Fræðsluganga og nýtt kort

Fræðsluganga á eins árs afmæli

Laugardaginn 19. mars 2022 er ár liðið frá því eldgos hófst í Geldingadölum en það stóð í hálft ár. Af því tilefni býður Ferðafélag Íslands til sérstakrar fræðslugöngu að gosstöðvunum á afmælisdaginn. Fararstjórar eru Tómas Guðbjartsson og Salome Hallfreðsdóttir, en jarðfræðingarnir Magnús Tumi Guðmundsson og Helga Kristín Torfadóttir munu annast fræðslu um svæðið. Gangan hefst kl. 11 frá bílastæði við Suðurstrandaveg og tekur um 5 klst. Öll velkomin og það kostar ekkert að taka þátt. Forseti Íslands stefnir á þátttöku.

Facebook viðburður fyrir gönguna á laugardag 

Við minnum á mikilvægi þess að vera vel búin enda enn allra veðra von í Geldingadölum og nauðsynlegt er að hafa nesti meðferðis.

Endurbætt göngu- og örnefnakort á sex tungumálum

Af sama tilefni gefur Ferðafélag Íslands út endurbætt göngu- og örnefnakort af svæðinu á sex tungumálum; íslensku, ensku, þýsku, frönsku, pólsku og kínversku. Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti sem íslenskt göngukort er gefið út á kínversku og pólsku. Kortið er hannað í anda gömlu dönsku herforingjakortanna og þar má finna helstu gönguleiðir við gosstöðvarnar, en einnig örnefni og forminjar eins og sel.

Við útgáfuna naut Ferðafélagið stuðnings Ferðamálastofu og Landsbjargar auk Loftmynda sem útveguðu nákvæmar loftmyndir af hrauninu.

Tilgangurinn með útgáfu kortsins er að hvetja fólk til gönguferða um Reykjanesskagann og reyna sig við mismunandi gönguleiðir að gosstöðvunum. Um leið er göngufólki beint á slóða sem þegar eru fyrir hendi og sjást á kortinu – og þannig komið í veg fyrir gróðurskemmdir og átroðning.

Í stuttum texta sem fylgir kortinu er helstu gönguleiðunum lýst og vísað í upplýsingar um útbúnað og veðurspá. Loks fylgir kortinu QR-kóði þar sem hægt er að hlaða niður nýjustu útgáfu kortsins rafrænt, t.d. í síma.

Landsbjörg nýtur góðs af sölu kortanna

Prentútgáfu kortanna á íslensku og ensku má nálgast í helstu útvistarverslunum og á skrifstofu Ferðafélags Íslands. Einnig er hægt að kaupa rafræna útgáfu kortsins í vefverslun okkar.  Kortið kostar 1000 kr. og rennur upphæðin óskipt til Landsbjargar. Höfundur kortsins er Tómas Guðbjartsson. 

Kaupa kort