Gleði við hvert fótspor

Hrönn, Hörður og Sölvi í Laugavegsgöngu og styttist í Mörkina.
Hrönn, Hörður og Sölvi í Laugavegsgöngu og styttist í Mörkina.

Gleði við hvert fótspor með Ferðafélagi barnanna

„Markmiðið með Ferðafélagi barnanna hefur ávallt verið að skapa skemmtilegan vettvang fyrir börn og fjölskyldur þeirra til að njóta útiveru, takast á við nýjar og spennandi áskoranir og hafa einafaldlega gaman af því að leika sér úti.“

Þetta segir Hrönn Vilhjálmsdóttir sem nú leiðir starf Ferðafélags barnanna innan FÍ, ásamt manni sínum Herði Harðarssyni. Óhætt er að segja að þessi uppskrift að félagsskap hafi virkað með stæl því starfið hefur notið mikilla vinsælda frá fyrsta degi. Þau eru því orðin býsna mörg börnin sem hafa sótt lengri og skemmri ferðir á vegum Ferðafélags barnanna.

Komum hreinlega alsæl heim eftir hverja ferð

Þau Hrönn og Hörður hafa tekið þátt í ferðum Ferðafélags barnanna í 10 ár og hafa notið hverrar ferðar með börnunum sínum. Þau hjónin tala nánast í kór um hvað það hafi veitt þeim mikla gleði og ánægju að kynnast fjölda fjölskyldna í þessu verkefni. „Við komum hreinlega alsæl heim eftir hverja einustu ferð. Svo er frábært að geta sinnt svona verkefni sem börn okkar hjóna hafa sömuleiðis gaman af. Flestir sem þekkkja okkur Hörð vita að við höfum gríðarlega gaman af því að ferðast og þá sérstaklega á Íslandi með börnunum okkar,”

,, Fyrstu skrefin sem við tókum í fjallamennsku voru í ferðum á vegum Ferðafélags Íslands og síðar með Ferðafélagi barnanna og höfum við farið í ansi margar ferðir á þeirra vegum síðastliðin 10 ár sem hefur opnað fyrir okkur nýja möguleika og við höfum lært mjög margt ásamt því að njóta þessara ferða, samverunnar og ekki sýst náttúrunnar

Við Hörður höfum nú tekið að okkur umsjón með starfi Ferðafélags barnanna og hlökkum mikið til að leiða börn og fjölskyldur þeirra um landið okkar, í styttri og lengri ferðir og leita nýrra ævintýra , “ segir Hrönn.

Fjallagarpaverkefni fjölskyldunnar fer af stað í maí hjá Ferðafélagi barnanna. Framundan eru einnig spennandi göngur í samstarfi við Háskóla Íslands undir yfirskriftinni "Með fróðleik í fararnesti" þar sem við ætlum að fara í fjöru, skoða fugla, skordýr og sveppi og síðast en ekki síst sumarleyfisferðir um Laugaveginn, Víknaslóðir, Lónsöræfi, Norður á strandir og fleira.

Í Langadal

Áhersla á gleðina 

Ferðafélag Íslands stofnaði Ferðafélag barnanna að norskri fyrirmynd fyrir rúmlega 10 árum og hefur það markmið að kynna börnum og fjölskyldufólki íslenska náttúru og stuðla að útiveru og hreyfingu, allt á forsendum barnanna. Hörður segir að það sé virkilega skemmtilegt að sjá staðfestuna í krökkunum að klára göngurnar í þessum mögnuðu ferðum.

FÍ og Ferðafélag barnanna á í frábæru samstarfi við Háskóla Íslands undir nafninu Með fróðleik í fararnesti. Þar koma flinkir og skemmtilegir vísindamenn frá Háskólanum og bjóða upp á fróðleiksgöngur um t.d. fugla, skordýr, sveppi, fjöruna, landsnámsmenn og stjörnurnar. Þetta eru gríðarlega vinsælar göngur ár hvert og mjög ánægjulegt að geta boðið börnum upp á njóta náttúrunnar og fá fróðleikinn samhliða.

Þess má geta að Ferðafélag barnanna er hugsað fyrir félagsmenn FÍ en engu að síður eru fjölmargar ferðir ókeypis og bara fyrir alla – þetta á t.d. við um fróðleiksferðirnar með Háskóla Íslands.

Við hvetjum fjölskyldur til að taka þátt í starfi Ferðafélags barnanna og njóta þess að hreyfa sig í íslenskri náttúru – er eitthvað hollara? Það er alla vega erfitt að finna eitthvað skemmtilegra. Sjá nánar um Ferðafélag barnanna á heimasíðu FÍ. 

Á Laugaveginum við einn af 24 vegvísum á leiðinni sem Ferðafélag Íslands hefur sett upp.