Fuglaskoðun í Gróttu á laugardag

Vorið er komið og farfuglarnir flykkjast heim. Margir vakna nú við fuglasöng á hverjum morgni og lóan kvakar í móa. Fyrstu fréttir af heimkomu lóunnar birtust í mbl.is  fyrir réttum mánuði en þá hafði sést til hennar í Stokksnesfjöru. Lóan kveður burt snjóinn eins og allir vita og leiðindin líka orti Páll Ólafsson.

Laugardaginn 27. apríl munu þeir Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, og Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði við Háskóla Íslands leiða árvissa fuglaskoðunarferð sem í þetta sinn verður á Seltjarnarnesi við Gróttu þar sem farfuglarnir safnast saman á þessum árstíma. Gangan hefst klukkan tíu á laugardag og er tilvalið að nýta sér bílastæðin næst Gróttu.

Ferðin er í röðinni Með fróðleik í fararnesti og tekur hún um tvær klukkustundir.  Þeir Tómas Grétar og Gunnar Þór munu bjóða upp á fræðslu um líf þeirra fugla sem ber fyrir augu en þátttakendur eru hvattir til að taka með sér sjónauka og gjarnan fuglabækur til að fletta í.  
Það verður samt án efa hægt að fletta duglega upp í þeim Tómasi Grétari og Gunnari Þór enda miklir fuglasérfræðingar og með margra ára reynslu í rannsóknum á fuglum himinsins.

Langt að komnir

Margir af þeim farfuglum sem halda nú til í fjörum landsins eru langt að komnir. Ótrúleg ratvísi farfugla hefur enda lengi verið rannsóknarefni vísindamanna. Gunnar Þór segir að sumir fuglar haldi sig þó nærri varpstöðvunum árið um kring. „Þeir eru heimakærir,“ segir hann. „Til að rata stuttar vegalengdir á milli staða nota fuglarnir minni, alveg eins og mannfólkið sem þekkir hvar húsið sitt er staðsett í ákveðnu hverfi í tilteknum bæjarhluta. En margir fuglar fara í langferðir til útlanda yfir veturinn og til að rata á slíkum langferðum nota fuglarnir magnaðar aðferðir,“ segir Gunnar Þór.

Tómas Grétar bætir því við að fuglar noti fjölbreytt skynfæri til að rata milli staða. „Til dæmis segulsvið jarðar, sólarkompás og reynslu þegar þeir eldast.“

Af hverju geta fuglar flogið?

Við mennirnir þurfum að sætta okkur við að ferðast með fótunum á sama tíma og fuglarnir svífa um himinninn. „Líf flestra fugla snýst um að geta flogið,“ segir Gunnar Þór, en þessi mögnuðu dýr virðast stundum sigrast á þyngdaraflinu og það heillar auðvitað manninn sem er vængjalaus. „Flug er mikilvæg aðlögun sem gefur fuglum forskot í lífsbaráttunni. Flug auðveldar fuglunum t.d. að forðast hættur og ferðast milli fjarlægra staða í leit að  betri skilyrðum. Flugið þróaðist á löngum tíma í smáum skrefum,“ segir Tómas Grétar.

Gunnar Þór bætir því við að þessi hæfileiki fuglanna hafi marga kosti í för með sér en einnig ýmsa galla. "Fuglar geta flogið vegna þess að þeir eru léttir og hafa fjaðrir og langa framlimi sem mynda vængi. Það að geta flogið hefur gríðarlega kosti eins og til dæmis að geta yfirstigið landfræðilegar hindranir og numið afskekkt búsvæði. Fórnarkostnaðurinn við flugið er hinsvegar sá að fuglarnir hafa ekki efni á þungum meltingarfærum til að fullnýta fæðu sína og þeir geta ekki notað framlimina eða vængina við dagleg störf eins og flest spendýr. Þá er beinabygging fugla veikbyggðari en hjá spendýrum vegna þess að þeir hafa hol bein til léttingar fyrir flugið," segir Gunnar Þór.

