Framkvæmdir að hefjast við uppbyggingu Valgeirsstaða í Norðurfirði.

Valgeirsstaðir í Norðurfirði, hús með mikla sögu.
Valgeirsstaðir í Norðurfirði, hús með mikla sögu.

Í næstu viku hefst vinna við uppbyggingu Valgeirsstaða skála Ferðafélags Íslands í Norðurfirði.  Húsið varð fyrir miklu tjóni í desember sl. þegar ofsaveður gekk yfir landið. Stefán Jökull Jakobsson umsjónarmaður skála FÍ segir að aðstæður í vetur hafi verið erfiðar. ,,Það var bæði ófært og óveður sem gerði okkur erfitt fyrir og eftir Covid19 og tveggja metra regluna þá urðum við að fresta framkvæmdum fram á vor,"   Hafist verður handa við uppbyggingu hússins í næstu viku og verður byrjað á því að tryggja rafmagn á svæðinu og í kjölfarið verður byggt nýtt þak og húsið klætt.  ,,Við gerum ráð fyrir að þessi fyrsti áfangi í uppbyggingu hússins taki 3 - 4 vikur og munum meta það í framhaldinu hvort við ráðumst í áfanga tvö síðsumars eða í haust."  Skálavörður verður í Norðurfirði í sumar frá lok júní og fram í miðjan ágúst.  Öll aðstaða á tjaldstæðinu verður opin og hægt að gista í tjöldum á svæðinu og endurbætt aðstaða fyrir gesti í gömlu fjárhúsunum. Vegna framkvæmda er ekki boðið upp á gistingu í skálanum í sumar en í Árneshreppi má finna góða gistiaðstöðu, meðal annars á Hótel Djúpuvík, gistiheimilinu Bergistanga og Urðartindi gistiþjónustu. 

Valgeirsstaðir í Norðurfirði geyma mikla sögu. Í janúar 1916 varð stórbruni á Melum. Þar brann íbúðarhús með viðbyggðri hlöðu og fjósi. Eftir stóðu hjónin Elísabet Karólína Sveinsdóttir frá Naustvík og Steindór Halldórsson frá Melum með ellefu börn. Tveimur árum síðar, fullveldisárið 1918, var hafin bygging á nýju húsi og mjög vandað til verka. Var það timburhús með járnþaki, en þá voru moldarbæir víðast en þó risin stórhýsi í Ófeigsfirði og á Dröngum. Smiður að húsinu var Sigurður Bjarnason, fjölhæfur hagleiksmaður sem drukknaði í hörmulegu sjóslysi með Eir á Faxaflóa 1926 og með honum fjórir aðrir ungir menn úr Árneshreppi.

Steindór lést skömmu eftir að húsið var fullbyggt, 1921, aðeins 55 ára að aldri. Elísabet flutti til Ísafjarðar, en sum af börnum þeirra hjóna lifðu alla ævi í Árneshreppi. Húsið var selt á uppboði, og voru kaupendur Valgeir Jónsson frá Eyri og Sesselja Gísladóttir frá Norðurfirði. Það var síðan rifið og flutt sjóleiðina yfir í Norðurfjörð og endurreist undir stjórn Njáls Guðmundssonar á Njálsstöðum, sem var smiður að mennt.

Valgeir og Sesselja byrjuðu búskap í Norðurfirði 1895 og eignuðust átján börn á tuttugu og einu ári. Þau fluttu inn í endurbyggt húsið árið 1923 ásamt fjórtán börnum. Síðar fæddust mörg barnabörn á Valgeirsstöðum en alls er talið að þrettán börn hafi fæðst í húsinu. Frá þeim hjónum er mikill ættbogi.

Valgeirsstaðir hafa þannig margvíslegt sögulegt og menningarlegt gildi. Húsið sjálft er til vitnis um þá byltingu í húsnæðismálum Íslendinga sem varð upp úr aldamótunum 1900 og miklu gildir líka að saga kynslóðanna á Valgeirstöðum vel varðveitt.

Eyjólfur Valgeirsson skráði sögu Valgeirsstaða árið 1997 að beiðni þv. forseta Ferðafélags Íslands, Hauks Jóhannessonar, en þá hafði FÍ fest kaup á húsinu. Í grein Eyjólfs er mikilsverður fróðleikur um húsið og fólkið sem þar bjó.