á fjallseggjum
Fjallakempan John Snorri Skúlason leiddi gönguna á Akrafjall en með í för var Jón Örn Guðbjartsson frá Háskóla Íslands sem gaukaði ýmsum fróðleik að göngufólki.  Hann sagði m.a. frá útilegumanninum Arnes Pálssyni sem fæddist fyrir réttum 300 árum á Seltjarnarnesi. Arnes hélt um tíma til í Akrafjalli í útlegð sinni. Jón Örn sagði söguna af því þegar bændur undir fjallinu söfnuðu liði til að fanga Arnes sem hafði verið drjúgur við að stela sauðum. Arnes bjó sig þá eins og leitarmennirnir og laumaðist í hópinn og leitaði að sjálfum sér. Hann var sá eini í hópnum sem hafði erindi sem erfiði. Arnes slapp og leitarmenn fóru tómhentir heim.

Af Háahnúki er frábært útsýni yfir Akranes. Jón Örn talaði um afrek Akurnesinga eða Skagamanna í knattspyrnu þegar hann benti göngufólki á forna æfingasvæðið á Langasandi. Þar æfðu og spiluðu Akurnesingar á veturnar í eina tíð áður en þeir fengu knattspyrnuhúsið. „Karlalið Skagans er eitt hið sigursælasta í íslenskri knattspyrnusögu með 18 Íslandsmeistaratitla. Kvennalið Akranes vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil árið 1984 og fylgdu tveir titlar til viðbótar árin 1985 og 1987,“ sagði Jón Örn.

Haft var á orði á tindinum að líklega væri það vatnið sem gerði Akurnesinga að slíku afreksfólki en það kemur einmitt úr Berjadal í Akrafjalli.
Katrín Fríða sagði að sér hefði þótt mjög gaman að sögunum og fróðleiknum en Ísland væri þannig að vetrarlagi að ekki væri gott að stoppa of lengi, þá yrði fólki kalt.  Katrín Fríða er vön fjallaferðum þótt þetta hafi verið fyrsta gangan hennar með FÍUNG. Hún gengur með ferðateymi innan sjúkraþjálfunarskorar hjá Háskóla Íslands en félagið heitir eftir kennsluhúsi sjúkraþjálfunar, Stapa.

„Á hverju sumri er skipulögð ein stór ganga og við förum í aðra styttri til að hafa sem undirbúning fyrir þessa stóru og er hún líka ætluð þeim sem eru ekki vanir og eiga eftir að prófa búnað og fleira.“ Katrín Fríða segir að áhuginn á gönguteymi skólans sé svo mikil meðal nemenda að þeir haldi áfram í hópnum sem hafi jafnvel lokið námi og komi að því að skipuleggja ferðirnar.

Óvissuferð FÍ ung
Næst verður skemmtileg óvissuferð á vegum Ferðafélags unga fólksins en hún verður laugardaginn 30. mars.  John Snorri varð mjög dularfullur á svip þegar leitað var upplýsinga um áfangastaðinn.

„Ég læt ekkert uppi,“ sagði John Snorri þegar göngumenn voru komnir aftur niður að rótum Akrafjalls.

„Allt í lagi,“ sagði John Snorri svo þegar gengið var hart á hann, „ég get sagt ykkur þetta. Þátttakendur þurfa að hafa með sér sundföt, hjálma og höfuðljós eða vasaljós.“

„Ég stefni á að mæta,“ sagði Katrín Fríða.

Sameinast verður í bíla í upphafi ferðar, 30.mars klukkan 10, við skrifstofu Ferðafélagsins í Mörkinni 6.