Fuglar mælikvarði á ástand vistkerfa

Tómas Grétar hikar ekki við að skjóta spurningum til baka í stað þess að svara beint þegar hann er spurður um mikilvægi rannsókna á fuglum.  „Hvað skiptir yfir höfuðmáli?“ segir hann. „Mörgum finnst að það sem hefur sem beinust áhrif á afkomu manna sé það sem skiptir máli. Gefum okkur að það sé sanngjörn krafa. Öll umsvif og tilvist manna eru háð náttúrunni. Þaðan fáum við öll hráefni, mat, súrefni, vatn, skjól o.s.frv. Vistkerfi spila saman við hringrásir ólífrænna efna í vatni, jarðvegi og lofti og tilvist okkar mannanna er háð þessu samspili. Fuglar eru hluti af vistkerfum og það er erfitt að halda öðru fram en að sem dýpst þekking á þeim kerfum sem halda í okkur lífinu sé æskileg. Þetta er víðtæka svarið.“

Gunnar Þór segir að rannsóknir á fuglum séu sérstaklega mikilvægar vegna þess að þær endurspegli heilbrigði vistkerfa. „Það er auðvelt að gleyma því að við erum öll partur af vistkerfum sem fylgja grundvallar lögmálum vistfræðinnar. Maturinn okkar er ekki uppruninn í búðunum og við mannfólkið verðum almennt að skilja sjálfbæra nýtingu auðlinda. Vegna þess hve fuglar eru áberandi og tiltölulega auðveld dýr til rannsókna þá hafa rannsóknir á þeim aukið skilning mannkyns á mikilvægum líffræðilegum ferlum sem við mannfólkið getum nýtt til að auka færni okkar á Jörðinni. Þar fyrir utan eru rannsóknir á fuglum mikilvægar til að tryggja velferð stofna sem eru á undanhaldi og auka skilning á þróunarfræðilegum ferlum sem má nota sem módel fyrir marga dýrahópa,“ segir Gunnar Þór.

Tómas Grétar segir að ef við horfum beint á þekkt gildi fugla fyrir vistkerfi og skilning okkar á vistkerfum megi nefna ýmis dæmi. „Fuglar eru t.d. oft ofarlega í fæðukeðjum og fuglarannsóknir gefa ódýrar vísbendingar um atburði á neðri fæðuþrepum. Fuglar flytja orku og áburð milli svæða, frjóvga plöntur, næra menn og fleiri verur. Fuglar bera líka sjúkdóma og geta valdið tjóni. Margt fleira mætti nefna af hagnýtum atriðum. Rannsóknir hafa líka miklu víðtækara og almennara gildi en það sem afmarkast af hagnýtum atriðum sem okkur tekst að tína til með nútímaþekkingu. Fuglarannsóknir eru líka skemmtilegar,“ segir Tómas Grétar og brosir.

Flestir eiga uppáhaldsfugla

Gunnar Þór segir að fuglar séu einu villtu hryggdýrin hérlendis sem séu oft fyrir augum okkar. „Sjarmi fuglanna nær til allra fyrr eða síðar á æviskeiðinu en misjafnt er hversu djúp tengsl myndast á milli manna og þeirra fugla sem þeir aðhyllast. Sumarbústaðamenning Íslendinga er vafalaust þáttur í því hvers vegna svo margir aðhyllast maríuerluna og skógarþröstinn. Þau forréttindi að komast út í náttúruna og hlusta á fuglana er mjög verðmæt auðlind. Allir sem hafa sótt innblástur, huggun eða þrótt til ákveðinna fuglategunda munu tengjast þeim tegundum út lífið. Ástæðan fyrir uppáhaldsfuglinum er að mínu viti sú að við tengjumst oft fuglum í gegnum okkar eigið líf vegna hæfileika þeirra í söng og atferli eða vegna þess hversu glæsilegir þeir eru. Hvort tveggja vekur upp sterkar tilfinningar.“

„Minn uppáhaldsfugl er spói,“ segir Tómas Grétar og brosir. „Fuglar eru frísklegir og áberandi. Dýr sem ekki geta flogið og flúið á vængjum láta síður sjá sig og almenningur kynnist þeim því síður. Líklega værum við líka spennt fyrir fljúgandi krókódílum. Það er eitthvað heillandi við flugið sjálft. Ætli tilhneiging fólks til að velja sér uppáhaldsfugl sé eins og að halda með liði í ensku,“ segir Tómas Grétar og hlær.

Ferðin laugardaginn 27. apríl er liður í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags barnanna um skemmtilegar gönguferðir í borgarlandinu undir yfirskriftinni Með fróðleik í fararnesti eins og áður sagði. Hún hefst klukkan tíu og er kjörið að leggja bílunum á bílastæðið næst Gróttu á Seltjarnarnesi.
Fuglagangan er frábært tækifæri fyrir fjölskyldur að fara saman og njóta útivistar og fá í leiðinni mjög skemmtilegan fróðleik um fuglana okkar.  Allt sem þarf er að mæta með góða skapið og vel búin – ekki er verra að vera í vaðstígvélum.  Það er líka betra að hafa með sér sjónauka.
Þátttaka er að sjálfsögðu ókeypis.