Gestur Pétursson nýr í stjórn FÍ

Litadýrð í Friðlandinu að Fjallabaki
Litadýrð í Friðlandinu að Fjallabaki

Aðalfundur FÍ var haldinn 24 mars sl. Dagskrá fundarins var hefðbundin skv. lögum félagsins. Forseti flutti skýrslu ársins sem leið, ársreikningur félagsins kynntur og samþykktur, farið í gegnum lagabreytingar og kosið í stjórn. Nýr stjórnarmaður er Gestur Pétursson fararstjóri í félaginu sem setið hefur í ferðanefnd félagsins. Sigrún Valbergsdóttir og Gísli Már Gíslason voru endurkjörin í stjórn og Sigrún kjörin varaforseti félagsins til næstu þriggja ára. 

Stjórn FÍ skipa nú: Anna Dóra Sæþórsdóttir forseti, Sigrún Valbergsdóttir varaforseti, Pétur Magnússson, Gísli Már Gislason, Margrét Hallgrímsdóttir, Ólöf Kristín Sívertssen, Tómas Guðbjartsson, Sigurður Ragnarssson og Gestur Pétursson . 

Að lokum voru önnur mál á dagskrá þar sem rætt var um ýmis mál sem tengjast starfi félagsins. 

Í skýrslu stjórnar um árið sem leið sem Anna Dóra Sæþórsdóttir forseti flutti sagði meðal annars: 

Árið 2021 var annað árið í heimsfaraldri þegar Covid-19 herjaði á samfélag manna. Eins og alkunna er hefur Covid haft mikil áhrif á líf fólks og aðstæður, þar með talið á alla atvinnustarfsemi og þá sérstaklega ferðaþjónustu. Þannig var starfsemi Ferðafélags Íslands háð miklum breytingum og óvissu og stöðugt unnið við nýjar aðstæður og breytingar á reglum. Félagið nýtti sér þau úrræði sem stjórnvöld hafa boðið upp á til stuðnings ferðaþjónustu og atvinnulífi. Þessar aðstæður hafa sannarlega verið krefjandi, reynt mikið á aðlögunarhæfni starfsfólks og haft áhrif á allt starf félagsins.

Ferðafélag Íslands hefur lagt sig fram um að sýna mikla ábyrgð í starfi og fylgt sóttvarnarreglum í öllum sínum rekstri, bæði í ferðum, skálum og öðru starfi. Þá hefur verið ómetanlegt að þátttakendur í ferðum og gestir í skálum hafa lagt sitt af mörkum og fylgt reglum og lagað sig að breytingum og óvissu í starfinu.

Vegna óvissu var lögð áhersla á að fresta öllum stórum kostnaðarsömum verkefnum og sýna mikið aðhald í öllum útgjöldum en um leið leita allra leiða til sóknar.

Vöxtur félagsins

Þrátt fyrir krefjandi aðstæður hefur Ferðafélagið notið margvíslegra jákvæðra áhrifa vegna Covid-19. Þannig hefur félagsmönnum fjölgað um 2.000 á þessum tveimur árum og eru nú að nálgast 11.000 greiðandi félagsmenn og hafa þeir aldrei verið fleiri. Að sama skapi hafa landsmenn ferðast meira innanlands og minna erlendis og þátttaka í ferðum félagsins hefur aldrei verið meiri. Þar má sérstaklega nefna fjalla- og hreyfiverkefni félagsins en félagið hélt úti 25 slíkum verkefnum á árinu, langflestum fullbókuðum. Þannig eru fleiri hundruð manns áskrifendur að reglulegum fjallgöngum eða útivistaræfingum. Samanlagt var fjöldi þátttakenda í slíkum ferðum nálægt 35.000 í 540 brottförum.

Ferðaáætlun félagsins kom út í upphafi árs 2021, að þessu sinni í stafrænni útgáfu og var henni vel tekið af félagsmönnum og bókaðist strax vel í ferðir og verkefni. Sigrún Valbergsdóttir, formaður ferðanefndar, hefur leitt þá vinnu af stakri snilld og útsjónarsemi. Meðal annars með þeim áherslum að félagið hefur í auknum mæli boðið upp á nýjar ferðir og birt með skemmri fyrirvara á netinu. Heiðrún Meldal ferðafulltrúi og skrifstofa FÍ hefur staðið þétt við bakið á ferðanefnd og fararstjórum og annast alla daglega umsýslu við ferðir og verkefni. Á árinu stóð félagið fyrir hátt í hundrað ferðum, sumarleyfisferðum, helgarferðum, dagsferðum, skíðaferðum, ferðum með Ferðafélagi barnanna og FÍ Ung og fyrrnefndum 25 fjalla- og hreyfiverkefnum. Um sjötíu fararstjórar og 15 umsjónarmenn verkefna komu að þessum ferðum og verkefnum og unnu sína vinnu af alúð.

Á ári hverju eru fjölmargir, bæði félagsmenn og aðrir, sem leggja starfi félagsins lið. Öflugt sjálfboðaliðastarf hefur í áratugi borið uppi starf Ferðafélags Íslands. Sjálfboðaliðastarf hefur þannig lagt grunninn að sterkri fjárhagslegri og félagslegri stöðu félagsins en FÍ er eitt stærsta og öflugasta félag landsins. Sjálfboðaliðar á vegum félagsins og þar með allra deilda þess hafa á mörgum undanförnum áratugum byggt upp skála og gönguleiðir sem eru öllum opnar. Sjálfboðaliðastarfið er þannig ómetanlegt í starfsemi félagsins og mikilvægt að standa vörð um allt það starf sem félagsmenn og sjálfboðaliðar vinna. Öllum þeim fjölmörgu sem lagt félaginu lið á árinu er þakkað fyrir þeirra góðu vinnu og ánægjulegt samstarf.