Grændalur, Grænsdalur, Grænadalur eða Grensdalur?

Göngufólk á leið um Grændal síðasta vetur.
Göngufólk á leið um Grændal síðasta vetur.

Grændalur er ein af perlunum okkar. Hann liggur upp af Hveragerði og er hluti af Henglinum, einu stærsta háhitasvæði landsins. Minni umgangur er um dalinn en Reykjadal þó hann verði sífellt vinsælli til útivistar. Grændalur er talinn hafa hátt verndargildi á heimsvísu og það er því mikilvægt að ganga sérstaklega vel um hann eins og við eigum reyndar gera á öllum öðrum svæðum. 

 

En hvaðan kemur þetta nafn og af hverju er talað um Grændal, Grænsdal, Grænadal og jafnvel Grensdal? Hvert þessara nafna ætli hafi komið fyrst og af hverju? 

 

Það verður skoðað á fræðslufundi Nafnfræðifélagsins á morgun, laugardaginn 21. september, í stofu 202 í Odda. Oddi er eitt af húsum Háskóla Íslands og hefst fyrirlesturinn kl. 13:15. Það er Aðalsteinn Hákonarson, verkefnastjóri á Stofnun Árna Magnússonar sem flytur erindið sem verður án efa fróðlegt.