Ganga um Búrfellsgjá með ráðherra á fimmtudag

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, mun nk. fimmtudag skrifa undir friðlýsingu fyrir Búrfell, Búrfellsgjá og Selgjá sem er einstakt svæði ofan Garðabæjar. Í tilefni af friðlýsingunni mun Ferðafélag Íslands standa fyrir gönguferð í Búrfellsgjá og á Búrfell. Gangan hefst kl. 17 og mun taka tvær klukkustundir. Gönguferð í Búrfellsgjá er skemmtileg og þægileg ganga sem hentar vel fyrir alla fjölskylduna.

Um Búrfell

Búrfellsgjá varð til í býsna miklu eldgosi fyrir um átta þúsund árum í litlum eldgíg, sem nefnist Búrfell. Eldgosið hefur verið tiltölulega rólegt flæðigos, þar sem upp úr eldgígnum flæddi hraun niður á láglendið alla leið út í sjó. Aðalhraunstraumurinn var um mikla hrauntröð, en það er heiti á stórum hraunfarvegum þar sem hraun flæðir eins og risastór fljót frá eldgíg niður á láglendi þar sem það svo storknar og myndar hraun. Hraunin í miðbæ Hafnarfjarðar, í Garðabæ og Gálgahraun úti á Álftanesi eiga öll uppruna sinn í Búrfelli og Búrfellsgjá. Búrfellsgjá sjálf er því afar gott dæmi um svona hrauntröð.

Á göngu um Búrfellsgjá sjást margskonar hraunmyndanir, litlir hellisskútar, stórar sprungur og svokölluð misgengi, og svo auðvitað sjálf eldstöðin sem fæddi hraunið af sér. Þarna kemst maður í beint samband við innri öflin í jörðinni undir fótum okkar, sjálfa uppsprettu landsins sem eldvirknin á Íslandi er.

Um gönguna 

Gangan hefst frá nýju bílastæði við Heiðmerkurveg í Garðarbæ (sjá kort). Þar er skilti sem skýrir leiðina, hversu löng hún er og hvað er hægt að sjá á henni. Göngustígurinn er nýr og endurbættur og því mjög þægilegur á fótinn, hvort sem maður velji að ganga eða hlaupa hann. Ráðherra mun skrifa undir friðlýsinguna í fræðslugöngunni.

Brottför/Mæting

Kl. 17 – frá nýju bílastæði við upphafsstað göngu í Búrfellsgjá. Þátttakendur koma á eigin vegum að upphafsstað og eru hvattir til að sameinast í bíla. Ekið er upp í Heiðmörk frá Garðabæ eða Hafnarfirði og nýja bílastæðið er áberandi á hægri hönd um 2 km eftir að beygt er inn afleggjara í Heiðmörk. 

Fararstjórn

Snæbjörn Guðmundsson

Innifalið

Þátttaka ókeypis – allir velkomnir